Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 17. maí 2004, kl. 17:50:21 (8430)

2004-05-17 17:50:21# 130. lþ. 118.1 fundur 996. mál: #A stjórn fiskveiða# (sóknardagar báta, krókaaflamark o.fl.) frv. 74/2004, sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 130. lþ.

[17:50]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (andsvar):

Herra forseti. Einkennilegur málflutningur þetta. Lagt hefur verið upp með að landaður afli mun minnka í Norðvesturkjördæminu. Segjum nú að það sé rétt. Miðað við það að heildaraflinn sé sá sami þá mun landaður afli aukast í öðrum kjördæmum, ekki í Suðvesturkjördæminu eða Reykjavík suður eða Reykjavík norður heldur í öðrum landsbyggðarkjördæmum. Er það slæmt? Á að þvinga menn með því að festa þá inn í kerfi til þess að landa á einhverjum sérstökum stöðum? Eins og ég sagði áðan (Gripið fram í.) ræður náttúrufarið því hvar aflinn gefur sig best á þeim tíma sem sóknardagabátarnir eru að veiða. Þeir eru takmarkaðir vegna aðstæðna og Vestfirðir eru ekki áskrifendur að þeim afla.

Varðandi síðan það hvort ég telji að þessi breyting muni leiða til aukins brottkasts þá tel ég að svo muni ekki verða. Orðið hafa gríðarlega miklar breytingar á brottkasti á Íslandsmiðum á undanförnum árum og ég tel enga ástæðu til að ætla að brottkast muni aukast við það að bátar þessir fari úr sóknardagakerfi yfir í krókaaflamarkið, sem ég veit ekki hvað verða margir.