Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 17. maí 2004, kl. 22:24:44 (8481)

2004-05-17 22:24:44# 130. lþ. 118.1 fundur 996. mál: #A stjórn fiskveiða# (sóknardagar báta, krókaaflamark o.fl.) frv. 74/2004, EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 130. lþ.

[22:24]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef það er svona sem hv. þm. hefur hugsað þetta líst mér enn þá verr á. (MÞH: Nú?) Sannleikurinn er sá að það sem við höfum einmitt verið að reyna að vinna í á undanförnum árum er það að færa valdið út úr sjútvrn. Mjög margir hafa fundið að því að vald sjútvrn. væri allt of mikið. Við höfum bent á að eðlilegra væri að skipa þessum málum með lögum en með reglugerð. Ég tel að það væri óþolandi valdaafsal af hálfu Alþingis ef einmitt þeir þættir sem hv. þm. var að tala um væru ekki á forræði Alþingis. Ég held að þeir sem við þetta búa mundu alls ekki að kjósa sér slíkt fyrirkomulag. Hvað sem hver segir um fiskveiðistjórnina --- menn geta haft mismunandi skoðun á henni --- er a.m.k. eitt sem menn hafa almennt verið sammála um og það er að í svona kerfi verði menn að sjá aðeins fram fyrir tærnar á sér til þess að skapa öryggi í rekstrargrundvellinum, til þess að skapa verðmæti í greininni. Þess vegna held ég að það væri miklu verra að hafa þetta í formi reglugerðar. Ég er ósammála hv. þingmanni um það. Ég tel að það ætti einmitt að skipa þessum málum með lögum.