Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 17. maí 2004, kl. 23:36:26 (8503)

2004-05-17 23:36:26# 130. lþ. 118.1 fundur 996. mál: #A stjórn fiskveiða# (sóknardagar báta, krókaaflamark o.fl.) frv. 74/2004, KLM
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 130. lþ.

[23:36]

Kristján L. Möller:

Frú forseti. Það frv. sem við ræðum er um breytingu á fiskveiðistjórnarlögum, þ.e. breytingar á svokölluðum dagabátum, enn ein breytingin sem greinilega mun valda miklum deilum eins og hér hefur komið fram, ekki eingöngu milli stjórnar og stjórnarandstæðinga, heldur því miður líka meðal smábátasjómanna sem eru í þessu kerfi. Það er auðvitað miður.

Ég sagði í stuttu andsvari við sjútvrh. í dag að upplýsingar mínar hefðu verið um það að hann hafi kynnt frv. 7. maí. Nú hefur komið í ljós að það var 10. maí og vil ég leiðrétta það hér með. Ég vil líka segja að ég hef hlustað með athygli á marga hv. þm. ræða um kosti og galla þessa frv., kosti og galla sjávarútvegskerfisins. Því miður má segja að miklar deilur séu og verði kannski eitthvað áfram um sjávarútvegsstefnuna. Er það mjög miður, virðulegi forseti. Ég vil taka það skýrt fram. Ég hef sagt það áður og vil segja enn einu sinni að ég tel eitt af brýnustu verkefnum Alþingis og alþingismanna að reyna að skapa miklu meiri sátt um sjávarútvegskerfið. Við getum ekki búið við það að þessi aðalatvinnuvegur okkar lifi sífellt í óvissu og í þessum deilum þegar við svo bætast líka ýmsar breytingar úti í heimi sem við höfum engin áhrif á, þ.e. gagnvart þeim sem ætla að kaupa þessar afurðir okkar. Það er mjög alvarlegt mál vegna þess að við Íslendingar erum sennilega manna fremstir í sjósókn, vinnslu afla, öllum nýjungum og öllu því en það dugar ekki til, virðulegi forseti, ef enginn verður til að kaupa afurðirnar á því verði sem við viljum fá fyrir þær.

Á þeim 20 mínútum sem ég hef til að ræða þetta mál get ég ekki farið yfir mikið en vildi nefna þetta í byrjun. Svo ætla ég að snúa mér að þessu frv. vegna þess að það er auðvitað það sem hér er fyrst og fremst á dagskrá. Kannski gefst tækifæri til annars við 2. umr. ef hún verður yfirleitt um þetta frv. áður en þing fer heim. Það er ekkert víst.

Mér er ákaflega minnisstætt, virðulegi forseti, að þegar ég var vestur í Bolungarvík, í þeim ágæta bæ --- ég gerði mér það oft til dundurs að labba niður á brjót og fylgjast með körlum koma að landi --- spurði ég einn gamlan nemanda minn í hvaða kerfi hann væri. Hann svaraði mér því til að hann væri í taugakerfinu. Þá var það dagakerfið, þá var ekki klukkustundakerfið, og hann kallaði það taugakerfi. Ég vil helst ekki hafa eftir, virðulegi forseti, það sem hann sagði að ættingjar sínir kölluðu kerfið vegna þess að það var orð sem ég vil helst ekki segja upphátt.

