Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 17. maí 2004, kl. 17:56:56 (8435)

2004-05-17 17:56:56# 130. lþ. 118.1 fundur 996. mál: #A stjórn fiskveiða# (sóknardagar báta, krókaaflamark o.fl.) frv. 74/2004, KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 130. lþ.

[17:56]

Kristján L. Möller (andsvar):

Hæstv. forseti. Í stuttu andsvari gefst ekki tilefni nema til að spyrja hæstv. ráðherra örstuttra spurninga til að fá betri útskýringar svo ég ætla ekki að fara mikið inn í umræðu frumvarpið sem hér hefur verið lagt fram. Ég geri það kannski á eftir.

Mig langaði að spyrja út í c-liðinn þar sem fjallað er um breytingar á skráðri hestaflatölu véla miðað við 10. maí 2004. Af hverju er dagsetningin 10. maí valin (Gripið fram í: Reynsluvísindi.) og hvað verður gert miðað við það? Nú þykist ég vita eða hafa einhvers staðar séð að hæstv. sjávarútvegsráðherra, virðulegi forseti, hafi tilkynnt Landssambandi smábátaeigenda niðurstöðu sína, ríkisstjórnar, um þetta frumvarp 7. maí. Frumvarpinu var hins vegar dreift á Alþingi 14. maí. Hvaða vísindi --- ég man ekki hvaða orð þeir notuðu áðan (SigurjÞ: Reynsluvísindi.) --- gera dagsetninguna 10. maí að dagsetningu þessa frumvarps? Í framhaldi af því, virðulegi forseti, langar mig að spyrja hæstv. ráðherra: Hvað með þá sem sannarlega eru að smíða báta í dag með ákveðinni vélarstærð? Þeir eru svona við það að klárast og fara jafnvel á sjó og annað slíkt. Hvernig verður brugðist við því? Mig langar að heyra útlistanir hæstv. sjávarútvegsráðherra á því hvernig þetta hefur verið hugsað vegna þess að ég sit í hv. sjávarútvegsnefnd sem fær þetta frumvarp. Mig langar til að heyra útskýringar á þessu sem sagt og sérstaklega: Hvað með þá smíðasamninga eða verksamninga, eða hvað við eigum að kalla þá, sem eru að tifa inn, jafnvel komnir til Siglingastofnunar og svo framvegis? Fá þeir þennan hramm í hausinn? Verður þeim refsað á þennan hátt?