Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Mánudaginn 17. maí 2004, kl. 16:27:13 (8403)

2004-05-17 16:27:13# 130. lþ. 118.2 fundur 997. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (verðsamráð í mjólkuriðnaði) frv. 85/2004, 1000. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (samningur um mjólkurframleiðslu 2005--2012) frv. 61/2004, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 130. lþ.

[16:27]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég greini annars vegar á milli þeirra frávika frá markaðslögmálum og frelsi í viðskiptum sem birtast í því að við erum að hafa áhrif á markaðinn með niðurgreiðslunum, með beingreiðslunum. Við erum að gera það fyrir tveggja hluta sakir. Það er aðstoð við greinina en það er líka verið að greiða niður nauðsynjavörur handa neytendum.

Síðan er hinn hluturinn sem er staða afurðastöðvanna. Ég velti því fyrir mér hvort réttlætanlegt sé að veita þeim þessa sérstöðu og undanþágu frá samkeppnislögunum. Þegar ég horfi á tölurnar sem liggja fyrir í þessari skýrslu þá blasir í fyrsta lagi við að eigið fé þeirra er alveg gríðarlegt. Í öðru lagi hefur þeim verið veitt þessi heimild þrátt fyrir andspyrnu frá Samkeppnisstofnun og þeir hafa getað beitt þeim verðtilfærslum og þeir hafa í reynd getað skipt markaðnum upp á milli sín frá sjónarhóli framleiðslutegunda. Samt sem áður blasir við að frá tímabilinu 1. september 1998 til ársloka 2003 hækkuðu þeir afurðir sínar nánast í takt við breytingar á vísitölu verðlags. En við sjáum allt aðra mynd birtast í smásölunni. Þar kemur fram lækkunin og þar kemur fram samkeppnin. Ég velti því fyrir mér í fullri alvöru hvort ekki þurfi svipaða samkeppni milli afurðastöðvanna. Ef þær eru of fáar innan lands þá hlýtur þessi spurning að vakna: Mundi ekki samkeppni við innfluttar afurðir leiða til þess að þær mundu hagræða enn meira en þær hafa gert sem mundi leiða til meira en þessarar 7% framleiðniaukningar sem við sjáum hjá þeim?