Ályktanir frá Landssambandi smábátaeigenda hafa verið gefnar út um þetta dagakerfi og talað hefur verið um gólf. Það er rétt að á aðalfundi Landssambands smábátaeigenda var ályktað og fjallað um þetta. Þar lýsti m.a. hæstv. sjútvrh. því yfir, ef ég man rétt, líkt og hann gerði á fundi Landssambands íslenskra útvegsmanna að þetta sóknardagakerfi væri eitt af þeim málum sem þyrfti að leysa. Í bréfi sem Landssamband smábátaeigenda hefur ritað sjútvn. sem umsögn um það mál sem hér hefur lítillega borið á góma, sóknardagakerfið, sem var flutt fyrir áramót er því lýst hvernig þetta hefur gengið fyrir sig. Samkvæmt því hefur kannski ekki gengið allt of vel en þar er verið að fjalla um þessi atriði, þ.e. að setja gólf, setja dagana fasta, rætt um að fækka handfærarúllum sem má nota og að takmarka vegna vélastærðar. Mér finnst t.d. mjög athyglisvert sem kemur fram í einhverri skýrslu og skoðun sem gerð var, sem ég ætla ekki að eyða tíma mínum í að lesa hér, að lögleiðing vélatakmarkanaþáttar hefði þýtt 511 tonnum minni afla á síðustu tveimur fiskveiðiárum hjá þeim 41 bát sem athugunin náði til. Er ekkert meira í raun og veru um það að segja.

Það er ljóst að sóknardaganefnd Landssambands smábátaeigenda hefur verið í viðræðum eins og segir í þessu bréfi til hæstv. sjútvrh., dagsettu 2. apríl 2004. Með leyfi forseta vil ég grípa aðeins niður í það:

,,Að lokum harmar sóknardaganefnd LS að samtímis viðræðum skulið þér ræða við þrjá einstaklinga sem gera út sóknardagabáta um breytingar á veiðikerfi því sem hér um ræðir. Samkvæmt þeirra frásögn hafið þér lýst áhuga á annars konar útfærslu en viðræður yðar við sóknardaganefnd Landssambands smábátaeigenda hafa byggst á. Þetta hefur aldrei komið fram í viðræðum sóknardaganefndar við yður.

Sóknardaganefndin hefur starfað af fullum heilindum í viðræðum við yður...`` o.s.frv. Það sem verið er að ýta á er að það þurfi að fara að draga til tíðinda. Svo segir í þessu bréfi:

,,Til þeirra tíðinda hefur svo dregið með því frumvarpi sem við erum hér að ræða um með þeim kostum og göllum sem þar eru.``

Nú geri ég ráð fyrir því, virðulegi forseti, að mjög margir þingmenn, sérstaklega þeir sem hafa setið yfir þessari umræðu, m.a. þeir sem sitja í sjútvn., hafi fengið fram sjónarmið margra þeirra smábátasjómanna sem vinna í þessu kerfi. Það virðist sem margir vilji fara þessa leið, þeir hafa fært fyrir því rök, og aðrir harðneita þeim og hafa fært fyrir því líka gild rök. Þetta er eiginlega járn í járn.

Virðulegi forseti. Eins og oft áður vil ég nálgast þetta mál og horfa á það einnig út frá byggðasjónarmiði. Hvaða áhrif hefur þessi breyting á landsbyggðarstefnu? Ég verð að segja alveg eins og er, virðulegi forseti, að ég er orðinn ákaflega þreyttur á aðgerðaleysi Alþingis gagnvart hinum dreifðu byggðum og svo er ég líka ákaflega þreyttur á þeim aðgerðum sem eru beinlínis til að draga frekar þróttinn úr viðkomandi byggðum. Ég óttast að þetta frv. geri m.a. það, ég óttast það. Kem ég að því síðar. Þegar sú gulrót er sett upp um að skipta og fá kvóta í staðinn og verðgildið sem í því liggur óttast ég að þessum bátum fækki mjög, um 100--150 báta á 1--2 árum, með þeim alvarlegu afleiðingum sem það hefur fyrir mjög marga staði á landsbyggðinni.

