Framhald umræðu um fjölmiðlafrumvarp

Þriðjudaginn 18. maí 2004, kl. 10:01:27 (8508)

2004-05-18 10:01:27# 130. lþ. 119.91 fundur 575#B framhald umræðu um fjölmiðlafrumvarp# (aths. um störf þingsins), KLM
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 130. lþ.

[10:01]

Kristján L. Möller:

Herra forseti. Ég kem upp að gefnu tilefni til að ræða um störf þingsins. Mikil dagskrá liggur fyrir í dag og hefur verið prentuð. Þar eru um 61 mál þar sem fyrstu fimm málin munu send til nefndar. Eitt málið klárast reyndar. Sjötta mál á dagskrá er um útvarpslög og samkeppnislög.

Í gær í kvöldmatarhléi var boðaður fundur í allshn. Reyndar fékk allshn. hálftíma aukreitis af þingtíma til að vinna mál. Í gær fréttum við líka af því og sáum í fjölmiðlum að hæstv. forsrh. hafði tekið sér ferð til Bessastaða, í fyrsta sinn síðan á heimastjórnarafmælinu. Þar var fundur þeirra haldinn og við fengum lýsingu á því hvernig hæstv. forseti og hæstv. forsrh. byrjuðu að spila badminton og þekktust frá 18 ára aldri. Þetta var allt mjög efnismikið og gott að vita og fróðlegt.

Þar voru einnig boðaðar brtt. við hið mikla fjölmiðlafrumvarp, þ.e. skýrt var frá því að formenn stjórnarflokkanna hefðu í fjórða skipti náð sátt um þetta mál. Sú sátt leiddi þó ekki til þess að þessar boðuðu brtt. kæmu til umræðu í allshn. í gær.

Því vil ég, virðulegi forseti, í framhaldi af þessu formannalýðræði sem okkur er að birtast og kemur í formi tilkynninga eða tilskipana til þingflokka stjórnarsinna, spyrjast fyrir um hvenær vænta megi þess að þessar brtt. komi fyrir allshn. og hvenær þingheimur má vænta þess að þetta umdeilda mál, útvarps- og samkeppnislög, sem hér er 6. mál á dagskrá, fyrsti dagskrárliður eftir atkvæðagreiðslu, komist á dagskrá.

Ég spyr, virðulegi forseti: Hvenær hyggst hæstv. forseti taka þetta mál á dagskrá þingsins? Hvenær mega þingmenn vænta þess að samkomulag formanna stjórnarflokkanna verði birt? Eða þurfum við að biða lengur eftir því að enn eitt samkomulagið, það fimmta, líti dagsins ljós?