Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 17. maí 2004, kl. 21:48:57 (8467)

2004-05-17 21:48:57# 130. lþ. 118.1 fundur 996. mál: #A stjórn fiskveiða# (sóknardagar báta, krókaaflamark o.fl.) frv. 74/2004, EKG
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 130. lþ.

[21:48]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Út af orðum hv. síðasta ræðumanns vil ég segja að ég panta að fá að tala í norðvestur. Það veiðistjórnarkerfi sem gilt hefur um hluta smábátanna og við höfum kallað dagabátakerfið er mjög mikilvægt. Það fer ekkert á milli mála og það birtist m.a. í því að 300 útgerðarmenn hafa kosið sér þetta fyrirkomulag til að stunda útgerðir sínar á og þessi veiðiskapur hefur verið mjög þýðingarmikill fyrir einstakar byggðir landsins, sérstaklega veiðihluti þessa kerfis vegna þess að það hefur skilað býsna miklum afla á land í tilteknum höfnum og þannig auðvitað skapað heilmikla vinnu.

Hins vegar er mjög mikilvægt að menn átti sig á því að þetta er sumarkerfi eins og margoft hefur komið fram í þessari umræðu. Þetta er kerfi sem fyrst og fremst býr til verðmæti hluta úr árinu, yfir hásumarið í meginatriðum, og er þess vegna ekki grundvöllur til atvinnusköpunar á heilsársgrunni. Þetta er hins vegar gríðarlega mikilvæg viðbót og búbót í mörgum byggðarlögum og hjá mjög mörgum sjómönnum og útvegsmönnum og ég held að enginn ætti að gera neitt lítið úr því. Það er a.m.k. alls ekki það sem ég geri. Ég hef þvert á móti verið mjög mikill talsmaður þessa kerfis og unnið að því eins og ég hef getað, bæði að verja það og styrkja á undanförnum árum.

Ef við skoðum þetta í dálitlu samhengi sjáum við að á undanförnum árum hefur dagakerfið, seinna klukkutímakerfið, styrkst á margan veg. Það er alveg ljóst mál að veiði þessara báta hefur aukist og sýnir það með öðru að þetta kerfi hefur verið að styrkjast. Grundvöllur útgerða þessara báta hefur verið að styrkjast og það hefur m.a. komið fram í því að útgerðarmenn bátanna hafa verið að endurnýja þá. Við höfum verið að sjá öflugri báta koma inn í þetta kerfi.

Við höfum líka brugðist við með ýmsum hætti, t.d. þegar fyrirkomulag svokallaðra þakbáta, báta sem máttu veiða tiltekið magn í tiltekinn tíma, var tekið upp og það afnumið. Við tókum um það ákvörðun á sínum tíma og mig minnir að um það hafi verið sæmileg sátt í þinginu. Það er þá eitt af því fáa í þessu fiskveiðistjórnarkerfi sem sæmileg sátt var um. Svo var það lagt niður og þá var málunum stillt þannig upp að það var búið til tiltekið val sem var auðvitað mjög á annan veginn. Það var augljóslega miklu betra fyrir þakbátana að velja sig inn í dagabátafyrirkomulagið. Þannig var það og þannig fjölgaði þessum bátum og þessi útgerðarflokkur varð miklu fjölmennari en áður.

Þetta með öðru hefur líka orðið til þess að efla kerfið, gera það miklu sterkara en það var. Síðan höfum við verið að bregðast við eindregnum óskum smábátasjómanna víða af landinu með því t.d. að koma á þessu klukkutímafyrirkomulagi sem ég býst við að allir fagni. Þetta var hins vegar mikið baráttumál, það var hvorki auðsótt né augljóst vegna þess að mjög margir voru á móti því, mjög margir töldu að þetta yrði til þess að auka afla þessa útgerðarflokks. Mjög margir eru á móti því. Það er ekki eins og menn hafa stundum látið í veðri vaka og mér hefur fundist aðeins votta fyrir í þessari umræðu að annars vegar séu hinir stóru vondu útgerðarmenn innan LÍÚ sem séu á móti kerfinu og hins vegar allir hinir. Það er ekkert þannig. Það eru mjög skiptar skoðanir um þetta fyrirkomulag eins og við þekkjum og þess vegna hefur verið eilíf varnarbarátta að verja það og tryggja í sessi. Þetta er engu að síður gríðarlega mikilvægt fyrirkomulag og þess vegna höfum við reynt að treysta það til lengri tíma.