Ég vitnaði líka vestur á firði í hina miklu og góðu skuttogara sem þar voru á gullaldarárunum og bar saman við stöðuna í dag. Hún hefur breyst svo mikið að ýmsir smástaðir úti á landi eiga engan séns annan en að gera út smábáta. Það er meira að segja svo komið að sums staðar eru jafnvel ekki til sjómenn nema á nokkra smábáta þar sem áður voru til sjómenn í heilar skipshafnir á stórum togurum. Þessir smábátar sem slíkir hafa eflt margar byggðir og dregið úr frekari hrörnun þeirra ef svo má að orði komast. Þessi breyting sem hefur e.t.v. kallað á ekkert sérstaklega fallega orðnotkun, þar sem talað er um að hálfpartinn sé verið að bera fé á menn, er auðvitað mjög alvarlegt mál.

[23:45]

Við það að setja þetta yfir í kvóta gerist líka annað. Sú hætta er fyrir hendi að brottkast aukist. Sú hætta er ekki bara fyrir hendi, það er nánast fyrirsjáanlegt. Það er nokkuð ljóst að manni sem má draga aðeins 20 tonn að landi er ósköp hætt við brottkasti. Í bók sem mig minnir að Landssambandið hafi gefið út og gefið öllum alþingismönnum er mér ákaflega minnisstætt þegar einn lýsti kvótakerfinu á þann hátt að það væri alveg ótrúlegt hve margir fiskar dyttu af önglunum hjá honum eftir að kvótakerfið komst á. Það getur vel verið að það hafi verið þannig áður, en sumir kalla þetta brottkast.

Það sem gerist er að menn taka þessar töflur, t.d. þorskafla sóknardagabáta síðustu fimm fiskveiðiár eins og sýnt er í Morgunblaðsgrein, 11 þús. tonn fiskveiðiárið 2002/2003, og skoða. Þá kom allur afli að landi. Engu var hent. Hvað gerist þegar þetta verður komið í kvóta? Ég óttast, virðulegi forseti, að þá verði farið að sortera. Af því að mér verður tíðrætt um vini mína vestur í Bolungarvík er mér líka mjög í fersku minni þegar ég fór niður á brjót og sá tvo báta liggja þar hlið við hlið, gamla kunningja sem voru að landa, og annar báturinn var kjaftfullur með fjöldamörg kör en hinn aðeins með tvö. Þegar ég gerði grín að aðilanum sem fiskaði svona lítið fékk ég fljótlega skýringu á því þó að ég ætli ekki að hafa eftir þau orð sem hann viðhafði. Hann skildi ekki hvers konar blábjáni ég væri að fatta þetta ekki. Athygli mín var vakin á því að annars vegar var sóknardagabátur og hins vegar krókaaflamarksbátur með kvóta. Mér skilst að þeir hafi farið út á sama tíma að morgni, komið inn á sama tíma að kvöldi og verið á svipuðum miðum. Hvað gerðist? Ætli það hafi ekki dottið svo margir fiskar af önglinum hjá öðrum þeirra? Þetta er sú hætta og þetta er einn af þeim ókostum sem þarna kemur upp.

Ég hef í dag tekið nokkrar töflur sem mér hafa borist, skellt þeim inn í excel-skjöl ef þær hafa ekki komið þannig og leikið mér svolítið með þær. Ég vil taka það skýrt fram, virðulegi forseti, að þessar tölur sem ég er að nefna eru nefndar með þeim fyrirvara að það hefur kannski ekki gefist nægur tími til að afla allra upplýsinga frá meiri kunnáttumönnum um ýmsar forsendur málsins. Engu að síður liggja nokkrar tölulegar staðreyndir fyrir sem munu á næstu dögum dúkka upp í hv. sjútvn. sem ég á sæti í, þ.e. þegar við förum að fara yfir málið og kalla eftir tölum. Menn hafa verið að tala um að þetta sé mjög skipt eftir kjördæmum. Þingmenn Norðvest., vinir mínir þar, hafa verið að tala um að þetta hafi áhrif þar og aðrir tala um að þetta hafi engin áhrif í öðrum kjördæmum o.s.frv. Ég verð að segja alveg eins og er að ég nálgast þetta ekki út frá kjördæmum. Ég nálgast þetta út frá landsbyggð, frá byggðalegu tilliti og í mínum huga er landsbyggð alls staðar á landinu, sama hvort hún er í mínu kjördæmi eða öðrum kjördæmum. Mér er annt um byggðir vestur á fjörðum eða Snæfellsnesi eða í mínu kjördæmi fyrir norðan land. Skiptingin er einhvern veginn þannig að í Norðvest. eru þessir bátar 164 með 4.800 tonn. Í Norðaust. 73 bátar með 2.500, í Suðurk. 34 bátar með rétt rúm þúsund tonn, í Suðvest. 10 bátar með 218 tonn og í Reykjavíkurkjördæmunum báðum 11 bátar með 295 tonn. Samtals 8.869 tonn sem mér sýnist vera sama tala og maður skoðar í excel-töflu sem ég er með undir höndum og held að sé frá Fiskistofu. Hún sýnir þessa sömu tölu. Þar taka menn betra árið og gera þessa útreikninga sem hér er fjallað um. Þá kemur þessi niðurstaða út.

