Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 17. maí 2004, kl. 22:28:06 (8484)

2004-05-17 22:28:06# 130. lþ. 118.1 fundur 996. mál: #A stjórn fiskveiða# (sóknardagar báta, krókaaflamark o.fl.) frv. 74/2004, SigurjÞ
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 130. lþ.

[22:28]

Sigurjón Þórðarson:

Herra forseti. Það mál sem við erum að ræða er mjög mikilvægt. Það er ekki bara mikilvægt fyrir 300 útgerðarmenn, eða hvað þeir eru margir. Það er mikilvægt fyrir sjávarbyggðirnar í landinu og það er ekki einkamál útgerðarmanna hvernig það verður útfært, heldur snýr þetta að sjávarbyggðunum. Ef menn eru að hugsa um sjávarbyggðirnar fyrir vestan, eins og ég tel að hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson ætti að gera, ættu þeir að vera menn til að hafna þessu frv. en ekki fara út og suður og svara engu þegar hann er spurður út í afstöðu sína til frv. sem mun án efa verða Bolungarvík og mörgum byggðum fyrir vestan mjög dýrkeypt. Þess vegna á hann auðvitað að standa með sínu fólki og hafna frv.

Hver er að biðja um frv.? Ekki er það LÍÚ. Þeir sendu frá sér yfirlýsingu 14. maí undir yfirskriftinni: LÍÚ leggst gegn frumvarpi um sóknardagabáta. Í henni segir, með leyfi forseta:

,,Landssamband íslenskra útvegsmanna leggst eindregið gegn því að frumvarp sjávarútvegsráðherra um sóknardagabáta verði samþykkt ...`` --- Þetta er sem sagt ekki fyrir þá. Ekki er það fyrir Landssamband smábátaeigenda. Og ekki er þetta fyrir fiskvernd, það er alveg á tæru. Það skiptir ekki öllu máli fyrir fiskstofna í landinu hvort veidd séu 8 eða 12 þús. tonn af þorski. Þetta eru ekki nema um 5% af þorskaflanum. Hvað liggur að baki? Ég spyr sjálfan mig eftir að hafa hlýtt á menn tala um að hér séu tveir jafngildir kostir. Það hefur hins vegar komið fram í umræðunni að svo er alls ekki og það er hrein fjarstæða að halda slíku fram. Það er talað um eitthvert gólf en svo hefur komið í ljós í umræðunni að það er ekkert annað en fallhleri. Hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson sagði sjálfur að þetta væri mjög fúið gólf. Síðan er það hinn hlutinn, að menn fái kvóta sem er söluvara.

Hvort vilja menn þá fá milljónir í formi kvóta eða fúið gólf, fallhlera? Ég held að það sé engin spurning. Það er verið að kasta á glæ sjálfu sóknardagakerfinu og það er það sem við eigum að ræða. Hvers vegna erum við að því? Ég spyr: Hvers vegna eru menn að gera það? Ættum við ekki frekar að fara í aukna stýringu á fiskveiðum með sóknarstýringu? Í Færeyjum stjórna menn veiðum með sókn en hér með kvótum og ef við berum saman árangur þjóðanna, Færeyinga annars vegar og Íslendinga hins vegar, er engin spurning að Færeyingum hefur tekist mun betur upp en okkur Íslendingum. Hvers vegna förum við þá ekki yfir og skoðum með hvað þeim tekst vel upp?

[22:30]

Í annan stað eru þessar smábátaveiðar vistvænar. Það má sjá af gögnum frá Hagstofunni. Þar kemur fram að olíukostnaður er 3,3% af tekjum á bátum undir 10 brúttólestum. Að vísu eru kannski bátar sem eru að einhverju leyti á aflamarki inni í því en ef við skoðum ísfisktogara er kostnaðurinn rétt um 11%. Við erum að tala um vistvænar veiðar smábátanna, góða umgengni um vistkerfi sjávar og hvað eru menn þá að einbeita sér að því að eyða þessum flokki og agnúast út í hann? Ættum við ekki frekar að reyna að stuðla að því að menn færu út í þetta kerfi? Ég hefði talið að svo væri ef menn notuðu skynsemina.

