Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Mánudaginn 17. maí 2004, kl. 16:29:25 (8404)

2004-05-17 16:29:25# 130. lþ. 118.2 fundur 997. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (verðsamráð í mjólkuriðnaði) frv. 85/2004, 1000. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (samningur um mjólkurframleiðslu 2005--2012) frv. 61/2004, landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 130. lþ.

[16:29]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það vill svo til að íslenskir neytendur eru mjög ánægðir með sínar mjólkurvörur. (ÖS: Það veit ég vel.) Það kemur fram í þessari skýrslu að neysla innfluttra vara innan lands er 1,2%. Mjólkuriðnaðurinn nýtur þess í hversu góðu formi hann er og hversu framleiðslan er góð og hversu miklum árangri hún hefur náð á heimsvísu hvað okkar góða iðnað varðar. Það ber ekki að harma kannski sterka stöðu fyrirtækja heldur að þakka fyrir hana. Ég tel að opinber verðlagning með aðilum ASÍ og BSRB í verðlagsnefndinni áfram sé mikil trygging fyrir neytendur. Vel kann að vera að bændur verði að breyta því þegar WTO-samningar verða gerðir því að opinber verðlagning er metin hátt sem innanlandsstuðningur í WTO-samningunum þannig að þeir gætu orðið að breyta einhverju eins og kemur fram í skýrslunni. En ég held að það sé mjög mikilvægt núna næstu árin að mjólkuriðnaðurinn fái að starfa undir þessu félagshyggjukerfi eins og hann hefur gert. Ekki væri heppilegra að hann færi í eitt fyrirtæki. Ég held að neytendur sé mjög sáttir við að verkaskipting sé eins og hún er, framleiðsla í Búðardal, á Akureyri, í Flóabúinu, á Sauðarárkróki og svo framvegis. Það hefur allt saman gefist heldur vel og er til heilla.