Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Mánudaginn 17. maí 2004, kl. 15:03:23 (8390)

2004-05-17 15:03:23# 130. lþ. 118.2 fundur 997. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (verðsamráð í mjólkuriðnaði) frv. 85/2004, 1000. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (samningur um mjólkurframleiðslu 2005--2012) frv. 61/2004, ÞES
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 130. lþ.

[15:03]

Þórarinn E. Sveinsson:

Hæstv. forseti. Ég kem upp til að ræða um þau tvö mjólkurfrumvörp sem fyrir liggja og vil byrja á því að lýsa ánægju minni með að þessi frumvörp skulu vera fram komin. Með þeim höfum við þingmenn fengið mikið úrval gagna og mikla skýrslu sem veitir okkur allítarlegar upplýsingar um mjólkurframleiðsluna, bæði frumframleiðsluna og mjólkuriðnaðinn.

Gögn þau sem hér eru fram lögð held ég að sanni fyrir okkur að þótt sumum virðist þessi iðnaður kannski flókinn þá er hann þrátt fyrir allt töluvert gegnsær og þar eru málin skýr og uppi á borði. Sá farvegur hefur mótast þar í gegnum síðustu ár að menn hafa unnið að framgangi iðnaðarins í góðu samstarfi aðila vinnumarkaðarins, verkalýðshreyfingar, samtaka bænda og stjórnvalda. Þessi frumvörp eru áframhaldandi staðfesting á því og það tel ég vera mjög af hinu góða. Mjólkuriðnaðurinn er mjög sérstakur iðnaður. Hann er einstaklega fjármagnsfrekur í tækjabúnaði. Hann er mjög viðkvæmur. Það vita allir. Það er langeinfaldast að ímynda sér hvað mjólkin er fljót að súrna þegar maður gleymir henni á borðinu. Nákvæmlega þannig er iðnaðurinn. Ég held að enginn vilji drekka sjálfsýrða mjólk og það vill enginn hafa súran iðnað. Því er mikilvægt að halda stöðugleika í iðnaðinum. Mönnum er tíðrætt um að í honum eigi að vera miklu meiri samkeppni en er með þessu frumvarpi. Að mínu viti er ekki svo. Þessi iðnaður er, eins og ég segi, viðkvæmur. Í öllum okkar næstu nágrannalöndum gilda um hann mjög sérstök lög. Bændur í flestum nágrannalöndunum semja um sín kjör við ríkisvaldið með einhvers konar aðkomu annarra aðila samfélagsins, vinnumarkaðarins eða annarra og staðfestir það að jafnvel í miklu stærri samfélögum gilda mjög stífar umferðarreglur um þennan iðnað. Það er alveg ljóst að í hinu fámenna samfélagi okkar er engin von til þess að koma upp samkeppni innan mjólkuriðnaðarins sjálfs. Það mun aldrei finnast einn flötur á því að sú samkeppni muni geta verið á nokkurn hátt virk.

Samkeppnin við mjólkuriðnaðinn kemur frá öðrum matvælaiðnaði, öðru því sem fólk lætur í sig og, eins og hér hefur margoft komið fram, frá stöðugt opnara alþjóðaumhverfi. Það höfum við séð á síðustu árum að þaðan fær mjólkuriðnaðurinn aðhald. Því er mikilvægt að um hann gildi þær stífu umferðarreglur sem verið hafa, að þar sé mikið gegnsæi og allar upplýsingar séu þar öllum aðgengilegar. Ég veit að ef þingmenn lesa þau gögn sem hér fylgja með, skýrsluna sem hér hefur verið unnin og er fylgiskjal með samningnum, þá er ekki mörgum spurningum ósvarað þar á eftir.

Ég segi að samkeppnin komi utan frá og held einmitt að þessi samningur taki mjög mið af framtíðinni. Samningurinn tekur mið af því að yfir standa GATT-umræður. Það eru kannski aðallega þeir samningar sem snerta okkur í þessari grein. GATT-samningarnir voru raunar lagðir á ís núna á síðasta ári og þar verða næst teknar upp umræður í alvöru um áramót eða undir áramót, í desember. Það er mál manna að ekkert muni gerast í þessum alþjóðasamningum fyrr en í fyrsta lagi góðan tíma eftir að forsetakosningum í Bandaríkjunum er lokið. En þessi samningur er framsýnn að því leyti til að hann opnar á það að taka tillit til þess sem ef til vill hugsanlega mun gerast í næstu GATT-samningum. Þar er heldur ekkert verið að missa fótanna yfir einhverju sem við óttumst að muni gerast. Það sem gerist í næstu GATT-samningum og næstu alþjóðasamningum er ekkert sem er að koma yfir okkur á næstu missirum, ekkert alveg á næstunni. Það eru mörg ár í það. Auk þess er venjan í þannig samningum að góð og ítarleg aðlögun mun verða gefin að málinu. Samningurinn tekur einmitt til þess vegna þess að ef svo ólíklega vildi til að eitthvað gerðist sem þarf að taka tillit til þá eru í honum endurskoðunarákvæði. Auk þess er verið að færa hluta greiðslnanna yfir í aðrar greiðslur. Þetta eru beint framleiðslutengdar greiðslur sem virðast vera það sem stefnt er að.

Eins og ég er búinn að segja nokkrum sinnum þá eru í skýrslunni og gögnunum sem fylgja með samningnum ítarleg gögn um mjólkuriðnaðinn. Með því til dæmis að fletta upp á blaðsíðu 20 og skoða mynd 3-1 þá sjá menn stærð mjólkuriðnaðarins miðað við landbúnaðinn. Nautgripaafurðir eru helmingur búvöruframleiðslunnar og hefur svo verið alllengi þannig að við sjáum raunar að við erum að tala um lífæð landbúnaðarins og um leið og það er sagt þá vitum við öll að lífæðar byggða landsins fá ansi mikla næringu út úr þessari grein.

