Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Mánudaginn 17. maí 2004, kl. 15:17:23 (8391)

2004-05-17 15:17:23# 130. lþ. 118.2 fundur 997. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (verðsamráð í mjólkuriðnaði) frv. 85/2004, 1000. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (samningur um mjólkurframleiðslu 2005--2012) frv. 61/2004, GAK
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 130. lþ.

[15:17]

Guðjón A. Kristjánsson:

Hæstv. forseti. Við erum nú að ræða frumvarp um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum. Það kemur nokkuð seint hér inn. Það er svo sem ekki vitað á þessari stundu, hæstv. ráðherra, hversu langan tíma við höfum. Alla vega er nokkur óvissa um hvernig þinghaldinu reiðir fram. Það hefur að minnsta kosti ekki verið upplýst enn þá, viti hæstv. forseti þingsins hver áætlunin er. Þar af leiðandi gefst okkur ef til vill nægur tími til að vinna það mál sem hér er til umræðu. Ég tel mjög gott að þetta mál skuli koma inn í þingið hvort sem okkur tekst að klára það eða ekki. Það væri að mörgu leyti æskilegt að klára það. Ég held þó að málið sé kannski ekki í uppnámi þó við mundum ekki klára það fyrr en snemma á næsta hausti. Enn er nokkur tími til stefnu. Ég tek hins vegar undir að það er eðlilegt að menn reyni að klára svona mál enda skiptir þá starfsstétt sem hér um ræðir, mjólkurframleiðendur, kúabændur verulega miklu máli hvernig til tekst með framtíðina.

Hæstv. forseti. Við í Frjálslynda flokknum höfum lýst því yfir að við vildum gjarnan sjá ákveðnar hægfara breytingar í landbúnaðinum. Við höfum ekki verið talsmenn þess að leggja af styrki til landbúnaðarframleiðslunnar. En við höfum hins vegar velt því upp við framsetningu okkar á málinu að hugleiða vandlega það fyrirkomulag sem verið hefur á styrkjagreiðslum í landbúnaði, framleiðslustyrkjunum, og höfum bent á að eðlilegt væri að horfa til þess í framtíðinni, eins og reyndar er gert í þessum samningi að hluta til, að breyta því sem við köllum greiðslur á framleiddan lítra mjólkur yfir í það sem við höfum sett fram í samræmi við okkar hugmyndir, að svokallaðir byggðastyrkir, það er að segja búsetustyrkir, styrkir á hvert bú og landnýtingarstyrkir tækju við í meira mæli miðað við framleiðslustyrkina.

Að nokkru leyti er farið inn á það í þessu frumvarpi og talað um greiðslur sem færast yfir á gripi. Reyndar má til gamans geta þess að eins og ég les þetta alla vega, og er ég kannski enginn sérfræðingur í þessu, þá sýnist mér að kýrnar verði að minnsta kosti að hafa fætt einu sinni til þess að fá þennan fæðingarstyrk, hæstv. landbúnaðarráðherra, og að það skuli vera gaumgæfilega vottað að svo hafi verið. (Gripið fram í: Borið.) Já, þegar við tölum um kýr þá bera þær eins og kindur. En ég segi þetta vegna þess að við mennirnir höfum komið okkur upp sérstöku fæðingarorlofi. En hér erum við að fara með hluta af greiðslunum yfir í greiðslur á gripi miðað við ákveðna tölu og horfum þar til kynbóta og annars slíks. Síðan er talað um að fara skuli með hluta af framleiðslunni yfir í það sem kallað er grænar greiðslur. Um það skal liggja fyrir samkomulag samkvæmt frumvarpinu og þeim samningi sem það byggir á. Í samningnum segir, með leyfi forseta:

,,Fyrir 1. september 2006 skal liggja fyrir samkomulag milli aðila um ráðstöfun greiðslna samkvæmt þessum lið til óframleiðslutengdra og/eða minna markaðstruflandi stuðnings, m.a. til eflingar jarðræktar.``

Þetta er auðvitað í samræmi við þann samning sem menn hafa verið að líta til, það er að segja WTO-samningagerðarinnar. Í þeim samningi er grænn stuðningur skilgreindur svo að hann geti náð til aðgerða eins og almennrar þjónustu við landbúnaðinn, rannsókna, tekjutengingaráætlana, ótengds tekjustuðnings, byggðastuðnings, stuðnings áætlana í þágu umhverfis og svo framvegis. Ég held að það sé rétt af okkur að horfa til þess kannski í meira mæli en við gerum í þessum samningi þó það sé hér að vissu leyti óútfært þannig lagað þá var tekið fram að 1. september skuli þetta koma fram.

