Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Mánudaginn 17. maí 2004, kl. 15:57:27 (8398)

2004-05-17 15:57:27# 130. lþ. 118.2 fundur 997. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (verðsamráð í mjólkuriðnaði) frv. 85/2004, 1000. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (samningur um mjólkurframleiðslu 2005--2012) frv. 61/2004, JBjarn (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 130. lþ.

[15:57]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég vil taka undir með hæstv. ráðherra um skipan starfshóps til að kanna stöðu landbúnaðarins og marka honum framtíðarstefnu í nýju og breyttu umhverfi til næstu áratuga. Ég tel afar mikilvægt að það sé gert þannig að Alþingi eigi sem bestan aðgang að þeirri vinnu. Það gerist best með því að fulltrúar þeirra stjórnmálaflokka sem eiga sæti þar hafi aðgang að því og komi formlega að starfshópnum. Það skiptir svo miklu máli að eins mikil sátt og skilningur náist um þetta mál og nokkur kostur er, ekki síst hjá hinu háa Alþingi.

Hæstv. ráðherra nefndi nautakjötið. Hann sagði alveg nákvæmlega það sem ég var að segja, að verð á nautakjöti til framleiðenda hefur verið að snarlækka þannig að afkoma í þeirri grein er mjög erfið. Þeir hafa staðið í samkeppni við annað kjöt sem hefur annaðhvort verið niðurgreitt erlendis frá eða bankaframleitt kjöt eins og kjúklinga- og svínakjöt eða annað því um líkt. Samkeppnisstaða þeirra sem stunda framleiðslu á íslensku nautakjöti hefur því verið mjög erfið. Ég tel skipta máli að hér skapist eðlilegur samkeppnisgrunnur fyrir nautakjötsframleiðsluna í samkeppni við aðra kjötframleiðslu í landinu, ákveðinn grunnur þannig að tryggð verði holl og góð, örugg framleiðsla á íslensku nautakjöti og þess vegna eigi að taka sjónarmið þeirra inn í þennan samning eða inn í aðgerðir af hálfu ríkisvaldsins til að tryggja að svo sé. Það tel ég að væri jafnvel hægt í þessum samningi án þess að það skaðaði mjólkurframleiðendur nokkuð.