Þegar rætt er um hagræðingu kemur það einnig fram í þessari skýrslu að mikil hagræðing hefur orðið í mjólkuriðnaði og mjólkurframleiðslu síðustu árin. Á sömu síðu, 20, sést ágætis súlurit yfir fækkun kúabúa í frumframleiðslunni og stærð þeirra. Einnig hefur orðið mikil fækkun í mjólkuriðnaði. Þar hefur eignarhaldið einmitt einnig breyst á síðustu árum þannig að segja má að iðnaðurinn sé allur undir beinni stjórn bænda og fellur undir beina ákvörðunartöku þeirra sem mestra hagsmuna eiga að gæta framleiðslumegin.

Það er svolítið gaman að nefna það sem ég held að komi einnig fram í þessu þó ég geti ekki vísað í kökurit --- ég er ekki búinn að finna það --- að raunar allan seinni hluta síðustu aldar eða alla vega frá því milli 1960 og 1970 hefur verið framleitt sama magn af mjólk í landinu. Mjólkurmagnið hefur legið í þetta 100 milljónum lítra. Það fór hæst í 120 milljónir rúmlega í kringum 1968--1970. Annars hafa bændur landsins framleitt nánast jafnmikla mjólk allan tímann. Það gefur því augaleið að þar hefur verið mikil hagræðing. Tekjumunstrið er allt annað bæði í frumframleiðslunni og iðnaðinum núna en var fyrir 30--40 árum síðan sem segir okkur að það hefur orðið hagræðing og vörubreyting. Það er löngu þekkt, og staðfest í mjólkuriðnaði að öll bestu lögmál vöruþróunar eiga þar við, að ef iðnaðurinn þróast ekki áfram deyr hann smátt og smátt af sjálfu sér. Við getum nefnt mörg dæmi úr iðnaði um það. En ef við tölum um mjólkuriðnaðinn þá sjáum við að þar er mjög öflug vöruþróun. Til er þumalfingursregla --- þó merkilegt sé er hún ekkert fjarri því sem við sjáum í hugbúnaðargeiranum --- um að vörumunstur fyrirtækis breytist á tíu ára fresti og raunar enn fyrr. Þær tekjur sem við lifum á í dag, þær vörutegundir sem útvega okkur mestar tekjur í dag eru allt öðruvísi en þær sem það gerðu fyrir fimm og tíu árum. Þarna samræmast einmitt hagsmunir mjólkurframleiðslunnar neytendamunstrinu enn einu sinni. Ég veit vegna starfa minna í mjólkuriðnaði að mikil áhersla er lögð á hollustu og heilbrigt fæði. Mikill kraftur er settur í samstarf við heilbrigðisstéttir og fyrirbyggjandi aðgerðir og mikil áhersla er lögð á börn og skólamjólk og þar held ég að okkar iðnaður standi raunar enn framar en hjá mörgum nágrannaþjóðum okkar. Við ítarlegan lestur þessarar skýrslu sér maður að ekki vantar hagræðinguna. Orðið hefur mikil hagræðing. Auðvitað má alltaf deila um hvort nóg sé og hagræðingin eigi að vera meiri en hér kemur fram. Það er umdeilanlegt. En skýrslan staðfestir alla vega að hér hefur orðið ánægjuleg framþróun. Það er sérstaklega nauðsynlegt í þessum iðnaði að halda hægfara en öruggri þróun eins og ég sagði í upphafi máls míns. Þessi iðnaður þolir engar stórbyltingar. Hann á að fá að þróast hægt og rólega.

Í sjálfum úrvinnsluiðnaðinum voru árið 1992 15 mjólkurbú. Nú eru þau eftir níu. Því er ljóst að þessi iðnaður hefur tekið á sig mikla hagræðingu. Í töflu á blaðsíðu 45 sér maður til dæmis bornar saman útreiknaðar kostnaðarhækkanir í mjólkuriðnaði og það sem fengist hefur bætt upp í verðlaginu. Þar sést að menn hafa tekið á sig allverulega hagræðingu síðustu árin miðað við aðrar kostnaðarhækkanir í landinu.

Í umræðunum minntist einhver á gífurlega mikið upp safnað eigið fé í mjólkuriðnaðinum. Það er vissulega rétt og ég held að menn eigi að líta á það sem mjög ánægjulega staðreynd. Menn geta velt því fyrir sér hvað eigið fé eigi að vera mikið. Það er mjög mikið í mjólkuriðnaði. En það er algjör forsenda þess að geta tekist á við samkeppni erlendis frá. Þaðan kemur hún hægt og bítandi á næstu árum. Ég held einmitt að með þessari stöðu í mjólkuriðnaði þurfi menn ekki að óttast hana.

Hæstv. forseti. Vegna þessa fagna ég þessum frumvörpum. Ég lýsi mig mjög sammála því að um mjólkuriðnaðinn, eins og raunar marga aðra starfsemi í landinu, þurfi að gilda sérlög. Samkeppnislög eiga að mínu viti ekki við á þessum pínulitla markaði. Þessi samningur styrkir það starf sem hefur verið mótað á síðustu árum og undirbýr bændur landsins betur undir vaxandi opnari heimsviðskipti, vaxandi samkeppni og stuðlar að stöðugleika í framleiðslunni og í því sem við örugglega öll viljum fá. Við viljum hafa hér öflugan innlendan matvælaiðnað.