Ég vil spyrja hæstv. landbúnaðarráðherra til að fá upplýsingar í 1. umr. --- ég ætla ekki að hafa mjög langt mál að þessu sinni --- hvað sé nýjast að frétta af viðræðum um WTO-samninginn og frá þeim viðræðum öllum og hvert þeir stefni. Það væri gaman að fá nokkur orð frá hæstv. ráðherra um það í ræðustól á eftir.

Síðan er gert ráð fyrir því í 9. gr. þessa samnings sem er undirstaða frumvarpsins sem hér er rætt um að skipaður verði þriggja manna gerðardómur til að skera úr um ágreiningsefni. Mig langar að spyrja, hæstv. forseti, hvort slíkt fyrirkomulag hafi verið í fyrri samningum, hvort þar hafi verið einhvers konar gerðardómur sem hafi skorið úr um ágreiningsefni. Það segir einmitt hér að úrskurður gerðardóms sé bindandi fyrir samningsaðila. Á að líta svo á að það þýði að ágreiningi úr gerðardómi verði ekki skotið til dómstóla? Þýðir það það í raun og veru? Þessari spurningu vildi ég gjarnan fá svarað við 1. umr. málsins.

Hér hefur réttilega verið vikið að ýmsum málum, til dæmis kjötframleiðslunni og því þegar bankastofnanir tóku það sér fyrir hendur að standa fyrir mikilli svína- og kjúklingaframleiðslu. Það er auðvitað gagnrýni sem mér finnst eiga fullan rétt á sér. Reyndar hafa bankarnir í vaxandi mæli á fleiri sviðum verið að taka beinan þátt í atvinnulífinu með eignaraðild. Það er auðvitað spurning hvernig menn ætla að láta það þróast á komandi árum og missirum. Nú er það þekkt að þrátt fyrir að bankarnir hafi vafalaust tapað einhverju fé á þessari kjúklinga- og svínakjötsframleiðslu eru þeir að græða sem aldrei fyrr og spurning hvort það sé framtíðin að fjármálastofnanir hagnist verulega í þessu landi en aðrar atvinnugreinar eigi undir högg að sækja. Það er áhyggjuefni að horfa á hvernig skuldir landbúnaðarins hafa verið að þróast. Ef maður lítur á blaðsíðu 40 þar sem er meðaltal langtíma- og skammtímaheildarskulda í sérhæfðum kúabúum samkvæmt uppgjöri búreikninga þá verður að segjast alveg eins og er að skuldasöfnunin stefnir ansi mikið upp á við. Þessi mikla skuldasöfnun tengist að sjálfsögðu örugglega uppkaupum á mjólkurkvótum og þar með fækkun búa. Því fylgir sjálfsagt hagræðing í geiranum. Þetta er samt geigvænleg skuldasöfnun. Ef litið er á blaðsíðu 45 í þessari skýrslu og maður skoðar neðstu töfluna þar sem er um skuldsetningu búanna þá sést að skuldsetningin hefur aukist mjög mikið. Hækkun skulda er 53% samkvæmt fyrra gagnasafni, ef ég les rétt úr þessu, og 20% samkvæmt öðru gagnasafni sem ég er ekki alveg nákvæmlega með á hreinu hvað þýðir. Það er talað um gagnasafn 1 og gagnasafn 2. Mér finnst, hæstv. ráðherra, ákveðin varúðarmerki vera í þessari miklu skuldaaukningu. Ég spyr í framhaldi af því hvort líta megi svo á að sú stefna sem mótuð er í frumvarpinu varðandi gripagreiðslurnar --- í raun hverfa þær út, ef ég skil þetta rétt, þegar gripir eru orðnir fleiri en 200 í fjósi, mjólkandi kýr. Hlutfall gripagreiðslnanna skerðist eftir fjölda gripa, fjölda kúa --- ég vildi gjarnan að hæstv. landbúnaðarráðherra svaraði því hvort sú stefnumótun sem hér er lagt upp með, það er að segja að draga í raun úr stuðningi við bú sem eru komin með yfir 200, hvort það sé álit hæstv. landbúnaðarráðherra að það þjóni ekki hagsmunum landbúnaðarins og þá sérstaklega byggðar í þessu landi að stuðla frekar að því að búin stækki mikið umfram þetta. Þegar við fjöllum um þennan umrædda samning erum við vissulega að ræða hvernig byggð þróast í þessu landi. Sá sem hér stendur hefur verið mikill talsmaður þess að viðhalda byggð í landinu og talið að það væri þjóðinni verðmætt til framtíðar. Ég er ekki sérlega hlynntur því að stefna hér í einhvern algeran stórrekstur kúabúa. Auðvitað væri hægt að hugsa sér að mjólk yrði nánast eingöngu framleidd á Suðurlandinu, í Eyjafirði og Skagafirði. Slíkt gæti gerst ef menn ætla að láta samþjöppunina ganga til enda. Ég ekki hlynntur því að stuðla að þeirri þróun að bændur safnist saman við stórbúarekstur á tiltölulega fáum svæðum á landinu. Ég tel að það eigi að vera markmið, og vona að það séu þau viðhorf sem hér er verið að lýsa, að reyna að halda landinu í byggð og tryggja búsetu í landinu meðal annars með því hvernig þessi samningur er útfærður. Ég óska eftir að hæstv. ráðherra fjalli um það.

