Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Mánudaginn 17. maí 2004, kl. 17:00:43 (8417)

2004-05-17 17:00:43# 130. lþ. 118.2 fundur 997. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (verðsamráð í mjólkuriðnaði) frv. 85/2004, 1000. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (samningur um mjólkurframleiðslu 2005--2012) frv. 61/2004, landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 130. lþ.

[17:00]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er náttúrlega mikill útúrsnúningur að telja að ríkið reki landbúnaðinn. Hvers vegna má ríkisvaldið ekki gera samninga við frjálsa bændur alveg eins og það gerir samninga við frjálsa verkalýðshreyfingu, við atvinnulífið um starfsumhverfi? Þetta er fyrst og fremst samningur um starfsumhverfi landbúnaðarins. Hv. þm. segir að hér hafi ekkert gerst í íslenskum landbúnaði og engin þróun verið. Ég fór yfir það í ræðu minni að til dæmis kúabændum --- og það kallast hagræðing --- hefur fækkað frá 1991 úr 1.509 niður í töluna 870 í dag. Ég hef farið yfir það að búin hafa stækkað úr 70 þúsund lítrum að meðaltali í 122 þúsund. Ég hef farið yfir það að á sama tíma hefur nytin úr íslensku kúnni og kynbæturnar og bætt fóðurgerð gert það að verkum að meðalframleiðsla eftir hverja kú er í dag 5.100--5.200 lítrar en var 1991 um 4 þúsund lítrar þannig að framfarirnar undir þessari samningsgerð sem ríkisvaldið hefur gert við kúabændur hafa skilað sér mjög bæði í hagræðingu og bættum búskap. Ég er sannfærður um að sá samningur sem nú er gerður mun skila þróun þar sem landbúnaðurinn íslenski með sínar frábæru afurðir úr okkar hreinu náttúru stendur miklu sterkari og viðbúnari til að taka á móti aukinni samkeppni. Hann er talinn af mörgum í dag sem hingað koma og við eigum viðskipti við einn fremsti landbúnaður í veröldinni. Þetta er fjölskyldurekstur og búin eru ekki stór en skila af sér frábærum afurðum. Þetta á við um mjólkurafurðirnar. Þetta á við um lambakjötið (Forseti hringir.) og margar afurðir sem bændur framleiða. Ég held því að hv. þm. Jóhann Ársælsson ætti ekki að gera lítið úr íslenskum landbúnaði og starfi íslenskra bænda.