Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 17. maí 2004, kl. 22:17:47 (8475)

2004-05-17 22:17:47# 130. lþ. 118.1 fundur 996. mál: #A stjórn fiskveiða# (sóknardagar báta, krókaaflamark o.fl.) frv. 74/2004, EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 130. lþ.

[22:17]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Grundvallarmálið í þessu frv. er að verið er að leggja til val handa smábátaútgerðarmönnunum. Þeir eiga að geta valið hvort þeir fara fremur í dagakerfi eða krókaaflamarkskerfi. Ég tel ekki skynsamlegt, eins og komið er málum, að við göngum til baka að því leytinu og segjum að annar hópurinn eigi að velja fyrir hinn, að kvótamennirnir geti hugsanlega í krafti meiri hluta valið kvóta fyrir alla hina. Ég held að það sé mjög óskynsamlegt og því er hæstv. sjútvrh. í rauninni að hafna með þessu.

Ég held þvert á móti að það eigi að teikna valkostina sem skýrasta og sem jafnasta eins og við getum gert þannig að menn velji út frá jafngildum forsendum hvora leiðina þeir vilji fara. Ég hefði kosið að niðurstaðan hefði einfaldlega orðið sú að (Gripið fram í.) við værum með dagakerfi með gólfi og ströngum sóknartakmörkunum. Sú varð hins vegar ekki niðurstaðan. Það er er ekki hin pólitíska niðurstaða í ríkisstjórnarmeirihlutanum og þess vegna stöndum við frammi fyrir þessu vali eins og það er núna.