Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Mánudaginn 17. maí 2004, kl. 12:55:09 (8380)

2004-05-17 12:55:09# 130. lþ. 118.2 fundur 997. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (verðsamráð í mjólkuriðnaði) frv. 85/2004, 1000. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (samningur um mjólkurframleiðslu 2005--2012) frv. 61/2004, landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 130. lþ.

[12:55]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. talar af lítilsvirðingu til íslenskra bænda. Hann þykist styðja þá. Hann talar niður til þeirra af ótrúlegum hroka. Íslenskir bændur eiga fullt traust og þeir standa sig vel. Þeir hafa verið að þróa atvinnuveg sinn örar en aðrir í þessu þjóðfélagi undir þeim samningum sem þeir hafa gert við ríkisvaldið. Hér er upp risinn mikill vitringur meðal vor sem segir að stefna Evrópusambandsins sé nú arfavitlaus í landbúnaðarmálum en íslenska stefnan sé þó vitlausari. Hér er vitringur upp risinn sem ég átta mig ekki á hvaða tillögur hefur fram að færa aðrar en gera lítið úr öllu því sem gert er hér og gera lítið úr íslenskum landbúnaði við þessa umræðu sem kemur mér töluvert á óvart. Landbúnaðarafurðir á Íslandi til neytenda eru ekki hlutfallslega dýrari en annað. Þær hafa hækkað minna í verði á síðustu árum en margt annað eins og ég rakti í ræðu minni (Forseti hringir.) þannig að íslenskur landbúnaður er í örri þróun til hagsældar fyrir íslenska neytendur og bændurnir (Forseti hringir.) hafa mjög verið að styrkja sín bú, ekki síst í mjólkinni.