Hver er ástæðan fyrir því að kerfið fær ekki að vera í friði? Það er greinilegt að það ógnar ekki fiskstofnunum hringinn í kringum landið. Þessi fræði sem er boðið upp á, vísindi eða hvað það kallast, reynsluvísindi eins og hæstv. sjútvrh. kallaði speki sína, finnast mér vafasöm. Úr því að vísindi ber á góma vil ég nefna að ég spurði hann um daginn út í ákveðin vísindi sem ég hef ávallt efast um og fyrst hann er í salnum vil ég ítreka þá spurningu. Hún varðar sveiflujöfnunina. Hann sagði að ... (Sjútvrh.: ... á þennan hátt.) Nei, það tókst ekki en ég er sjálfur líffræðingur og hef rætt þetta í framhaldinu við fleiri líffræðinga og allir eru mjög hissa á þessari sveiflujöfnun. Ég veit ekki betur en að hæstv. sjútvrh. hafi bent á að hann ætlaði að ljósrita eintak af henni og senda mér til þess að ég gæti rifjað upp tölfræðina. Það hefur eitthvað staðið fast í ljósritunarvélinni í ráðuneytinu því að ég er ekki enn þá búinn að fá þessa skýrslu þrátt fyrir að hafa beðið um hana nokkrum sinnum. Ég óska þá eftir að fá hana sem allra fyrst. Ég á ekki von á öðru en að hæstv. ráðherra verði við þeirri ósk.

Það er alveg rétt sem hæstv. ráðherra sagði, það skiptir ekki öllu máli hvort fiskur er veiddur í sóknarkerfi eða kvótakerfi. En hvers vegna leggjum við í Frjálsl. til að hann verði veiddur í sóknarkerfi? Jú, ef hann er veiddur í sóknarkerfi er enginn hvati til að henda honum. Það eru allar líkur á því að smærri fiskur komi frekar í land í sóknarkerfi en í kvótakerfi. Þetta játa allir. Meira að segja kom það fram í skýrslu sem Tony Blair lét semja í Bretlandi fyrir skömmu. Þar er lagt til að menn íhugi það að fara gaumgæfilega í sóknarstýringu í blönduðum botnfiskveiðum vegna þess að það tryggir að allur afli komi á land. Hvers vegna er það svo mikilvægt? Jú, eins og áður sagði --- við vorum að ræða um vísindin --- til að tryggja að landaður afli endurspegli veiðina. Hann fer inn í reiknilíkönin og aldursaflagreiningin segir til um hvað fiskstofnarnir eru stórir út frá því. Ef menn henda smáfiskinum gefur það augaleið að menn vanmeta nýliðun í fiskstofnum og sú er hættan sem fylgir þessu frv., að við hvetjum til brottkasts með því að setja litlu bátana í kvóta. Þá er ekki sami hvati til þess að koma með lítinn fisk að landi og ég er sannfærður um að hæstv. ráðherra er mér sammála í þessu máli. Ef hann er það ekki óska ég eftir að hann geri grein fyrir því hvers vegna. (Sjútvrh.: Ég er búinn að því.) Það væri þá ágætt að fá að heyra það á ný.

Breskir vísindamenn sem bjuggu til þá skýrslu sem Morgunblaðið hefur vitnað í segja að það eigi að fara yfir og skoða kosti og galla sóknarstýringar. Bretar eru ekki einir um það heldur hefur ágætur þingmaður, hv. þm. Hjálmar Árnason, talað ítrekað um það. Hann stærði sig af því í viðtali við horn.is að búið væri að samþykkja slíkt frv. og að verið væri að vinna einhverja úttekt á færeyska kerfinu. Ég hef ekkert frétt af þeirri vinnu. Þó höfum við ítrekað spurt um hana.

