Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Mánudaginn 17. maí 2004, kl. 13:06:59 (8387)

2004-05-17 13:06:59# 130. lþ. 118.2 fundur 997. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (verðsamráð í mjólkuriðnaði) frv. 85/2004, 1000. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (samningur um mjólkurframleiðslu 2005--2012) frv. 61/2004, ÁÓÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 130. lþ.

[13:06]

Ágúst Ólafur Ágústsson (andsvar):

Frú forseti. Það er ánægjulegt að vera kallaður hjarta Samfylkingarinnar. Látum það nú vera hvort ég sé það, sem ég reyndar efa. (Gripið fram í.) Mér finnst ákveðin hræsni berast frá munni hv. þm. Drífu Hjartardóttur. Hún tilheyrir flokki sem kennir sig við frelsi einstaklingsins og frjálslyndi og frjálsræði í atvinnulífinu. Hún er í flokki sem í stefnuskránni sinni bendir iðulega á að einstaklingurinn eigi að vera frjáls til athafna, orðs og æðis og svo framvegis. Við þurfum ekki annað en að líta til umræðna á þingi í síðustu viku til að sjá að það er ekkert á bak við þetta og við sjáum það aftur hér þegar fulltrúi Sjálfstæðisflokksins, væntanlega þá hjarta Sjálfstæðisflokksins, talar fyrir kerfi sem hefur sýnt sig að er ekki bændum til hagsbóta og er afskaplega dýrkeypt íslenskum neytendum og íslenskum skattgreiðendum.

Samningurinn er ekki góður. Hann er kostnaðarsamur. Hann er dýr. Hann viðheldur kerfi sem hefur margsinnis sýnt sig að virkar ekki og hann stuðlar ekki að bættu kerfi sem við ættum að vera að tala um hér.

Að sjálfsögðu eigum við að bera þetta saman við önnur ríkisútgjöld. Hv. þm. Drífa Hjartardóttir talar um engan niðurskurð á Landspítalanum. Hún getur þá sagt það því fólki sem er búið að segja upp á Landspítalanum frá áramótum. Hv. þm. getur komið með þennan málflutning næsta haust þegar hinn raunverulegi niðuskurður hefst, (Gripið fram í.) þegar sársaukinn hefst. Þá getur hún haldið langar ræður um nauðsyn þess að verja tæplega 30 milljörðum í landbúnaðarkerfið. Þá getur hún haldið langar ræður um það.