Menn hafa dálítið verið að tala um nýliðunina, aðganginn inn í kerfið, bera saman við kvótakerfið o.s.frv. Ég vil hins vegar líka vekja athygli á því að það er mjög mikilvægt að átta sig á því að þetta veiðifyrirkomulag er að því leytinu eins og kvótakerfið að hér er um að ræða einstaklingsbundinn veiðirétt, framseljanlegan einstaklingsbundinn veiðirétt. Mönnum er að vísu ekki úthlutað kílóum eða grömmum, en mönnum er hins vegar úthlutað dögum. Dagarnir hafa svo verð, eins og hv. þm. Jón Gunnarsson fór svo ágætlega yfir áðan. Af hverju skyldu þeir hafa verð? Vegna þess að þeir gefa mönnum rétt, rétt sem aðrir hafa ekki sem ekki eiga þessa daga. Síðan velta menn fyrir sér af hverju verðmæti daganna sé eins og það er. Það felur í sér væntingar, þegar menn telja að aflinn geti orðið mikill og menn geti haft miklar tekjur hækkar verðmæti daganna að því gefnu að verðið á fiskinum sé hið sama.

Ég er þeirrar skoðunar að þetta fyrirkomulag sé prýðilegt og grundvöllur þessa fyrirkomulags sé fyrst og fremst sá að þetta sé einstaklingsbundið kerfi, kerfi sem er úthlutað til tiltekinna útgerða og útgerðirnar geta síðan framselt það. Þetta er algjört grundvallaratriði. Eitt af því sem mundi styrkja verðmæti þessa kerfis í sessi er gólf. Þegar menn hafa það í huga og vita að það mun aldrei lækka umfram eitthvað tiltekið verður það mjög líklega til þess að hækka verðmæti daganna. Mér finnst mikilvægt að menn átti sig á þessu vegna þess að mér finnst að menn slái þessu saman eða geri ekki greinarmun á því. Auðvitað verður það þannig að ef við festum í sessi dagakerfið, búum til gólf, verður til verð og það verður auðvitað að öllum líkindum til enn þá hærri aðgangstakmörkun inn í þetta kerfi. Þannig er þetta bara. Ef menn fara virkilega að trúa því að þetta kerfi festi sig í sessi og menn geti treyst því að þetta séu 18 dagar sem menn síðan geta höndlað með sín á milli til að skapa sér betri lífsafkomu, menn fari að hafa af því hagsmuni að einn veiði meira, einn hafi fleiri daga og annar noti færri, mun þetta einfaldlega valda því að verðmæti þessa fyrirkomulags mun aukast. Við höfum líka séð það á undanförnum árum, dagarnir hafa verið að fá verð, ekki síst eftir að framsalið kom og líka vegna þess að menn hafa séð möguleikana á því að auka afla sinn með því að stækka bátana, gera þá öflugri. Ég er ekki sammála hv. þm. Magnúsi Þór Hafsteinssyni um það t.d. að stækkun véla og þess háttar hafi ekki áhrif á veiðigetuna. Við sjáum það á þeim tölum sem Landssamband smábátaeigenda hefur kynnt fyrir okkur nokkrum sinnum á sjávarútvegsnefndarfundum að það er greinileg línuleg samsvörun þarna á milli, þegar bátarnir verða öflugri með stærri vélar o.s.frv. eykst veiðigeta þeirra. Það er bara þannig. Fyrir því eru mjög margar ástæður. Þegar afli dregst saman á veiðislóðinni geta menn kippt og fært sig til. Ef þeir eru á öflugri bátum geta þeir gert út með miklu öflugri hætti. Það liggur alveg fyrir að þannig er þetta.

Sá sem hér stendur hefur verið, og er, talsmaður þessa kerfis. Ég er alveg sannfærður um að dagafyrirkomulag, sóknartengt fyrirkomulag, getur verið ef vel er á málum haldið fullkomlega jafngott kerfi efnahagslega og aflahlutdeildarkerfi eða kvótakerfi. Þá þurfa að vera til staðar ákveðnir hlutir, t.d. þurfa menn líka að hafa tæki til þess að stjórna sókninni, ekki bara með dögunum heldur líka með afli skipanna. Þannig er það framkvæmt alls staðar í heiminum þar sem ég þekki til þar sem þetta er gert af einhverju viti og menn eru í raun og veru að reyna að stjórna sókninni.

