Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Mánudaginn 17. maí 2004, kl. 16:32:38 (8406)

2004-05-17 16:32:38# 130. lþ. 118.2 fundur 997. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (verðsamráð í mjólkuriðnaði) frv. 85/2004, 1000. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (samningur um mjólkurframleiðslu 2005--2012) frv. 61/2004, KÓ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 130. lþ.

[16:32]

Kjartan Ólafsson (andsvar):

Herra forseti. Hér hefur formaður Samfylkingarinnar, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, farið nokkrum orðum um frumvarpið sem hér liggur frammi. Hann fór að mörgu leyti jákvæðum orðum um þetta frv. Hann hefur kynnt sér málið, fór yfir það vel að mínu mati.

Mig langar að leggja spurningu fyrir formann Samfylkingarinnar sérstaklega eftir að hafa hlýtt á hans mál, mál annarra þingmanna Samfylkingarinnar og sérstaklega hv. þm. Ágústs Ólafs Ágústssonar sem talaði mikið um markaðskerfi og vill ná mikilli hagræðingu eins og við öll í þessari atvinnugrein. En hann talaði tæpitungulaust um að hann vildi taka fjármuni út úr kerfinu frá landbúnaðinum. Hann nefndi sérstaklega þær fjárhæðir sem í þessum samningi eru. Þrátt fyrir það vildi hann að bændurnir ættu að spjara sig og verð ætti að lækka til neytenda.

Spurning mín eftir að hafa hlýtt á nokkra þingmenn Samfylkingarinnar er þessi: Hver er stefna Samfylkingarinnar hvað þennan samning varðar og þessi frumvörp? Ég hef ekki áttað mig á því í dag þrátt fyrir að ég hafi hlustað á nokkrar ræður þingmanna Samfylkingarinnar hvort þeir séu með málinu eða á móti því. Ég held að það væri mjög athygli vert að fá það hér fram, ekki síst fyrir það að ég kem úr Suðurkjördæmi þar sem um það bil helmingur eða tæplega helmingur af þessari framleiðslu fer fram. Það er mikil úrvinnsla á því svæði. Ég hygg að þeir sem þar hafi hagsmuni vilji gjarnan heyra skoðun formanns Samfylkingarinnar ekki síst fyrir það að hér er enginn þingmaður úti í kjördæmi frá Samfylkingunni við þessa umræðu.