Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 17. maí 2004, kl. 20:31:36 (8442)

2004-05-17 20:31:36# 130. lþ. 118.1 fundur 996. mál: #A stjórn fiskveiða# (sóknardagar báta, krókaaflamark o.fl.) frv. 74/2004, KHG
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 130. lþ.

[20:31]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Handfærakerfi var komið á með lögum að tillögu meiri hluta sjútvn. Alþingis í janúarmánuði 1999, eins og ég fór yfir og rakti í umræðu fyrr í vetur um annað frv. Síðan þá hefur töluvert verið rætt um löggjöfina um það kerfi og mikill áhugi á að koma á stöðugleika í því, að fá því lagaákvæði breytt sem kveður á um að dögum skuli fækka um 10% á ári og sett fast gólf í dagafjöldann, menn geti þannig náð jafnvægi í kerfið hvað varðar sóknarmöguleika. Það var líklega í marsmánuði á síðasta ári, fyrir síðustu kosningar áður en þing lauk störfum, að kynntar voru fyrir sjútvn. Alþingis hugmyndir sem Landssamband smábátaeigenda hafði lagt fyrir hæstv. sjútvrh. og höfðu verið í umræðunni á þeim tíma án þess að samkomulag næðist. Þær hugmyndir fólu í sér að setja lágmark á dagafjöldann og að á móti yrðu settar takmarkanir á sóknargetu bátaflotans, bæði hvað varðar fjölda á rúllum um borð í hverjum bát og vélarafl hvers báts þannig að menn gætu einnig náð stöðugleika í aflanum og komið í veg fyrir að þar yrði áfram aukning frá því sem verið hefur.

Þetta mál var mikið til umræðu í síðustu alþingiskosningum, sérstaklega á þeim stöðum landsins þar sem handfæraveiðar hafa verið mikið stundaðar. Þær eru, eins og menn geta séð þegar þeir kynna sér gögn málsins, mikið stundaðar á norðvestanverðu landinu og þá sérstaklega á Vestfjörðum af þeirri einföldu ástæðu að þegar menn hafa takmarkaðan tíma til veiða þá leitast þeir við að vera þar sem fiskurinn gefur sig, líklegast til að veiða sem mest magn á þeim tíma sem til umráða er, sem er eðli sóknardagakerfis. Eftir því er farið á miðunum fyrir Vestfjörðum sem hefur leitt til þess að veiddur afli og landaður er að langmestu leyti á því svæði. Ef litið er til norðvesturkjördæmisins í heild þá er langsamlega stærstum hluta afla dagabáta landað þar. Hann er mikið unninn í sjávarplássum þar sem aflanum er landað eða á nærliggjandi stöðum. Má þar t.d. nefna Suðureyri, þar sem á annað þúsund tonn á ári kemur í land og er mestur hluti þess afla unninn á staðnum. Atvinnuleg áhrif þessa kerfis dreifast því öðruvísi en dreifingin á bátunum og það er ljóst að breytingar sem leiða til þess að menn veiði eftir öðru kerfi hafa mest atvinnuáhrif á þessu svæði landsins.

Ég hef unnið að þessu máli eftir þeim línum sem menn lögðu á síðasta ári, að viðhalda dagakerfinu, viðhalda því handfærakerfi sem verið hefur en ná samkomulagi um gólf í dagafjöldann á móti takmörkunum á sóknargetu. Ég minni á að þetta mál var mikið til umræðu í sjútvn. á haustþingi þegar við ræddum um línuívilnun. Niðurstaðan í desember, þegar því máli var lokið, var að skilja eftir dagamálin. Meiri hluti sjútvn. setti í nefndarálit sitt ákvæði þar sem greint var frá því að málefni þeirra hefðu verið rædd í nefndinni en ekki hefði reynst unnt að leggja til tillögur um framtíðarskipan á málefnum þeirra. Hins vegar var lögð áhersla á að þeirri vinnu bæri að hraða. Með því var hæstv. sjútvrh. í raun falið að taka upp viðræður við Landssamband smábátaeigenda og ná samkomulagi við þá um framtíðarskipulag kerfisins, út frá því að kerfið yrði áfram, að sóknardagakerfið yrði áfram. Það eru þær forsendur sem ég tel að menn hafi unnið eftir, a.m.k. þær forsendur sem ég hef unnið eftir í málinu. Það urðu því veruleg vonbrigð að sjá að frv. sem hér kemur í þingsalinn felur ekki í sé samkomulag, eins og sjá má í Morgunblaðinu sl. föstudag, 14. maí. Þar er haft eftir framkvæmdastjóra Landssambands smábátaeiganda að hann sé afar ósáttur við frv. og fyrirsögn greinarinnar er ,,Gerir út af við dagakerfið``.

