Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 17. maí 2004, kl. 17:55:36 (8434)

2004-05-17 17:55:36# 130. lþ. 118.1 fundur 996. mál: #A stjórn fiskveiða# (sóknardagar báta, krókaaflamark o.fl.) frv. 74/2004, sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 130. lþ.

[17:55]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (andsvar):

Herra forseti. Ég vildi glaður eiga höfundarréttinn að reynsluvísindum. Á ensku heitir þetta ,,trial and error`` og ég trúi ekki öðru en að háskólamenntaður maðurinn hafi heyrt talað um slíkar niðurstöður í rannsóknum og slík vísindi.

Hv. þm. sagði hins vegar að ég hefði sagt að þessi hópur báta ógnaði ekki lífríkinu og það er rétt að sem slíkur einn og sér ógnar hann ekki lífríkinu. Enginn annar hópur ógnar heldur einn og sér lífríkinu. En þegar veiðar eru taldar saman og ef þær fara fram yfir það sem er raunhæft vegna sjálfbærrar nýtingar þá ógna þeir lífríkinu. Þess vegna þarf að hafa stjórn og þarf að vera hægt að takmarka afla allra þessara hópa, sóknardagabátanna sem annarra. Reynsluvísindin sýna að þó sóknardagabátarnir, eins og þeir hafa verið fram til þessa, hafi haft jákvæð áhrif á byggðirnar þá hafa þeir veitt um fram það sem þeim var upphaflega ætlað að veiða. Það er meðal annars tilgangur þessa frumvarps ásamt öðru að reyna að ná tökum á því.