Það hefur komið fyrir í þessari umræðu að menn hafa verið að víkja að sjónarmiðum okkar þingmanna í Norðvest., m.a. sjálfstæðismanna. Ég vil a.m.k. tala fyrir mína hönd í þeim efnum, ég hef alltaf talað mjög skýrt í þessum efnum. Á fundi á Ísafirði sem haldinn var einhvern tíma í fyrra, 13. september hygg ég það hafi verið, sem menn hafa vitnað til var ég spurður að því af góðum félaga mínum hver afstaða mín til dagakerfisins væri. Ég svaraði því þar og nú verð ég að byggja á frásögn eða endursögn eða uppritun skulum við segja, endurritun, Magnúsar Þórs Hafsteinssonar og geng út frá því að þetta sé hið kórrétta svar. Ég man það a.m.k. ekki öðruvísi og leyfi mér að lesa það, með leyfi virðulegs forseta, þannig að það liggi alveg fyrir hver afstaða mín í þessu máli hefur verið, og er. Þar segir svo, virðulegi forseti:

,,Fyrst og fremst vil ég bara árétta það sem ég var að segja hér áðan. Ég held að það þurfi að gera tvennt varðandi dagakerfið, þ.e. annars vegar að setja í það gólf og hins vegar að tryggja það að sóknarmátturinn aukist ekki í heild sinni. Það er mjög mikilvægt til þess að verja þetta dagakerfi í heild sinni að það sé líka gert jafnframt því að gólfið sé sett í kerfi því við vitum að ef það er ekki gert, þá mun sóknarmátturinn halda áfram að aukast og þá verður ekkert sem ver þetta kerfi. Þannig að ég er eindregið þeirrar skoðunar og menn eiga að tala hreint út um það`` --- og líka Jón Bjarnason og vík ég nú að mínum ágæta kollega --- ,,að það þurfi að koma tvennt til til þess að verja kerfið, bæði gólfið og líka hitt að koma í veg fyrir það að sóknarmarkið vaði upp úr öllu valdi því þá getum við, enginn okkar, varið þetta kerfi. Menn eiga að tala heiðarlega um það.``

Þannig er þetta. Þetta er það sjónarmið sem ég hef haft uppi í þessu. Það yrðu að koma til mjög strangar sóknartakmarkanir ef við ættum að verja þetta kerfi. Það er algjörlega útilokað eins og frv. hv. þingmanna Frjálsl. og Vinstri grænna leggur til, að setja bara gólf við 23 daga og síðan ekki söguna meir. Þannig er það frv., algjörlega ábyrgðarlaust frv. og alveg handónýtt fyrirkomulag við stjórn á veiðum, hvort sem er á 300 smábátum eða einhverju öðru. Það er einfaldlega alveg útilokað að menn geti stundað slíka fiskveiðistjórn því að það er engin fiskveiðistjórn. Ef menn ætla að stjórna með sóknarmættinum verða menn að hafa líka kjark til þess að segja hvaða áhrif það hefur. Ef það á að ná tilskildum árangri mun það auðvitað eiga að tryggja tiltekinn sóknarmátt. Hins vegar er sóknarkerfið þess eðlis að við vitum að aflinn eykst við tilteknar aðstæður og hann dregst síðan saman. Það er ekki hægt að mæla það upp á kíló og gramm. Það er bara þannig. Eitt árið getur aflinn farið eitthvað upp og annað árið fer hann niður og við sjáum það t.d. núna að það er engin tilviljun að afli smábátanna er svona mikill núna. Það er bæði vegna aukinnar veiðitækni og þekkingar manna á þessum veiðiskap með nýrri tækni en líka hitt, sem skiptir gríðarlega miklu máli, að ástandið á grunnslóðinni er eins og allir þekkja. Það hefur bara einfaldlega verið gjöfult á grunnslóðinni. Þetta er hins vegar kerfi sem er að því leytinu mjög viðkvæmt að þetta er handfærakerfi og það er sóknartengt. Sérstaklega meðan við höfðum sólarhringsfyrirkomulagið olli þetta kerfi því að menn voru stundum í vandræðum með að ná dögunum sínum. Einhver hv. þingmaður talaði um það áðan að það væri svo óskapleg pressa eða kapp í þessu kerfi og þá vil ég vekja athygli á því að eins og málin hafa verið að þróast hafa mjög margir klukkutímar brunnið inni vegna þess að þetta kerfi hefur verið sveigjanlegra en áður og margir dagar brunnið inni vegna þess að menn voru að bíða eftir gæftunum.

