Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 17. maí 2004, kl. 23:31:15 (8499)

2004-05-17 23:31:15# 130. lþ. 118.1 fundur 996. mál: #A stjórn fiskveiða# (sóknardagar báta, krókaaflamark o.fl.) frv. 74/2004, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 130. lþ.

[23:31]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Frú forseti. Það rifjaðist upp fyrir mér þegar ég hlýddi á hv. þm. Hjálmar Árnason að þegar hann fór í framboð til Alþingis í fyrsta sinn fór hann mikinn og boðaði í raun og veru sérstaka sjávarútvegsstefnu, einhvers konar Suðurnesjastefnu framsóknarmanna þar sem hann hugðist taka veiðiheimildir af togurum og stærri bátum og stærri skipum og flytja á bátaflotann og efla mjög þá útgerð, strandveiðiflotann ef við köllum hann svo. (Gripið fram í.) Ég vil spyrja hv. þingmann út frá þessu: Óttast hann ekki að þessi gjörningur geti orðið upphafið að endalokunum á þessum valkosti sem sóknardagafyrirkomulag hluta smábátaflotans hefur verið? Gæti það þá ekki einmitt orðið upphafið að þróun í kolöfuga átt ef þessi hópur fer að mestu leyti í kvóta og leggst síðan á árar ásamt með fleirum að fá að selja veiðiheimildir sínar, jafnvel upp til stærri skipa? Hversu lengi heldur sú takmörkun og hefur hv. þm. engar áhyggjur af því að hér séum við að reka í raun og veru enn einn naglann í líkkistulok smábátaútgerðar og strandveiðiflotans?