Framhald umræðu um fjölmiðlafrumvarp

Þriðjudaginn 18. maí 2004, kl. 10:15:00 (8515)

2004-05-18 10:15:00# 130. lþ. 119.91 fundur 575#B framhald umræðu um fjölmiðlafrumvarp# (aths. um störf þingsins), ISG
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 130. lþ.

[10:15]

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir:

Virðulegur forseti. Það eru boðaðir tveir fundir í allshn. í dag, annar í hádeginu og hinn í kvöld. Við hljótum að gera ráð fyrir því að hæstv. forsrh. kynni okkur tillögur sínar á fundinum í hádeginu í dag. Það hlýtur auðvitað að standa að tillögurnar eru ekki unnar af allshn., jafnvel þó að hæstv. forsrh. hafi komið að því að semja þessar tillögur í þinghúsinu. Ég skal ekkert um það segja hvar menn hafa valið sér stað til að funda og fara yfir þessi mál. Það liggur fyrir að tillögurnar eru ekki unnar af fulltrúum í allshn. vegna þess að það hefur komið skýrt fram í máli hv. þm. Jónínu Bjartmarz, sem situr í allshn., að hún hafi ekki farið nógu vel yfir þessar tillögur og muni taka afstöðu til þeirra þegar það liggur fyrir.

Þingmaðurinn hefur að sjálfsögðu ekki samið tillögur sem hún talar með þeim hætti um heldur einhver allt annar aðili. Eins og ég segi er ástæða til að þeir sem tillögurnar sömdu kynni þær fyrir allshn. Ég geri ráð fyrir því að það gerist í dag.

Ég vil hins vegar minna á að það hefur margsinnis verið sagt að engin ástæða sé til að gera breytingar á því frv. sem kom inn í upphafi, þeirri hrákasmíð. Nú er verið að gera þriðju breytinguna, þriðju atlöguna að því að breyta og lappa upp á þessa hrákasmíð sem hæstv. forsrh. sagði í Viðskiptablaðinu þann 4. maí, ef ég man rétt, að engin ástæða væri til að breyta. Það væru engin efnisleg rök til að breyta þessu frv. og hann ætti ekki von á því að gerðar yrðu á því neinar breytingar. Þetta er það sem sagt var. Nú er búið að gera breytingar í þrígang. Ég segi bara: Fullreynt í fjórða sinn.