[22:00]

Í morgun hringdi í mig ágætur félagi minn sem er dagakall, klukkutímakall eins og ég kalla nú orðið, og sagðist hafa sett á flot núna 1. maí og hann er búinn að fara einn róður. Við sjáum að náttúran takmarkar þetta og handfæraveiðarnar eru þess eðlis að þær hafa þessi áhrif.

Það er alveg rétt að afli þeirra báta sem hér um ræðir hefur verið gríðarlega mikilvægur fyrir einstakar hafnir. Ég ætla ekki að gera lítið úr því, nema síður sé. Þetta er gífurlega mikilvæg búbót í atvinnuskyni á tilteknum árstímum í tilteknum höfnum. Þarna kemur á land gríðarlega mikill afli og auðvitað veldur hann umsvifum. Hann hækkar tekjur hafnanna o.s.frv. Ef menn ætla að vera alveg vissir í sinni sök er út af fyrir sig hægt að segja sem svo að þá ættum við ekki að breyta neinu í þessu kerfi.

Ég tók hins vegar eftir því að hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson boðaði hér ansi mikla breytingu. Hann lagði það til að við hyrfum frá þessu sumarkerfi á handfærum sem er frá 1. maí til 1. september. Hann sagði sem svo, og lagði mjög mikla áherslu á það í hverju andsvarinu á fætur öðru, að það væri gríðarlega mikilvægt og mikið framfaraspor fyrir fiskveiðistjórnarkerfið, afkomumöguleika útgerðarmannanna o.s.frv. að þeir gætu veitt allan ársins hring. Hann sagði að það væri hálfgert kúrekalíf, að hans mati, að menn færu frá heimabyggðum sínum siglandi vestur eða norður fyrir landið til þess að stunda veiðar fjarri heimilum sínum. Hann sá fyrir sér að með því að hægt væri að opna á það að menn væru á þessum veiðum allan ársins hring, alltaf þegar veðurfar leyfði mönnum að stunda þessar veiðar, mundi það hverfa, þá gæti Akurnesingurinn stundað sínar veiðar frá Akranesi og Þorlákshafnarbúinn frá Þorlákshöfn, Eyjamaðurinn frá Vestmannaeyjum og þar fram eftir götunum. Hvaða áhrif ætli þetta mundi hafa? Hvaða áhrif ætli þetta mundi hafa á hafnir eins og Bolungarvík, Suðureyri eða Skagaströnd? Menn ræða þetta ákaft og ég sjálfur er mjög að velta því fyrir mér. Það er augljóst mál. Ef þessi framtíðarsýn hv. þingmanns gengi eftir væri augljóst mál að það hefði þau áhrif að veiðin mundi færast suður fyrir landið þar sem blíðara er yfir háveturinn. Við vitum það að menn stunda ekki (Gripið fram í.) slíkar handfæraveiðar fyrir norðan land. Það þekkjum við, enda var það ekki sú framtíðarsýn sem hv. þm. hafði heldur fremur sú að þessir menn sem hafa stundað veiðar að sumarlagi fyrir norðan og vestan land af því að fiskurinn hefur gengið þar meira á grunnslóðina mundu að sjálfsögðu ekki við þessar aðstæður koma norður eða vestur fyrir landið. Þeir mundu einfaldlega ljúka sínum veiðum nærri heimabyggð sinni eins og hv. þm. vakti réttilega athygli á.

Vandinn sem við höfum hins vegar staðið frammi fyrir er af mörgum toga. Ég vildi aðeins vekja athygli á því að þróunin í þessu kerfi hefur verið slík að við höfum séð að það hefur verið mikil veiði og mikil löndun í þeim höfnum sem hafa verið næstar þessum miðum. Það hefur auðvitað verið kostur við þetta kerfi. Það er það sem ég hef alltaf séð sem meginkostinn við þetta sóknartengda kerfi, það að skaka afla inn á hafnir sem næstar eru miðunum. Það er ótvíræður kostur frá mínum bæjardyrum séð.

