Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Mánudaginn 17. maí 2004, kl. 15:36:52 (8392)

2004-05-17 15:36:52# 130. lþ. 118.2 fundur 997. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (verðsamráð í mjólkuriðnaði) frv. 85/2004, 1000. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (samningur um mjólkurframleiðslu 2005--2012) frv. 61/2004, landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 130. lþ.

[15:36]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson kom víða við í máli sínu. Hann spurði út í WTO-viðræðurnar. Eins og öllum er kunnugt strönduðu þær í Cancún í september síðastliðnum. Þar ætluðu menn að ná niðurstöðu en ekki sýndist líklegt að árangur yrði bráð. Þó er hægt að segja um það nú á þessu stigi að þær umræður eru á ný á fullri ferð og er búist við því að útlínur verði lagðar ef saman um einhverjar útlínur næst í sumar. Það er svo sem lítið hægt að segja um þetta mál á þessu stigi. Það er í þessu ferli.

Hvað gerðardóminn varðar sem hv. þm. minntist á þá var hann einnig í hinum fyrri samningi. Gerðardómur er bindandi. Þessi gerðardómur fer samkvæmt lögum um gerðardóma þannig að hann er bindandi og hann er samkvæmt þeim lögum sem Alþingi hefur sett um gerðardóma.

Ég get tekið undir með hv. þm. um varúðarmerki hvað skuldaukningu varðar. Menn eru að fjárfesta og horfa langt fram í tímann og byggja upp sín bú með nýrri tækni og öflugri. Þar er þróunin í atvinnugrein sem er lifandi og er að horfa fram í tímann að hún eykur auðvitað skuldir sínar. Ég gæti tekið undir með hv. þm. að í einhverjum tilfellum sjáum við þar einhver hættumerki. Það góða við mjólkurframleiðsluna er kannski það að þar eru heilmiklar framkvæmdir og hafa verið. Menn eru að undirbúa sig undir framtíðina.

Hvar línan breytist svo, við 47% eða 53%? Ríkið hefur samið þarna um ákveðið þak, aldrei hærra en 47% og síðan gerist þessi breyting auðvitað á samningstímanum.