Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Mánudaginn 17. maí 2004, kl. 16:58:45 (8416)

2004-05-17 16:58:45# 130. lþ. 118.2 fundur 997. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (verðsamráð í mjólkuriðnaði) frv. 85/2004, 1000. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (samningur um mjólkurframleiðslu 2005--2012) frv. 61/2004, JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 130. lþ.

[16:58]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er eðlilegt að hæstv. landbúnaðarráðherra svíði þegar á það er minnt að hér er engin stefnubreyting á ferðinni og að halda á áfram í sama farinu eins og verið hefur í gegnum tíðina. Það að ég hafi ekki kynnt mér þetta mál er auðvitað rangt. Ég hef kynnt mér þetta mál og ég gerði mér grein fyrir því fyrir löngu sem hæstv. ráðherra virðist ekki hafa gert sér grein fyrir, að það þarf að breyta þessu fyrirkomulagi. Hæstv. ráðherra talar hér eins og gærdagurinn geti orðið morgundagurinn. En það getur hann ekki og það veit hæstv. ráðherra. Það þurfti að setja í samninginn að ef gerður yrði samningur við Alþjóðaviðskiptastofnunina um landbúnaðinn þá yrði að taka þennan samning upp. En skrefin í átt til þess að gera mögulegt að hafa landbúnaðinn á Íslandi í góðri stöðu þegar kemur að þeim samningi eru svo örstutt að þau mælast ekki. Það er ég að setja út á hér. Ég hélt því ekki fram og ég tók það skýrt fram --- hæstv. ráðherra hefur ágæta heyrn og hefur örugglega heyrt það --- að ég væri ekki að fara fram á að stuðningur við landbúnað í landinu yrði minnkaður. Ég fer fram á að menn skoði þetta umhverfi með þeim gleraugum að það verði að breyta styrkjafyrirkomulaginu í landbúnaðinum. Ef maður kemur að samkeppninni líka þá hlýtur hæstv. ráðherra að gera sér grein fyrir því að skapa þarf samkeppnisumhverfi bæði milli bænda og afurðastöðva við bændur. Til frambúðar mun það aldrei geta staðist að Ísland reki eitt allsherjar mjólkurbú á vegum ríkisins.