Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 17. maí 2004, kl. 22:21:39 (8478)

2004-05-17 22:21:39# 130. lþ. 118.1 fundur 996. mál: #A stjórn fiskveiða# (sóknardagar báta, krókaaflamark o.fl.) frv. 74/2004, JBjarn (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 130. lþ.

[22:21]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson lét að því liggja að það lægi klárt fyrir um endanlegt gólf, 18 daga. Svo er alls ekki. Það gæti verið endanlegt gólf fyrir næsta ár, og punktur og basta. Svo er ekkert tryggt fyrir framtíðina þannig að það gæti haldið áfram að lækka. Þau mörk sem hér eru sett eru álíka fljótandi og þau hafa verið.

LÍÚ hefur fengið sitt og mér finnst að hvað varðar þessar veiðar eigi Landssamband smábátaeigenda með sömu rökum að fá rekstrargrundvöll fyrir sinn flota. Þeir telja að gólfið þurfi að vera 23 dagar með einhverjum sóknartakmörkunum sem geta fallið að því kerfi. Hér eru hins vegar settir fljótandi 18 dagar. Svo er boðið upp á val og það er ekkert frjálst val. Það liggur við að þar sé hálfgert mútuval á ferðinni.