Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Mánudaginn 17. maí 2004, kl. 16:24:41 (8402)

2004-05-17 16:24:41# 130. lþ. 118.2 fundur 997. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (verðsamráð í mjólkuriðnaði) frv. 85/2004, 1000. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (samningur um mjólkurframleiðslu 2005--2012) frv. 61/2004, landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 130. lþ.

[16:24]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni, formanni Samfylkingarinnar, fyrir um margt mjög málefnalega ræðu og ítarlega. Það er alltaf fagnaðarefni þegar menn fara þannig inn í þessa umræðu. Ég get tekið undir með hv. þm. að kynbætur og ræktunarbúskapur eru undirstaða framtíðarinnar og kannski er aldrei nóg hugað að því. Ég get tekið undir það að rannsóknir og kynbætur skipta mjög miklu máli.

Hv. þm. segist tilbúinn að taka rökum. Hann er auðvitað félagshyggjumaður eins og sá sem hér stendur. Það sem er að gerast í þessu er að við teljum að á Íslandi alveg eins og í Evrópusambandinu og Noregi sé mjólkuriðnaður dálítið sérstakur. Ég fór yfir það í morgun. Það kemur fram í skýrslu sérfræðinganna eða lögmannanna að í flestum nágrannalöndum okkar Íslendinga sem við berum okkur saman við er að finna sérreglur um framleiðslu og viðskipti með landbúnaðarafurðir. Þetta stafar af sérstöðu landbúnaðar sem þykir víðast hvar vera slík að almennar reglur markaðskerfis eigi ekki að öllu leyti við um allar landbúnaðarafurðir. Undir það er verið að taka hér. Ráðherraráðið í Evrópusambandinu ræður mjög miklu um landbúnaðarafurðir. Ég gæti tekið undir með hv. þm. að frelsi í viðskiptum sé best fallið til að auka jöfnuð milli manna og þróa atvinnulíf. Þá er þessi mikla sérstaða. Hér er mjög mikilvægt að mjólkuriðnaðurinn fái að starfa. Ef hann hefði farið undir samkeppnislögin þá hefðu menn ekki mátt skipuleggja hann, ekki eiga samráð, jafnvel ekki reka Osta- og smjörsöluna. Miklar breytingar hafa orðið og það hefur verið mjög erfitt fyrir mjólkuriðnaðinn. Þarna ríkti mikil réttaróvissa hvað bændurnir mátu í þessu og hvað ríkisvaldið mat í þessum samningum. Menn vildu koma þessu á hreint og hafa þetta núna þannig að hann gæti starfað áfram næstu árin undir (Forseti hringir.) þeim merkjum sem hann hefur gert svo vel í þróun afurðanna á síðustu árum og áratugum.