Það sem er hins vegar athyglisvert í þessu sambandi, samkvæmt tölum sem ég fékk í hendur eftir að ég óskaði eftir þeim frá Fiskistofu, er að skoða annars vegar samhengi veiðinnar í höfnunum og hins vegar vinnslunnar á þessum sama afla. Þá koma fram alveg tvær myndir. Ef við skoðum veiðina eða löndunina í einstökum höfnum er hún mest í Bolungarvík, um 1.600 tonn, Grímsey 1.200, Suðureyri 1.100 og Skagaströnd rúm 1.000 tonn. Ef við skoðum hins vegar hvar mest var unnið af þessum afla kemur alveg gjörólík mynd. Langmest er unnið í Reykjavík, 1.726 tonn, en aflinn sem þar er hins vegar lagður á land af þessum bátum er sáralítill. Ég ætla að reyna að finna það hér, já, 52 tonnum var landað en 1.700 tonn unnin. Flateyri, 928. Þar var landað held ég 300 tonnum, Suðureyri 674 en landað 1.100. Árskógsströnd, 628. Við sjáum að aflinn kemur á land í tilteknum höfnum þar sem best er auðvitað að sækja sjóinn en hins vegar er það að mínu mati áhyggjuefni hversu illa okkur hefur gengið víða að tryggja að þessi afli nýttist líka til vinnslu á svæðinu. Þetta höfum við oft og tíðum rætt og við höfum svo sem engar patentlausnir.

Það sem hér er á ferðinni er að nú liggur fyrir frv. hæstv. sjútvrh. þar sem verið er að bregðast við tvenns konar kröfum, annars vegar kröfum manna sem hafa viljað viðhalda sóknardagakerfinu, og sá sem hér stendur er óneitanlega í þeirra hópi, en líka að bregðast við sjónarmiðum sem hafa komið fram um kvótasetningu.

Menn hafa sagt: Er sátt um málið? Nei, það er ekki fullkomin sátt um þetta mál, það vitum við. Hæstv. sjútvrh. átti þrjá kosti. Hann gat sagt sem svo: Höldum bara núverandi kerfi áfram, gerum ekkert. Það var einn kosturinn. Annar kosturinn var sá að ganga algjörlega að kröfu hópsins sem krafðist þess að hafa sóknartengt kerfi, eins og ég og fleiri lögðum til. Þriðji möguleiki hæstv. ráðherra var svo sá að bregðast við ósk þeirra sem vildu setja þetta allt inn í kvóta, loka kerfinu eins og menn hafa kallað --- sem ég held að sé mikill misskilningur, við erum með lokað kerfi líka, sóknartengda kerfið --- og ljúka þessu máli með því að allir færu í kvóta.

Hæstv. ráðherra tekur hins vegar fjórðu ákvörðunina. Hún er sú að segja: Látum þá sem eru starfandi í kerfinu velja sér hvora leiðina þeir telja hentugri. Það er það sem þetta frv. gengur út á. Það sem við þurfum hins vegar að skoða í hv. sjútvn. er hvort þetta séu jafngildir kostir. Erum við að bjóða mönnum upp á að velja sér aðra hvora leiðina á grundvelli jafnræðis í hugsuninni? Við gerðum það ekki þegar við tókum þakbátana út úr fiskveiðistjórnarkerfinu. Við gerðum það þá þannig að það var alveg augljóst, fyrir nánast hvern einasta útgerðarmann, að það var betra fyrir hann að fara inn í dagakerfið. Það sem ég tel algjört grundvallaratriði í þessu máli er að við veljum hér út frá tveimur jafngildum kostum. Út á það gekk þessi umræða þegar menn voru að lokum að komast niður á þetta, að valið yrði þá að vera til staðar, úr því að það væru ósættanleg öfl sem tækjust á, m.a. innan smábátakerfisins, um þetta mál. Það er samt alveg hárrétt sem Landssamband smábátaeigenda hefur bent á, samtök þeirra hafa öll ályktað fyrir dagakerfinu. Þess vegna skyldi maður ætla að við værum með tvo nokkuð sambærilega kosti. Auðvitað getur maður alltaf deilt um hvað er sambærilegt því að það er gríðarlega teygjanlegt og óljóst hugtak í sjálfu sér. Ef það er skoðun yfirgnæfandi hóps innan Landssambands smábátaeigenda að þeir vilji fremur dagakerfið, að því gefnu að það séu tveir sambærilegir kostir eða sem næst sambærilegir kostir, mun það væntanlega koma fram í þessu vali.

Virðulegi forseti. Þetta er 1. umr. málsins og ég kaus að reyna að fara yfir þessi mál dálítið almennt vegna þess að mér fannst nauðsynlegt að við ræddum þau í þessum anda. Við þekkjum býsna vel ýmsar útfærslur sem við erum að fjalla um en við þurfum líka að setja þetta í hið nauðsynlega samhengi og gera okkur grein fyrir hvers konar kerfi við erum að ræða um sem við köllum dagakerfi eða klukkutímakerfi.