Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 17. maí 2004, kl. 23:33:41 (8501)

2004-05-17 23:33:41# 130. lþ. 118.1 fundur 996. mál: #A stjórn fiskveiða# (sóknardagar báta, krókaaflamark o.fl.) frv. 74/2004, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 130. lþ.

[23:33]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að taka þurfi málefni smábátaútgerðarinnar og bátaútgerðarinnar til endurskoðunar í heild sinni. Okkur vantar samræmt kerfi fyrir þann útgerðarflokk sem nýtir grunnmiðin næst landinu sem fellur eðlilega að eðli þeirra veiða. Í því sambandi er veruleg eftirsjá að því ef sóknartakmarkandi fyrirkomulag hverfur með öllu út úr fiskveiðistjórn við Ísland og þeirri sögu lýkur þannig. Margir telja og ekki síst þegar veiðar smærri skipanna eiga í hlut að það gæti verið góður kostur að skoða slíka möguleika eins og hv. þm. kom reyndar inn á og nefndi áhuga manna á því að skoða færeyska kerfið. Það er ekki nýtt af nálinni því að ég man ekki betur en að ég og hv. þingmaður höfum farið sem nefndarmenn í sjútvn. í ágæta kynnisferð til Færeyja á árum áður.

Ég hef alltaf átt mér þann draum að einhvern tíma kæmi að því að menn tækju þetta heildstætt til endurskoðunar. Það er auðvitað með blendnum hug sem maður horfir til einstakra aðgerða af þessu tagi ef maður jafnvel telur að þær þrói kerfið í öfuga átt.