Við megum ekki gleyma því að þetta snýr ekki bara að þessum 300 útgerðarmönnum heldur snýst þetta líka um sjávarbyggðirnar og þess vegna verðum við að horfa á heildarmyndina. Eins og ég minntist á í andsvari við hv. þm. Guðjón Hjörleifsson tel ég að verði frv. að lögum muni það koma í veg fyrir nýliðun, loka fyrir hana. Það er íhugunarefni fyrir Sjálfstfl. árið 2004 að hann er dag eftir dag að tala um kvóta og höft. Nú er verið að tala um kvóta og höft í sjávarútvegi. Í fyrradag voru það höft varðandi fjölmiðla og skerðing á atvinnufrelsi. Ef þetta frv. verður að lögum er verið að loka þessum klúbb enn frekar. Ég hefði talið jákvætt að fá nýliða inn og þess vegna ætti sjútvrh. að leggja fram frv. um hvernig eigi að fá inn nýliða. Nýliðar eru mjög mikilvægir. Þeir koma með nýjar hugmyndir inn í atvinnugreinina en hér virðist það vera rosalegt vandamál hjá kvótaflokkunum, Sjálfstfl. og Framsfl., sem reyna að girða af útveginn.

Í öðru lagi setja nýliðarnir ákveðna pressu á þá sem fyrir eru í atvinnuveginum. Mér fannst röksemdafærslan í svari hv. þm. Guðjóns Hjörleifssonar fjarstæðukennd þegar hann talaði um að menn væru jafnsettir og áður með að komast inn í útgerð eftir þessa lagasetningu. Hann talaði um vexti og ég veit ekki hvað. Það væri fróðlegt að fara yfir það svar frá hv. þingmanni því að mér fannst það vera tóm della, sérstaklega í ljósi þess að hæstv. sjútvrh. hafði talað um að það mundi hækka eiginfjárstöðu þessara fyrirtækja. Hvernig má það vera þegar tekjurnar munu að öllum líkindum lækka, færri fiskar munu koma á land? Það er eitt af markmiðunum með þessu frv.

Það verður líka fróðlegt að fylgjast með hvernig stjórnarþingmenn í Norðvest. munu bregðast við og hvort þeir muni samþykkja þetta frv. Ég tel að hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson hafi lýst því yfir á fundi um línuívilnun að hann styddi 23 daga gólf í dagakerfi. Ég skildi hv. þm. Einar Kristin Guðfinnsson á sama veg en nú ber hann það til baka. Hann talar út og suður um þetta. Ég hefði viljað sjá hann í fylkingarbrjósti þeirra manna sem vildu hrinda þessu frv. og vernda dagabátana í stað þess að tala hér með óljósum hætti um að sé valið jafnt muni hann styðja frv. en hann sjái mögulega, eins og hvert mannsbarn ætti að sjá, að að líkindum muni allir fara í kvótann. Ég furða mig á afstöðu hans í þessu máli.

Það verður einnig fróðlegt að fylgjast með framsóknarmönnum. Ef maður les atvinnumálastefnu flokksins frá 27. flokksþingi Framsfl. sem haldið var 2003 segir þar að unnið verði að því að koma í veg fyrir brottkast afla. Þetta frv. hvetur til brottkasts. Það verður mjög undarlegt að horfa upp á framsóknarmenn kyngja þessu frv. en þeir eru mjög duglegir að kyngja þessa dagana. Mér skilst að fjölmiðlafrv. sé komið hálfa leið niður kokið, svo er það að útræðisréttur strandjarða verði virtur á ný og staðfestur í fiskveiðilögum. Erum við að gera það hér? Ég spyr, ágætu framsóknarmenn: Erum við að gera það hér eða er þetta bara til skrauts í atvinnumálastefnu flokksins? Er engin meining á bak við þetta? Síðan er það aftur þetta gamla góða: Gerð verði úttekt á sóknardagakerfi Færeyinga, hvernig staðan er þar og hvernig það yrði í framkvæmd á Íslandi með tilliti til dagafjölda og úthlutunar daga. Ég á von á því að hv. þm. Hjálmar Árnason hafi staðið að þessu. Mér skilst líka að hann sé á mælendaskrá og komi jafnvel á eftir mér í ræðustól. Þá verður fróðlegt að fylgjast með því hvort hann greini okkur frá hvernig þessari úttekt miði. Hann verður spurður um hana. Hann hefur lýst því yfir í vefriti að hann styðji gólf í dagakerfið. Ég spyr hvort hann styðji þá þetta frv. Það kæmi mér algerlega á óvart því það hefur komið fram að frv. felur ekki í sér gólf, eða þá í mesta lagi fúið gólf eins og hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson nefndi. Hann ætti ekki að geta stutt frv. enda væri það í algerri andstöðu við sjávarútvegsstefnu Framsfl. Hvað sem því líður hafa fleiri lofað, m.a. lofaði hæstv. utanrrh. Norðvesturkjördæminu að nú kæmi að því. Þar er atvinnuástand bágt eins og hann viðurkenndi og hann viðurkenndi að Framsfl. hefði staðið sig mjög illa þar og hefði staðið sig heldur skár annars staðar á landinu. Ég spyr: Er þetta þessi atvinnuuppbygging sem á að fara fram í Norðvest., þetta frv. sem við erum að ræða hér? Það mun fara í þveröfuga átt og nær allir hafa viðurkennt það.

