Framhald umræðu um fjölmiðlafrumvarp

Þriðjudaginn 18. maí 2004, kl. 10:07:30 (8511)

2004-05-18 10:07:30# 130. lþ. 119.91 fundur 575#B framhald umræðu um fjölmiðlafrumvarp# (aths. um störf þingsins), GAK
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 130. lþ.

[10:07]

Guðjón A. Kristjánsson:

Hæstv. forseti. Óvissan um störfin á hv. Alþingi er mjög óþægileg, vægast sagt. Ég sat í gær fund í allshn. þingsins. Þar var spurt um þetta mál og þá sátt sem menn lýstu yfir, forustumenn flokkanna, og hvort málið kæmi ekki örugglega í allshn. áður en það kæmi til umræðu. Ég held að ég muni það rétt að formaður nefndarinnar hafi sagt eitthvað á þá leið að það væri mjög æskilegt og hann tæki undir þau sjónarmið að æskilegt væri að málið kæmi aftur inn í allshn. áður en það yrði tekið á dagskrá.

Ég hlýt að spyrja hæstv. forseta hvort það eigi að fara að ræða málið án þess að brtt. hafi litið dagsins ljós og án þess að þær hafi verið ræddar í allshn. Mér finnst þetta vinnulag vægast sagt orðið undarlegt, hæstv. forseti.

Þó að forustumenn ríkisstjórnarflokkanna gleðjist í þriðja eða fjórða sinn yfir hinum merku áföngum um sáttargjörð sína þá nær það ekki til okkar þingmanna.