Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Mánudaginn 17. maí 2004, kl. 16:56:27 (8415)

2004-05-17 16:56:27# 130. lþ. 118.2 fundur 997. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (verðsamráð í mjólkuriðnaði) frv. 85/2004, 1000. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (samningur um mjólkurframleiðslu 2005--2012) frv. 61/2004, landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 130. lþ.

[16:56]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er í rauninni sorglegt --- ég segi sorglegt --- að hlusta á svona ræðu. Hún er slíkt afturhald, hún er slík niðurlæging á þróun sveitanna sem hefur verið síðustu árin. Orðræða hv. þm. staðfestir það að hann hefur ekkert kynnt sér í landbúnaðarmálum. Hann er hér með gamla frasa og sýnir að Samfylkingin --- hér talaði formaður hennar áðan og var mjög málefnalegur. Hann talaði af töluverðri þekkingu landbúnaðinn. Svona koma hér hv. þingmenn, einn úr þessari áttinni og annar úr hinni. Ég held að þessi hv. þm. sjái hvorki morgundaginn né sólina og hefur ekkert kynnt sér það sem hefur gerst í íslenskum sveitum á síðustu árum.

Hv. þm. fordæmir allt sem hefur verið gert. Hann fordæmir þennan samning. Hann er að rugla, hæstv. forseti, um hluti sem ekki eiga sér stað. Hv. þm. styður Evrópusambandið, ef ég veit rétt. Yfir 50% af fjárframlögum Evrópusambandsins renna til landbúnaðar eftir mjög flóknum og erfiðum leiðum. Við höfum þó verið hér með sjáandi kerfi og gert þetta eftir tiltölulega skýrum leiðum. Sagt er að danskir bændur sem kunna á tölvu og séu mikið í flugvélum hafi mest út úr styrkjum Evrópusambandsins. Svo flóknir eru þeir að þá samninga skilja víst fáir. Ég verð því að harma svona málflutning.

Hér talar hv. þm. um Öskjuhlíðarsamninga. Ég spyr: Þegar ASÍ og BSRB komu inn í verðlagsnefnd með fulltrúa sína til að taka þátt í verðlagningu mjólkurafurða --- þeir hafa gert það um áratugi --- er það svívirðing við launþega þessa lands? Hv. þm. skal gera sér grein fyrir því að þá Öskjuhlíðarsamninga sem hann talar um gerðu menn sem voru ekki undir opinberri verðlagningu heldur töldu sig menn frelsisins. Þeir höfðu samráð en höfðu ekki heimild til þess. (Forseti hringir.) Hér er verið að biðja um að hafa þetta kerfi skýrt og samstaða er um það. Hér eru miklir útúrsnúningar á ferð, hæstv. forseti, og dæmalausir.