Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 17. maí 2004, kl. 21:40:50 (8463)

2004-05-17 21:40:50# 130. lþ. 118.1 fundur 996. mál: #A stjórn fiskveiða# (sóknardagar báta, krókaaflamark o.fl.) frv. 74/2004, MÞH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 130. lþ.

[21:40]

Magnús Þór Hafsteinsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Jón Gunnarsson kom aðeins inn á dagakerfið, að það væri ekki fullkomið kerfi. Eflaust má tína til röksemdir sem segja að það sé ekki fullkomið kerfi. Það má tína til slíkar röksemdir varðandi allar tegundir fiskveiðistjórnar. Það má finna á þeim bæði kosti og galla. Ég er sannfærður um að þetta kerfi hafi það marga kosti að það sé fyllilega á vetur setjandi. Það er svo ótal margt sem mælir með því að ég tel að það ætti frekar að leyfa því að lifa, endurbæta það og byggja það frekar út. Til að mynda eins og ég nefndi í ræðu minni fyrr í dag með því að setja gólf í kerfið, við getum sett veiðitakmarkanir á bátana, þ.e. ákveðið hámarksrúllufjölda, og síðan finnst mér sjálfsagt og eðlilegt að þessum bátum sé leyft að róa allan ársins hring. Það mundi sennilega gera það að verkum að menn leituðust meira við að róa frá sinni heimahöfn. Ég tala nú ekki um ef við mundum síðan rýmka aðeins meira til og láta þá hafa fleiri daga en 23 þannig að menn hefðu þá tíma til að sinna veiðunum ef svo má segja og þá haga veiðum sínum frá sinni heimahöfn þar sem þeir eru með hús sín og fjölskyldur í staðinn fyrir að lifa eins og hálfgerðir kúrekar hafsins í dag á þeytingi allt í kringum landið með tilheyrandi kostnaði. Ég tel að þetta væru hlutir sem við ættum miklu frekar að íhuga og við eigum ekki einu sinni að hugsa þá hugsun sem hv. þm. Jón Gunnarsson gaf í skyn að maður ætti hreinlega bara að vera heiðarlegur og ganga hreint til verks og setja þessa báta inn í kvóta.

Mig langar síðan að nota síðustu sekúndurnar sem ég hef til umráða til að spyrja hv. þm. Jón Gunnarsson Samf. hvort hann sé eindregið þeirrar skoðunar að sóknardagakerfið eigi að vera áfram og hvort hann styðji það að sett verði gólf eins og lofað hefur verið, 23 daga gólf.