Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 17. maí 2004, kl. 21:47:13 (8466)

2004-05-17 21:47:13# 130. lþ. 118.1 fundur 996. mál: #A stjórn fiskveiða# (sóknardagar báta, krókaaflamark o.fl.) frv. 74/2004, JGunn (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 130. lþ.

[21:47]

Jón Gunnarsson (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt sem fram kom hjá hv. þm. Magnúsi Þór Hafsteinssyni að handfæraveiðar í sóknarkerfi eru mikilvægur hluti til að mæla fiskigengd á grunnslóð. Gleymum því ekki að við erum að nota sóknarmælingar í kerfinu okkar. Togararallið er ekkert annað en sókn. Það er farið og sótt og mælt hver afli er á sóknareiningu. Sama er með netarallið eins og það var. Það var ekkert annað en sókn, við notuðum sókn til að mæla hvaða fiskur væri á slóðinni með því að fara á sömu staði á sama tíma og framkvæma þær veiðar með sama hætti og gert hafði verið áður. Mælingar með sókn eru fyrir hendi í kerfinu og þær munu alltaf þurfa að vera fyrir hendi í kerfinu. Ef aftur á móti allir smábátar færu í kvóta yrðum við að setja upp það sem við kölluðum smábátarall. Við yrðum að búa til einhvers konar sóknarrall á smábátum til að mæla fisk á grunnslóð. Við þurfum ekki að gera það í dag vegna þess að allir þessir bátar eru í raun mælingartæki og mæla hver aflinn er á grunnslóð.

Ég hlakka, frú forseti, til að heyra í fleiri stjórnarliðum hér. Tveir eru búnir að tala. Annar talaði í suður og hinn talaði í norður og ég bíð spenntur eftir því hvort við heyrum ekki í fleirum þannig að hér tali kannski einhver í austur og svo kannski kemur einhver þingmaður frá Framsfl. og talar í vestur. Þá höfum við allar höfuðáttirnar og vitum hvert verkefni okkar er í sjútvn.