Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Mánudaginn 17. maí 2004, kl. 12:50:49 (8378)

2004-05-17 12:50:49# 130. lþ. 118.2 fundur 997. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (verðsamráð í mjólkuriðnaði) frv. 85/2004, 1000. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (samningur um mjólkurframleiðslu 2005--2012) frv. 61/2004, landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 130. lþ.

[12:50]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Gjafir eru mér gefnar af hv. þm. ,,Óvinur neytenda og óvinur bænda.`` Ég hygg nú samt sem áður, þrátt fyrir þessi miklu gífuryrði, þrátt fyrir þennan hroka og yfirlæti þessa unga hv. þm., að þá séu neytendur á Íslandi tiltölulega sáttir við sinn landbúnað og vilji standa vörð um hann.

Af því að hv. þm. er Evrópusinni og hefur kynnt sig sem slíkan þá fór ég yfir það áðan og spyr hann að því hvers vegna í flestum nágrannalöndum okkar Íslendinga sem við berum okkur saman við sé að finna sérreglur um framleiðslu og viðskipti með landbúnaðarafurðir. Þetta á sér stað í Evrópu og þar eru landbúnaðarreglur og það er ráðherraráðið sem ákveður hvað heyrir undir samkeppnisreglur. Landbúnaður í Evrópu býr við mikla sérstöðu eins og á Íslandi og sem betur fer skilja það orðið margir hv. þingmenn Samfylkingarinnar.

Hv. þm. gerir mikið úr þessum peningum. Í fjárlögum fara hátt í 7 milljarðar til landbúnaðar á Íslandi. Það er svona 2,5% af fjárlögum íslenska ríkisins. Þetta eru framlög sem koma í hollri og góðri vöru niðurgreiddri til neytenda. Ég hef á minni tíð heyrt neytendur vilja standa vörð um þessar frábæru vörur og líta á þær sem demantinn frá landbúnaði heimsins eða miða við að Ísland sé í fremstu röð. Neytendur vilja enga áhættu taka í þeim efnum. Það er því mikil samstaða um íslenskan landbúnað. Tvö og hálft prósent af framlögum í fjárlögum íslenska ríkisins fer þetta og skilar sér til neytenda. Um þetta kerfi er því tiltöluleg sátt. (Forseti hringir.) Landbúnaðurinn hefur undir þeim samningum sem gerðir hafa verið við hann, hæstv. forseti, verið að þróast mjög ört. Þar er mikil nýsköpun og mikil gróska.