Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 17. maí 2004, kl. 21:14:36 (8458)

2004-05-17 21:14:36# 130. lþ. 118.1 fundur 996. mál: #A stjórn fiskveiða# (sóknardagar báta, krókaaflamark o.fl.) frv. 74/2004, GÖrl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 130. lþ.

[21:14]

Gunnar Örlygsson (andsvar):

Frú forseti. Fyrst vil ég segja að hið umrædda val í frumvarpi hæstv. sjávarútvegsráðherra er ansi bágborið því að í fyrsta lagi er ekki sett gólf í því vali þegar dagabátasjómenn velja sér áfram sóknarmark heldur er talan 18 sett inn. Hún er í dag 19 og ekkert gólf er sett á þar að lútandi. Í öðru lagi eru takmarkanir á handfærarúllum og svo framvegis.

Ég vil spyrja hv. þm. Guðjón Hjörleifsson hvort hann hafi skoðað --- ég heyrði hann minnast á það í ræðu sinni áðan að viðbætur í heildarafla til handa smábátamönnum dragast náttúrlega af kvóta þeirra sem eru í stóra kerfinu og þá mikið til af kvóta útgerðarmanna í Vestmannaeyjum sem jafnan eru með stór skip og stóra báta. Telur hv. þm. Guðjón Hjörleifsson það heilaga reglu að fiskur sem veiðist í reit númer eitt þurfi endilega að dragast af fiski sem er veiddur í reit númer tvö?

Til að skýra þessa spurningu betur þá er það svo að í hvert skipti sem breytingar eru gerðar á kerfi smábátasjómanna þá reiðir LÍÚ sverðið til höggs og reynir að vega að þeim breytingum sem um er að ræða. Ástæðan er einföld og í raun skiljanleg því að í hvert skipti sem aukning verður hjá annars mjög arðbærri útgerð smábátasjómanna þá minnkar heildarþorskvóti Íslendinga og þeir tapa á því. Þess vegna finnst mér það grundvallarmisskilningur í ráðuneytinu að halda að fiskur sem er veiddur í reit númer eitt þurfi endilega að dragast af fiskum sem eru veiddir í reit númer tvö. Hefur hv. þm. Guðjón Hjörleifsson velt þessu fyrir sér?