Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 17. maí 2004, kl. 23:32:28 (8500)

2004-05-17 23:32:28# 130. lþ. 118.1 fundur 996. mál: #A stjórn fiskveiða# (sóknardagar báta, krókaaflamark o.fl.) frv. 74/2004, HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 130. lþ.

[23:32]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni gott minni. Það er einmitt rétt að muna hvernig ástand var meðal smábáta 1995. Ef ég man rétt var dagakerfið yfir línuna komið niður í eina 7--8 daga. Ég held að hv. þingmaður muni það því að ef ég man rétt var hv. þm. þá í sjútvn. Síðan hefur auðvitað mjög mikið gerst, sérstaklega meðal smábáta, minna gerst meðal hinna svokölluðu punga vertíðarflotans en það hefur orðið veruleg aukning í því sem smábátar veiða. Ég minni hv. þingmann á að 400--500 smábátar munu nú þegar vera í kvóta og eru afskaplega farsælir fyrir þau byggðarlög sem þeir leggja upp í. Ekki hafa orðið nein endalok hjá útgerðum þeirra aðila heldur eru þeir afskaplega sáttir.