[15:30]

Ég held að ég sé efnislega búinn að víkja að flestu í upphafi máls sem ég hefði viljað fá svör við frá hæstv. ráðherra. Þó er eitt sem mig langar að spyrja um. Á blaðsíðu 13 í þessari skýrslu kemur fram að fyrir framleiðslu mjólkur innan núgildandi samnings, það er greiðslumark, fá framleiðendur greitt 47,1% af afurðaverði frá ríkinu en 53 tæp frá afurðastöðvunum. Nú kom það fram að heldur er dregið úr stuðningi í þessum samningi og síðan er verið að breyta hluta af greiðslunum yfir í bláar og grænar greiðslur, það er að segja gripagreiðslur og landnýtingarstyrki eða búsetustyrki. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvað hann telji að þetta hlutfall breytist mikið á samningstímanum. Má áætla að hlutur afurðastöðvanna í verðinu nálgist ef til vill 60% í lok samningstímans og að greiðslur frá ríkinu í afurðaverðinu verði þá lægri sem því nemur eða um 40%? Hvernig telur hæstv. ráðherra að þessar tölur þróist á gildistíma samningsins með tilliti til þess sem í samningnum er um hinar bláu og grænu greiðslur sem ég vék að áðan?

Það er algerlega ljóst að við erum að tala um mjög mikilsvert mál þegar við ræðum um bændur í þessu landi, mjólkurframleiðendur í þessu tilviki og viðhald byggðar í landinu. Mér finnst það skipta verulega miklu máli og okkur í Frjálslynda flokknum finnst að það skipti verulega miklu máli hvernig til tekst við að halda landinu í byggð. Ég ítreka enn og aftur að við höfum ekki lagt til að ganga þannig um í sambandi við breytingar í landbúnaði að við værum að hætta byggðinni eða vega að byggðum í landinu. Við viljum að þessar breytingar gerist hægt. Spurningin er: Er hér ekki heldur of hægt farið í breytingum á þessum greiðslum? Hér er um að ræða annars vegar bændur og síðan auðvitað ríkið og hagsmuni okkar af þeim fjármunum sem við látum í þennan samning, það er rekstur mjólkurstöðvanna eða afurðastöðvanna. Sá sem hér stendur vill alla vega mjög gjarnan að afurðastöðvarnar úti á landi haldi velli. Ég tel að það skipti verulega miklu máli fyrir byggð og atvinnustefnu í landinu. Ljóst er að niðurgreiðslan sem felst í þessum samningi tryggir auðvitað neytendum lægra verð og vonandi heilnæma vöru og það er auðvitað meginmarkmiðið, það er að tryggja heilnæma vöru. Sem betur fer njótum við þess frá íslenskum landbúnaði að hafa gæðavöru bæði í mjólk og kjötframleiðslu. Ég tel að við eigum að hlúa að því og hlúa að okkar sérstöðu í því.

Það er líka mikilsvert að smásölumarkaðurinn sé með þeim hætti að menn geti nálgast mjólkurafurðir sem víðast og að sala þeirra safnist ekki á tiltölulega fáar hendur stærri verslana.

Ég tek undir að nauðsynlegt er að hafa ákveðna festu í þessum samningi, ekki síst með tilliti til þeirrar skuldasöfnunar sem hefur verið á undanförnum árum í þessari framleiðslugrein, mjólkurframleiðslunni. Bændur hafa verið að auka skuldir sínar. Þess vegna get ég alveg tekið undir orð hv. þm. Drífu Hjartardóttur áðan um að mikilvægt sé að samningurinn gildi um einhvern tíma, lengri tíma, þannig að menn sjái nokkuð fram á veginn og að samningurinn verði festur í sessi með nokkrum fyrirvara áður en núverandi samningur fellur úr gildi. Ég hef hins vegar gert grein fyrir þeim áherslum sem ég hefði viljað sjá í ríkari mæli við útfærslu þessa samnings. Þar er blaðið ekki fullskrifað eins og fram kemur í samningnum. Ég vil aðeins segja að með sömu rökum og hv. þm. Drífa Hjartardóttir tók undir að hér hlyti framtíðin að verða að vera nokkuð viss þá hefði ég talið að framtíð smábátamanna þyrfti líka að vera nokkuð viss en henni er stefnt verulega í uppnám með því sem ríkisstjórnin er að setja frá sér núna. Ég undrast að einn flokkur og þeir þingmenn sem hafa áhuga á byggðum landsins skuli taka undir það sem hæstv. sjávarútvegsráðherra býður hér upp á.