Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Mánudaginn 17. maí 2004, kl. 12:41:34 (8377)

2004-05-17 12:41:34# 130. lþ. 118.2 fundur 997. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (verðsamráð í mjólkuriðnaði) frv. 85/2004, 1000. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (samningur um mjólkurframleiðslu 2005--2012) frv. 61/2004, ÁÓÁ
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 130. lþ.

[12:41]

Ágúst Ólafur Ágústsson:

Frú forseti. Að mínu viti eru bændur harðduglegt fólk. En mér sýnist þetta frumvarp hæstv. landbúnaðarráðherra ekki bera það með sér að hann deili þeirri skoðun minni. Ég held að frumvarpið lýsi gríðarlegri vantrú á bændum, setji hömlur á stéttina, komi í veg fyrir nýliðun og í raun komi í veg fyrir að íslenskir bændur geti nýtt sér þá hlutfallslegu yfirburði sem þeir vissulega hafa.

Ég er sannfærður um að staða bænda gæti verið miklu betri við annað kerfi. Bændur eru bundnir á klafa opinberrar verðstýringar og opinberrar framleiðslustýringar. Það er með ólíkindum að lesa fullyrðingar í greinargerðum þessara frumvarpa sem koma frá hæstv. landbúnaðarráðherra. Þar er fullyrt að hagfræðileg lögmál gildi ekki um landbúnað og að opinber verðstýring sé neytendum til góðs. Ýjað er að því að samkeppni sé ekki æskileg á þessum markaði og gott ef hæstv. landbúnaðarráðherra lét ekki hafa eftir sér að það væri alveg agalegt ef þessi samkeppnislög mundu gilda um landbúnaðinn og það yrði beinlínis komið í veg fyrir að menn gætu rætt saman. Það var hrikalegt ástand að mati hæstv. landbúnaðarráðherra. En núna á að binda kerfið sem við búum við í átta ár í viðbót.

Ég held að þessi frumvörp hæstv. landbúnaðarráðherra lýsi skorti á langtímasýn, skorti á trausti og trú á íslenskum bændum og skorti á vilja til að efla íslenskan landbúnað til lengri tíma. Það eru engar smáupphæðir sem við erum að ræða um í þessu máli, rúmir 27 milljarðar. Samkvæmt frumvarpi hæstv. landbúnaðarráðherra er stuðningur Íslendinga við mjólkurframleiðslu einhver sá mesti í heiminum. Við erum á toppnum þarna með Sviss og Noregi. Við erum að tala um 4 milljarða króna á ári. Það mætti reka Háskóla Íslands fyrir þá upphæð, 4 milljarða króna á ári. Þetta eru 11 milljónir á dag, ein milljón á klukkustund. (Gripið fram í: Eru ekki 24 klukkustundir í sólarhring?) Það er ef þú vinnur 11 tíma á dag, vinnutími. Við getum litið á það þannig. (Gripið fram í: Já.) Ég á eftir að furða mig á því hvernig hægt sé að réttlæta þessi gríðarlega miklu útgjöld og ég tel mikilvægt að líta á þetta í heild sinni. Stjórnmál snúast um forgangsröðun að mínu viti. Hvernig ætlar Framsóknarflokkurinn að réttlæta þessi gríðarlegu útgjöld á sama tíma og við erum að skera niður í heilbrigðiskerfinu? Á sama tíma og við erum nýbúin að ganga í gegnum mjög sársaukafulla niðurskurðarlotu á Landspítalanum stefnir í að önnur slík lota verði í haust og sú lota verður miklu sársaukafyllri.