Ég tel afar slæmt að ekki hafi tekist að ljúka þessu í samkomulagi hagsmunaaðila og hæstv. sjútvrh. sem hægt væri að leggja fyrir þingið til samþykktar. Ég hefði talið eðlilegt að fylgja því ef það hefði endað svo. Ég skal ekki leggja dóm á það hvers vegna ekki náðist samkomulag í málinu. Það gerir stöðuna miklu flóknari og erfiðari auk efnisatriðis frv. um að taka upp val, þannig að þeim sem eru í sóknarkerfinu er boðið upp á að velja að vera áfram í sóknardagakerfinu annars vegar eða hins vegar fara í krókaaflamarkið. Að mínu viti er það ekki það sem að var stefnt. Ég tel að það sé ekki í samræmi við það sem menn ætluðu sér, að leggja til breytingar sem gerðu út af við dagakerfið, sem er mat framkvæmdarstjóra Landssambands smábátaeigenda.

Ég bendi á að þeir útgerðarmenn í dagakerfinu sem vilja fara yfir í krókaaflamarkið geta það. Þeir geta valið sér það að óbreyttum lögum. Það þarf ekki að setja sérstök lög til að leyfa þeim að velja það. Þeir geta einfaldlega selt báta sína og daga og notað andvirði þess til að kaupa sér bát og veiðiheimildir í krókaaflamarki. Þeim er þetta fullkomlega frjálst og hafa alla möguleika til þess. Það þarf ekki að útbúa sérákvæði í lögum til að gera þeim kleift að fara á milli kerfa.

Pólitíska spurningin er: Vilja menn hafa dagakerfið áfram? Mitt svar er já. Ég vil hafa það áfram. Ég tel verulegan ávinning af því af ýmsum ástæðum. Ég vil gjarnan ná niðurstöðu í þessu máli þannig að sú verði reyndin. Afstaða mín í þessu máli er því ákaflega skýr. Ég tel það einnig galla á tillögu hæstv. ráðherra að hún kemur af stað illindum að óþörfu. Tillagan gerir ráð fyrir því, ef ég hef dregið réttar ályktanir af frumvarpstextanum, að dagabátarnir, færu þeir allir yfir í krókaaflamarkið, séu að veiða ekkert mjög langt frá því sem þeir hafa í reynd verið að veiða, þar sem þeim gefst kostur á að fá það ríflegan kvóta að kvótastaðan þeirra verður ekki miklu minni en heildarstaðan hefur verið. Á móti kemur að draga þarf frá aflamarkskerfinu þann kvóta sem þessir bátar fá að frádregnu því sem gert er ráð fyrir í lögunum, sem er um 1% af úthlutuðu þorskaflamarki. Þetta gætu verið 5--6 þús. tonn sem þarf að færa af aflamarksskipunum yfir á þessa nýju krókaaflamarksbáta, ef við gefum okkur að allir dagabátarnir færu þangað.

Það hlýtur að vekja upp mjög hörð viðbrögð af hálfu aflamarksmanna. Ég bendi á að þetta er um tvöfalt meiri tilfærsla en fólst í línuívilnuninni sem samþykkt var í desember. Við þekkjum hvernig fulltrúar aflamarksbátanna eða LÍÚ a.m.k. tóku í þá tillögu. Ég tel þetta afleita lausn. Það væri miklu betri lausn að hafa þetta eins og er, að dagabátarnir veiði svipað og þeir hafa verið að veiða, aflamarksbátarnir hafi áfram þann kvóta sem þeir hafa í dag. Það vekur þá ekki upp deilur vegna þess að þar væri ekki um að ræða neina millifærslu. Gallinn við það að setja sóknardagabátana í kvóta er að það færir afla þeirra undir aflamarkið og leiðir til þess að lækka verður aflamark flotans sem því nemur sem þeir fá umfram það sem gert er ráð fyrir í lögunum. Því fylgja gríðarleg illindi ef þetta gengur eftir óbreytt. Ég held að menn eigi að forðast það ef kostur er að stofna til slíkra átaka.

Ég bendi líka á annað sem ég held að hljóti að fylgja því að velja þá leið sem frv. gerir ráð fyrir. Ef valkostirnir verða eins og þar er teiknað upp er augljóst að langflestir hljóta að velja sér kvóta. Þá opnast sá möguleiki fyrir þessa handfærabáta að veiða sinn afla á línu. Þetta er fyrst og fremst þorskur og þar af leiðandi eiga þeir rétt á línuívilnun. Þá munu fleiri sækja línuívilnunina og ef menn ætla ekki að skapa meiri þrýsting á það eða enn meiri illindi í kringum hana þá verður að stækka línuívilnunarpottinn til að taka á móti hinni auknu sókn sem fylgir fleiri bátum sem nýta þann möguleika.

