Framhald umræðu um fjölmiðlafrumvarp

Þriðjudaginn 18. maí 2004, kl. 10:08:52 (8512)

2004-05-18 10:08:52# 130. lþ. 119.91 fundur 575#B framhald umræðu um fjölmiðlafrumvarp# (aths. um störf þingsins), ISG
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 130. lþ.

[10:08]

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir:

Virðulegur forseti. Ég held að við hljótum að kalla eftir því að þær tillögur sem nú hafa verið smíðaðar uppi í forsrn. komi til umfjöllunar hjá allshn. og verði kynntar. Ég held að það sé rétt að hæstv. forsrh. komi á fund nefndarinnar og kynni tillögurnar þar. Ég vil minna á það í þessu sambandi að hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir óskaði eftir því á fundi allshn. að forsrh. yrði kallaður fyrir nefndina og upplýsti um þær brtt. sem þá lágu fyrir hjá nefndinni vegna þess að þær væru greinilega undan hans rótum runnar. Þá var sagt við okkur í nefndinni að þannig ætti alls ekki að vera vegna þess að málið væri hjá allshn.

Málið er ekki hjá allshn. og hefur ekki verið hjá allshn. Málið hefur verið uppi í forsrn. og þar hafa allar tillögur verið unnar. Nú eru að koma nýjar efnislegar tillögur úr forsrn. og sagt við fjölmiðla að fulltrúar í allshn. séu að vinna að þessum tillögum. Fulltrúarnir í allshn. koma svo af fjöllum þegar þeir eru spurðir um tillögurnar, kannast ekkert við þær og segjast ætla að skoða tillögurnar áður en þeir gefi upp afstöðu sína. Hvernig getur fólk sem á að vera að vinna að tillögum sagt að það þurfi að skoða tillögurnar áður en það gefur upp afstöðu sína. Það er vegna þess að það er ekkert að vinna að tillögunum. Það eru aðrir sem hafa unnið þessar tillögur og það á eina ferðina enn að troða þeim í gegnum Alþingi með góðu eða illu, virðulegur forseti.

Þessar tillögur eru samdar í forsrn. eins og annað í þessu máli og þess vegna hlýtur maður að spyrja: Hvenær ætlar hæstv. forsrh. að sýna allshn. tillögur sínar?