Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Mánudaginn 17. maí 2004, kl. 16:39:05 (8410)

2004-05-17 16:39:05# 130. lþ. 118.2 fundur 997. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (verðsamráð í mjólkuriðnaði) frv. 85/2004, 1000. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (samningur um mjólkurframleiðslu 2005--2012) frv. 61/2004, DrH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 130. lþ.

[16:39]

Drífa Hjartardóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Hér talaði hv. þm. Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar. Hann flutti alveg prýðisgóða ræðu á margan átt. Ég vil bara ítreka að markmið búvörulaganna er til dæmis að vernda byggðastefnu og tryggja að landbúnaðarvörur, sérstaklega ferskar mjólkurafurðir sem eru á dagvara, verði á viðráðanlegu verði fyrir alla landsmenn. Verðlag ferskra mjólkurafurða hefur bein áhrif á útgjöld allra heimila í landinu. Því hefur verið talið nauðsynlegt og þess vegna er þetta frumvarp fram komið að tryggja ákveðið hámarksheildsöluverð á þeim til allra smásala óháð hvar þeir eru staðsettir á landinu. En óheilbrigð samkeppni hefur verið í verslun með landbúnaðarafurðir, allar nema mjólkurafurðir. Við höfum séð það í viðskiptum með egg, kjúklinga, svínakjöt, nautakjöt og grænmeti. Þetta hefur allt verið frjálst undanfarin 10--15 ár. En þetta hefur verið með ákveðna innflutningsvernd.

Aðeins vegna þess að hv. þm. var að ræða skuldastöðu bænda þá var það alveg hárrétt sem fram kom hjá honum að menn eru að byggja ný fjós. Þetta hefur orðið úrelding í greininni og þetta hefur greinin tekið á sig sjálf. Það er alveg hárrétt sem kom fram hjá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni að gríðarlegar breytingar hafa orðið hjá bændum. Trúlegast hefur engin stétt í landinu orðið fyrir eins miklum breytingum og íslenskir bændur.