Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Mánudaginn 17. maí 2004, kl. 12:59:54 (8383)

2004-05-17 12:59:54# 130. lþ. 118.2 fundur 997. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (verðsamráð í mjólkuriðnaði) frv. 85/2004, 1000. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (samningur um mjólkurframleiðslu 2005--2012) frv. 61/2004, ÁÓÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 130. lþ.

[12:59]

Ágúst Ólafur Ágústsson (andsvar):

Frú forseti. Það er jákvætt að hv. þm. Ögmundur Jónasson átti sig á því að hér er um að ræða sama pottinn. Það er rétt að bera saman ein ríkisútgjöld við önnur. Við þurfum að velja á milli. Það er ekki hægt að gera öllum til hæfis. Stjórnmál eru spurning um forgangsröð. Mér finnst afskaplega erfitt að réttlæta útgjöld upp á 4 milljarða króna í vonlaust kerfi sem ekki er neinum til hagsbóta á sama tíma og við getum ekki sinnt grunnþjónustunni almennilega (Landbrh.: Feðraorlofinu.), grunnþjónustunni, Landspítalanum (Landbrh.: En feðraorlofið?) sem núna stendur í afskaplega erfiðri niðurskurðarlotu. Þetta er spurning um forgangsröð. Hv. þm. Ögmundur Jónasson hefur sína forgangsröð. Ég hef mína. En það er mikilvægt að bera þessi útgjöld saman því einhvers staðar koma peningarnir frá.

Svo ég víki að fyrri hluta andsvars hv. þm. Ögmundar Jónassonar þá tel ég að markaðslögmálin hafi sannað sig aftur og aftur. Þeir sem hafa talað gegn þeim hafa farið á hausinn, hvort sem það eru einstaklingar, fyrirtæki eða lönd. En markaðslögmálin eiga ekki að búa við óheft umhverfi. Við jafnaðarmenn höfum aldrei talað fyrir því. Við viljum öfluga samkeppnislöggjöf. Hæstiréttur Bandaríkjanna kallaði samkeppnislöggjöf stjórnarskrá atvinnulífsins. En ef við færum okkur aftur að þeim frumvörpum sem hér eru til umræðu þá á einmitt að klippa á gildissvið samkeppnislaga því hæstv. landbúnaðarráðherra vill ekki að samkeppnislög gildi um landbúnaðinn. Hann vill eiga samráð og finnst það alveg agalegt ef (Gripið fram í.) samkeppnislögin ættu að gilda um landbúnaðarkerfið þannig að menn mættu ekki tala saman. Það væri alveg agalegt að mati hæstv. landbúnaðarráðherra. Ég segi það enn og aftur að ég tel að við eigum að fikra okkur af skynsemi úr þessu kerfi og (Forseti hringir.) gefa bændum aðlögunartíma en alls ekki binda kerfið til átta ára sem er allt of langur tími með allt of háum upphæðum að mínu viti.

(Forseti (ÞBack): Ég bið hv. þingmenn um að virða ræðutíma sem er svo stuttur.)