Síðan hafa fleiri stórsnillingar tjáð sig um málefni landsbyggðarinnar. Það ber að minnast á hæstv. forseta þingsins, sjálfan Halldór Blöndal, en hann ritaði mjög merka grein 15. apríl sem heitir Fólk vill hafa fast land undir fótum á landsbyggðinni. Ég get verið honum sammála um það en ég er ekki sammála því að þetta frv. muni tryggja fast land undir fætur fólks á landsbyggðinni. Þvert á móti er verið að kippa grunninum undan atvinnu í Norðvest. Ef það er að marka það sem hv. þm. segir ætti hann að standa með okkur í stjórnarandstöðunni og koma þessu frv. frá. Hann segir m.a. í ágætri grein, með leyfi forseta:

,,Lausnin fyrir sjávarplássin er ekki að einblína á þorskinn og efna til stríðs milli útgerðarflokka og byggðarlaga.`` --- Ég get tekið undir það. Auðvitað eigum við ekki að kippa stoðunum undan stöðum eins og Bolungarvík, Suðureyri, Skagaströnd og þessum stöðum. Við eigum að fara eftir 1. gr. laga um stjórn fiskveiða en þar segir að við eigum að tryggja trausta atvinnu og byggð í landinu. Erum við að gera það með þessu frv.? Það tel ég alls ekki vera.

Ef við berum sóknarkerfið saman við kvótakerfið er það rétt að enginn á rétt á að fá kvóta í þessu kerfi út frá þeirri sóknarstýringu sem við höfum haft. Menn hafa haft jafna möguleika og nú er verið að færa þessa jöfnu möguleika þeim sem hafa nýtt sér þá í meira mæli en aðrir og gera þá að einhverri séreign. Það er furðulegt að menn skuli hafa fyrir augunum vont kerfi, kvótakerfi, og bera það ekki saman við það sem við höfum gert vel, þ.e. þar sem fiskveiðum hefur verið stjórnað með árangri. Árangur okkar í kvótakerfi er mjög slæmur, bæði hvað varðar byggðaröskun og síðan hvað varðar landaðan afla. Árangurinn af þessu kerfi er að þorskaflinn upp úr hafinu við Ísland er helmingi minni nú en fyrir daga kerfisins. Ættu menn ekki að nota skynsemina og spyrja sig: Hvað getum við gert betur? Er ekki rétt að staldra við og skoða aðstæður þar sem menn hafa náð árangri og stýrt fiskveiðum eins og t.d. í Færeyjum? Þar ná menn upp úr hafinu svipuðum afla, ef ekki meiri, með sóknarstýringu. Að vísu verður að segja eins og er að þeir reyndu kvótakerfi. Leiðin lá beint niður og þar lá við að aflinn minnkaði árlega. Þeir sáu að við það varð ekki búið þannig að þeir breyttu um stefnu og fóru yfir í sóknarstýringu. Hvers vegna fara menn ekki að t.d. ályktunum framsóknarþingsins og skoða í alvöru stjórn fiskveiða í Færeyjum? Ég hefði talið að menn ættu að gera það og reyna að ná árangri.

Að lokum vil ég koma því að skýrt og greinilega að þetta mál snýr ekki eingöngu að útgerðarmönnunum heldur snýr það að sjávarbyggðunum og hvernig við ætlum að ná árangri við að stjórna fiskveiðum á Íslandsmiðum.