Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 17. maí 2004, kl. 22:23:42 (8480)

2004-05-17 22:23:42# 130. lþ. 118.1 fundur 996. mál: #A stjórn fiskveiða# (sóknardagar báta, krókaaflamark o.fl.) frv. 74/2004, MÞH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 130. lþ.

[22:23]

Magnús Þór Hafsteinsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Í máli hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar kom fram áðan að hann sagðist ekki geta stutt framkomið frv. til laga frá Frjálsl. og Vinstri grænum vegna þess að þar væri bara talað um 23 daga og svo búið spil. Ég held að þarna sé smámisskilningur á ferðinni hjá hv. þingmanni. Við sem smíðuðum það frv. á sínum tíma litum svo á að allt sem varðaði sóknartakmarkanir á bátunum --- við getum í sjálfu sér alveg fyllilega tekið undir að það er mikilvægur hluti af sóknarstýringu, við gerum okkur grein fyrir því --- væri í raun og veru ekkert annað en reglugerðarútfærsla frá sjútvrn., þ.e. við myndum þennan ramma, ákveðum hversu margir dagarnir eiga að vera en síðan er það ekkert annað en reglugerðarútfærsla hvernig sóknardagabátur í þessu kerfi á að líta út og hversu mikið af veiðarfærum hann á að bera á þessum tíma. Það er mjög einfalt mál þannig að ég held að þarna sé misskilningur á ferðinni.