Ég tók eftir því, herra forseti, í máli hæstv. ráðherra að hann taldi að hjá þeim útgerðum sem veldu sér aflamarkið, eða krókaaflamarkið, yrðu áhrifin á eiginfjárstöðuna jákvæð. Ég hygg að það sé rétt mat hjá hæstv. ráðherra. En hvað felst í þeim orðum að þetta hafi jákvæð áhrif á eiginfjárstöðu þessara útgerða? Það felst í því að það er verið að færa þeim veiðiheimildir sem eru verðmætari en þær veiðiheimildir sem þeir hafa í dag. Í því felst að til þeirra eru færð verðmæti umfram það sem þeir hafa í dag. Þau verðmæti eru auðvitað tekin af hinum, þ.e. aflamarksflotanum. Þess vegna verða átök um tilfærsluna sem ég tel að menn geti komist hjá.

Ég tel hins vegar, herra forseti, að vilji menn búa til val, sem ég tel algeran óþarfa, verði valið að vera jafngilt. Valið má ekki fela í sé þá skoðun að menn ætlist til að menn velji bara annan kostinn. Það er ekkert val að stilla hlutunum þannig upp að búa til tvo kosti þar sem annar kosturinn er vondur og hinn er góður. Það er nánast fyrir fram gefin niðurstaða.

Ég veit ekki, herra forseti, hvernig menn ætla sér að telja það sanngjarnt val á milli tveggja kosta þegar þeir hafa ekki einu sinni náð því marki sem þeir hafa stefnt að lengi, að setja gólf í sóknardagana. Það er ekkert gólf í þessu frv. Þeir bátar sem verða áfram í sóknardagakerfinu búa ekki við gólf því veiði þeirra verður meiri en veiði þeirra á fiskveiðiárinu 2002--2003. Þá fækkar dögunum frá þeim 18 sem hér eru settir fram. Það er auðvitað ekki sanngjarnt val að hafa annars vegar vel útilátna kvótabeitu og hins vegar kerfi sem á að vera með gólfi en ekkert gólf er í. Menn verða þá að endurhanna valkostina þannig að þeir séu sanngjarnir. Ef menn telja sanngjarnt að færa mönnum aukin verðmæti þannig að það hafi ákvæð áhrif á eiginfjárstöðu bátanna þá verður það að gerast í báðum kostunum.

Það er ekki eðlilegt, að mínu mati, að stilla upp kostum þar sem annar færir mönnum verðmæti, sem menn að sjálfsögðu geta tekið út með því að selja veiðiheimildirnar, og hinn sem rýrir verðmæti þeirra sem róa í dag í sóknardagakerfinu. Það verður að vera jafngilt, herra forseti, til þess að það sé raunverulegt val. Að öðrum kosti eru menn að leggja fram frv. um einn kost, að kaupa menn yfir í kvótakerfið. Menn geta auðvitað haft þær skoðanir að það eigi að koma öllum yfir í kvótakerfi og síðan þessum tveimur kvótakerfum yfir í eitt kerfi, sem ég spái reyndar að sé fram undan, að það sé næsta skref í umræðunni um stjórn fiskveiða. Þeir sem eru í krókaaflamarkskerfinu munu fara að þrýsta á að sameina kerfin í eitt. Ég spái því að það sé fram undan á næstunni í þeim efnum.

Herra forseti. Ég held að þetta frv. endurspegli á engan hátt þær væntingar sem menn hafa gert á undanförnu einu og hálfa ári um niðurstöðu í dagakerfinu. Það er ekki í samræmi við það sem við höfum talað um og lagt til og sagst ætla að stefna að. Ég vil halda mig við það sem ég hef sett fram í þessum málum og leitast við að fara yfir þetta mál með því hugarfari að það sé í samræmi við þau fyrirheit sem við höfum gefið. Við verðum svo að sjá til hvernig mönnum tekst í þeim efnum.

Ég er jafnvel ekki frá því að það kunni að vera betra að þetta frv. liggi í sumar fremur en samþykkja það óbreytt. Ég held að það væri mikil afturför fólgin í því ef menn ætla sér að samþykkja þetta frv. óbreytt. Mér líkar satt að segja ekki að menn fari þá leið að bera kvóta á menn umfram það sem eðlilegt getur talist miðað við þær forsendur sem menn hafa gefið sér. Þess vegna er þetta frv. ekki mér að skapi.

Ég skal engu spá um framhaldið, herra forseti. Það verður að koma í ljós við vinnu málsins í sjútvn. hvaða breytingu menn kunna að ná saman um og hver niðurstaðan verður. Það verður að koma í ljós í fyllingu tímans en afstaða mín til málsins liggur skýrt fyrir, herra forseti.