Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 17. maí 2004, kl. 17:38:01 (8426)

2004-05-17 17:38:01# 130. lþ. 118.1 fundur 996. mál: #A stjórn fiskveiða# (sóknardagar báta, krókaaflamark o.fl.) frv. 74/2004, sjútvrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 130. lþ.

[17:38]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 38 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

Meginatriði þessa frumvarps er það að lagt er til að sú breyting verði gerð á 6. gr. laga nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, að leyfilegum sóknardögum fækki um 10% á næsta fiskveiðiári og verði 18 miðað við að viðmiðunarfjöldi sóknardaga á yfirstandandi fiskveiðiári er 19 sóknardagar. Sóknardögum fækki hins vegar ekki frekar enda aukist viðmiðunarafli þeirra báta sem verða í sóknardagakerfinu ekki frá því sem hann var á fiskveiðiárinu 2002/2003. Þá verði útgerðum báta sem leyfi hafa til handfæraveiða með dagatakmörkunum gefinn kostur á að stunda veiðar samkvæmt veiðileyfi með krókaaflamarki. Til móts við þessa breytingu verði hins vegar settar takmarkanir á leyfilegan fjölda handfærarúlla um borð í hverjum báti og jafnframt ákveðið að aukning á vélarstærð hafi áhrif á fjölda sóknardaga. Loks er lagt til að lagfært verði lítillega orðalag ákvæðis er snertir úthlutun aflaheimilda til stuðnings sjávarbyggðum.

Frú forseti. Ástæða þessa frumvarps er sú að þeir útgerðarmenn sem gert hafa út báta á sóknardögum hafa talið það ástand þar sem dögunum mundi fækka um nánast einn á ári í fyrirsjáanlegri framtíð óþolandi og skapa of mikla óvissu um framtíð þeirra útgerða. Þeir hafa því farið fram á að gólf verði sett í dagana, eins og kallað er, þannig að dögunum muni ekki fækka umfram ákveðið mark. Upphaflega var þessum hópi ætluð 2.100 tonn af óslægðum afla og gert ráð fyrir því að dögunum mundi fækka úr 23 þar til kæmi að því að 2.100 tonnum yrði náð, en 2.100 tonn voru þrisvar til fjórum sinum meiri afli en þessir bátar voru að veiða á þeim tíma. Frá þeim tíma hefur aflinn aukist og fer nærri að hann hafi tvöfaldast.

Það hefur verið sótt fast af hálfu hagsmunasamtaka þessara aðila að gólf verði sett í dagana. Hagsmunaaðilar hafa hins vegar líka verið tilbúnir til þess að setja takmarkanir á sóknina til þess að ná jafnvægi í sókninni þannig að hún haldi ekki áfram að aukast. Undir það sjónarmið hef ég jafnframt tekið. Ég hef átt í viðræðum við ýmsa hagsmunaaðila sóknardagabáta um að ná lendingu sem allir gætu við unað í þessu sambandi. Þess vegna er lagt til að 18 dagar verði gólf hvað sóknardagabáta varðar og að rúllutakmarkanir og vélastærðatakmarkanir ásamt öryggisákvæðum miðað við árið 2002/2003 taki gildi.

Á meðan á þessum viðræðum hefur staðið hefur komið fram hópur útgerðarmanna sóknardagabáta sem hefur sýnt áhuga á því að breyta úr sóknardagakerfinu og yfir í kvótakerfi. Þar sem út frá fiskveiðistjórnarsjónarmiði skiptir ekki höfuðmáli hvort fiskurinn er veiddur í sóknardagakerfi eða í kvótakerfi þá hef ég ekki séð ástæðu til annars en að leggja til í þessu frumvarpi að þeim verði gefinn kostur á því að velja um það hvort þeir veiði áfram í sóknardagakerfi eða fari í kvótakerfi á næsta fiskveiðiári og þá er um að ræða krókaaflamarkskerfi.

Ég á erfitt með að sjá að aðilar geti verið andstæðir því að gefa mönnum slíka möguleika á því að velja um kerfi og skipta yfir í krókaaflamarkið. Það á ekki að koma niður á neinum. Sú veiðireynsla sem þar mundi fylgja er í samræmi við það sem þessir aðilar hafa verið að veiða í sóknardagakerfinu og ætti þar af leiðandi ekki að koma niður á neinum miðað við að þær takmarkanir sem settar eru í sóknardagakerfið leiði til þess að aflinn þar aukist ekki heldur náist þar jafnvægi.

Ég hef orðið var við talsverða andstöðu frá þeim sem eru í aflamarkinu. Þeir hafa talið að hér væri verið að taka frá einum hópi og færa öðrum. Ég tel í þessu sambandi að engu slíku sé til að dreifa því að hér er um löglegar veiðar að ræða. Sá afli sem hér er verið að tala um hefur verið veiddur á undanförnum árum og fyrirsjáanlegt er að hann verði veiddur í einhverju svipuðu magni á næstu árum. Þegar við lítum til stofnstærðarinnar og þess aflamarks sem reiknað er út frá stofnstærðinni kemur það til lengri tíma litið í sama stað niður hvort þessir aðilar eru í sóknardagakerfi eða í krókaaflamarkskerfi, hvað aflamarksbátarnir fá í kvóta. Það er einfaldlega um það að ræða að menn eru þá með lægri prósentu eða lægri hlutdeild í stærri potti en áður var reiknað.

Herra forseti. Ég held þess vegna að hér sé um að ræða frumvarp sem ekki ætti að skapa miklar deilur. Það er verið að koma til móts við kröfur um gólf í dagana í samræmi við það sem fulltrúar sóknardagabátamanna hafa verið tilbúnir til að setja takmarkanir á sóknina. Það er verið að gefa þeim sem það vilja kost á því að færa sig yfir í krókaaflamarkskerfið og það á ekki að leiða til þess að afli annarra til lengri tíma litið muni skerðast. Vonast ég til þess að um þetta megi verða málefnalegar umræður og legg til, frú forseti, að að lokinni 1. umr. verði málinu vísað til hv. sjávarútvegsnefndar.