[12:45]

Um er að ræða sömu peningana. Þetta kemur úr sama pottinum. Landspítalann vantar um það bil 500 milljónir. Talað er um að Háskóla Íslands vanti um það bil 300 milljónir. Öryrkjar voru sviknir af Framsóknarflokknum um 500 milljónir. (Landbrh.: Bull.) Setjið þetta í samhengi við það sem þetta frumvarp lýtur að, 4 milljarða á ári. (Gripið fram í.) Þetta kemur allt úr sama pottinum. Ríkissjóður hefur 275 milljarða króna til að útdeila á hverju einasta ári og þessi ríkisstjórn hefur ákveðið að meira skuli fara í landbúnaðarkerfið beint og óbeint heldur en það sem fer í alla framhaldsskóla landsins.

Hvar eru hinir ungu þingmenn Sjálfstæðisflokksins? Af hverju eru þeir ekki í salnum? Af hverju eru þeir ekki við þessa umræðu, hinir ungu hv. þingmenn sem kosnir voru á grundvelli hugsjóna um frjálslyndi og frjálsan markað? Það er kannski ekkert skrýtið eftir umræðu síðustu viku að þeir hafi kokgleypt allar sínar hugsjónir og gleymt þeim um leið og þeir urðu þingmenn. Við sjáum þá ekki setja nein spurningarmerki við þetta frumvarp. Þeir virðast ætla að kyngja þessum 27 milljarða króna pakka. Ég held að það hefði verið miklu hyggilegra af hæstv. landbúnaðarráðherra og þingmönnum að byrja að tappa okkur úr þessu kerfi. Kerfið er slæmt en ég er ekki að segja að bændur séu ofsælir af sínum kjörum. Það er langt frá því. Það eru bændur sem verða fyrir skaða af þessu kerfi. Það eru neytendur sem verða fyrir skaða af þessu kerfi. Um það snýst þetta. Við höfum allt of lengi búið við kerfi í landbúnaði sem er óhagkvæmt bæði fyrir bændur og neytendur. Ég held einfaldlega að nú sé komið nóg. Við eigum ekki að festa þetta kerfi í átta ár í viðbót. Það er hvorki bændum né íslenskum landbúnaði til hagsbóta. Við þurfum að byrja á að trappa okkur frá þessu kerfi. Við þurfum að gefa bændum aðlögunartíma að sjálfsögðu. Þeir hafa búið við vonlaust kerfi í allt of langan tíma. Við þurfum að byrja að fikra okkur í átt að meira frjálsfræði og frelsi á þessum markaði.

Við þurfum að innleiða markaðslögmálin í íslenskan landbúnað. Það væri bændum til hagsbóta. Það væri neytendum svo sannarlega til hagsbóta. Við eigum að leyfa sömu lögmálum að leika um þennan markað eins og alla aðra markaði. Markaðshagkerfið hefur margsannað sig, aftur og aftur, í raunar öllum hagkerfum. Þau eru algild. Það kann að koma sumum á óvart en markaðslögmálin gilda hér á landi. En í ljósi þess að við þurfum að trappa okkur frá þessu kerfi er einfaldlega rangt að binda það og festa í sessi í átta ár. Við þurfum að hugsa upp nýjar leiðir til að hægt sé að búa við sterkt landbúnaðarkerfi, frjálsræði og frelsi og öfluga nýliðun meðal íslenskra bænda. Hæstv. landbúnaðarráðherra, Guðni Ágústsson, hefur nýverið boðað heildarstefnumótun um starfsumhverfi landbúnaðarins til næstu 15--20 ára en á sama tíma kemur þessi samningur upp á átta ár. Hæstv. landbúnaðarráðherra boðaði framsóknargræna bók um heildarstefnumótun um starfsumhverfi landbúnaðarins. En á sama tíma kemur hann með samning til átta ára, til 2012.

Í þessu frumvarpi er engin viðleitni til að fikra sig í átt að hagstæðara kerfi, sanngjarnara kerfi og skynsamlegra kerfi. Það á að halda sér við status quo. Það á að halda áfram að moka milljörðunum á hverju einata ári í íslenskan landbúnað.

Að lokum vil ég segja við 1. umr. þessa máls að það er mín skoðun að með verkum sínum sé hæstv. landbúnaðarráðherra óvinur neytenda og dragbítur á bændur.