Það kemur líka út, virðulegi forseti, að alls 24 bátar verða með 50 tonn og meira og alls 158 bátar með minna en 30 tonn. Svo skiptist það aftur á annan hátt á hin tonnin þar á milli eins og t.d. 48 bátar með milli 40 og 50 tonn, 62 bátar með milli 30 og 40 tonn, 69 bátar með milli 20 og 30 tonn, 34 bátar með milli 15 og 20 tonn og 55 bátar með 15 tonn, lágmarkið.

Ef maður skoðar þetta svo, virðulegur forseti, og setur sig í spor þeirra aðila sem munu fá þessa breytingu sér maður að til eru bátar sem, að því er mér virðist og ég vil enn ítreka fyrirvara minn á að allar þessar tölur séu réttar, fiska um 150--160 tonn á betra árinu. Útreiknaður kvóti viðkomandi báta getur farið upp undir 90 tonn. Að mér skilst selja menn svona í dag fyrir einar 800 kr. kílóið og það þýðir með öðrum orðum, virðulegi forseti, að hægt er að selja þennan kvóta fyrir 70 millj. kr. Ég verð að segja alveg eins og er, lái mér hver sem vill, að ég get vel ímyndað mér að þeir aðilar sem hafa verið að basla í þessu taugakerfi séu kannski búnir að fá nóg. Þegar menn fá svona úthlutanir munu þeir kannski frekar taka sig til og selja kvótann, hætta, fara út úr greininni eins og hefur verið að gerast í stóra kerfinu. Það er auðvitað einn af ókostunum í viðbót að menn geta gert þetta að miklum fjármunum, selt sig út úr þessu. Þeir kaupa sem vilja og vantar meira og vilja leggja þetta á sig, skuldsetja sig sem því nemur. Það er engin trygging fyrir því að peningar þeirra sem fara út úr greininni haldist inni í sjávarútveginum, engin. Fræg er sagan þegar loðnuskipið var selt um árið og í staðinn voru keypt þrjú eða fjögur verslunarpláss í Kringlunni og reiknaðar herrafataverslanir. Frægar eru þær tölur. Þetta er einn af ókostunum.

Tökum dæmi um bát með 100 tonn sem fiskar fyrir 10--11 millj. Hann getur selt fyrir 70--80, getur fiskað fyrir 10--11. Ég kann ekki að reikna það út í dag hvað hann hefur út þegar búið er að borga allan kostnað en ég hygg að ekkert voðalega mikið sé eftir. Hvað væri hægt að gera við þessar 80 millj.? Segjum sem svo að þetta hafi verið ráðdeildarsemi í gamalli útgerð sem skuldi ekkert voðalega mikið --- það er til í dag sem betur fer --- það væri ekki dónalegt að leggja þessar 80 millj. inn á bók með 10% vöxtum, 8 millj., geta kannski komið því þannig fyrir að borga bara 10% fjármagnstekjuskatt, 800 þús. Hvað er eftir? 7,2 millj. Hvers vegna í ósköpunum ætti viðkomandi aðili að standa í útgerðarbasli og fá kannski í heildartekjur 11 millj. þegar hægt er að gera þetta svona? Stundum hafa menn kallað þetta skjalatöskuútgerð.

Svo getum við líka rabbað um þá blessuðu menn sem fá aðeins 15 tonnin, fara út á viðkomandi fjörð og dorga sér í soðið, gamlir sjómenn jafnvel að dunda sér við það á sumrin. Auðvitað er mjög freistandi að selja kannski bara 10 tonnin, eða 13 tonnin og eitthvað, og eiga eitthvert smotterí eftir til að dunda sér við.

Svo koma aðrir og segja: Við það að ég fái kvóta er ég ekki skyldugur til að vera í þessu klukkutímaharki, þessu taugakerfi og standa í því. Ég get farið að gera þetta eins og ég vil o.s.frv. Þetta eru þau sjónarmið sem togast á en ég verð að segja alveg eins og er, virðulegi forseti, að ég er dauðhræddur við þessa breytingu eins og margar breytingar sem eiga sér stað í sjávarútvegskerfinu vegna þess að þær koma svo misjafnlega við menn og byggðarlög og það verður að segja alveg eins og er að margar af þessum litlu byggðum sem berjast í bökkum hafa e.t.v. haldið lífi vegna smábátaútgerðar. Ég trúi ekki öðru en að einhvern tíma renni upp sá dagur á Íslandi, virðulegi forseti, að okkur fari að takast að skapa meiri sátt um þetta þannig að hér verði ekki standandi deilur, menn blóðugir upp fyrir axlir að rífast um sjávarútvegskerfi o.s.frv., þennan undirstöðuatvinnuveg eins og ég var að tala um í byrjun.

Ég óttast að þetta frv. sé innlegg í þennan ófrið. Ég óttast að þetta frv. sé innlegg inn í það að draga enn frekar úr ýmsum smábyggðum landsins. Þá finnst mér betra að láta þetta eiga sig eins og það er, taka meiri tíma og bíða. Ég heyrði áðan að e.t.v. tekst okkur ekki að klára þetta mál. Það fer eftir því hvað stjórnarmeirihlutinn er traustur í því og hvað þeir þingmenn stjórnarflokkanna sem enn hugsa um hinar dreifðu byggðir, taka tillit til þeirra og horfa m.a. á hagsmuni þeirra, hugsa í þessum efnum. Þó að ég hafi hlustað á sjónarmið þessara andstæðu afla eru líka vankantar á þessu sem ég gerði grein fyrir í stuttu andsvari við hæstv. sjútvrh. í morgun. Ég mun taka það frekar upp í sjútvn. þegar það mál kemur þangað. Það sem snýr að vélarstækkun og bátum sem kannski er bara verið að sjósetja einhvern næstu daga er auðvitað dálítið alvarlegt mál þegar aðilar fara út í að kaupa --- sumir segja að menn séu glannar að fjárfesta í þessu kerfi og kaupa sér nýja báta vegna þess að það hafi verið fyrirsjáanlegt að einhverjar breytingar yrðu gerðar. Það getur vel verið að það séu skilaboð til ungra manna vítt og breitt um landið sem vilja halda áfram að berjast fyrir byggð sinni, hafa lífsviðurværi sitt heima hjá sér og fá að búa þar áfram, ekki gefast upp og flytja hingað suður og kannski bara fá sér vinnu hjá ríkinu, gerast ríkisstarfsmaður eins og mest er í tísku. Með fullri virðingu fyrir ríkisstarfsmönnum er samt ýmislegt sem gerir það að verkum að ég óttast að það sem ég hef verið að lýsa sem varnaðarorðum mínum og hræðslu muni ganga eftir við þessa breytingu sem hér er boðuð. Þá er ég stórlega efins um að þessi breyting sé til góðs.