Almannatryggingar

Þriðjudaginn 18. maí 2004, kl. 10:41:19 (8525)

2004-05-18 10:41:19# 130. lþ. 119.9 fundur 966. mál: #A almannatryggingar# (meðlög, EES-reglur) frv. 78/2004, ÁÓÁ
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 130. lþ.

[10:41]

Ágúst Ólafur Ágústsson:

Herra forseti. Hér er m.a. verið að bregðast við ákveðnu ástandi sem skapaðist með samþykkt nýrra barnalaga vorið 2003, en samkvæmt eldri barnalögum var gert ráð fyrir að meðlag væri greitt rétthafa sem ætti framfærslurétt hér á landi. Það hafði um langt árabil verið túlkað þannig að viðkomandi ætti rétt til greiðslu ef hann væri búsettur hér á landi, en að auki íslenskir ríkisborgarar búsettir erlendis ef meðlagsgreiðandinn væri búsettur hér á landi. Fyrir gildistöku nýju barnalaganna 1. nóvember 2003 greiddi Tryggingastofnun ríkisins meðlög úr landi til Íslendinga sem búsettir voru erlendis án skilyrða, þar á meðal út fyrir EES-svæðið.

Í þessu frv. er gert ráð fyrir að það sé meginregla að sá sem á rétt á meðlagsgreiðslu frá Tryggingastofnun ríkisins verði að vera búsettur hér á landi, en þó hins vegar að reglur EES-samningsins eigi hér við og verður þar af leiðandi tryggt að milliganga Tryggingastofnunar eigi við gagnvart þeim Íslendingum og börnum þeirra sem eru búsettir á EES-svæðinu. Eftir standa hins vegar börn Íslendinga sem búa í löndum utan EES-svæðisins, þar á meðal Bandaríkjunum. Í þessu frv. er brugðist við því með að setja heimild til reglugerðar í 6. mgr. Þar stendur með leyfi forseta:

,,Heimilt er að setja reglugerð um framkvæmd þessarar greinar þar sem m.a. er kveðið á um fyrirframgreiðslu meðlags þegar foreldri eða börn eru búsett erlendis og um hámarksgreiðslur sem Tryggingastofnun ríkisins innir af hendi.``

Mikilvægt er að bregðast við því ástandi sem skapaðist með nýju barnalögunum vorið 2003 eins og þetta frv. gerir ráð fyrir og ég hvet hæstv. heilbrrh. til að nýta þá reglugerðarheimild sem hann fær samkvæmt þessu frv. til að koma til móts við börn þeirra Íslendinga sem búa fyrir utan EES-svæðið. Þar á meðal má nefna námsmenn í Bandaríkjunum sem eiga börn þar.

Athugasemd mín lýtur að því að þessi reglugerðarheimild sé nýtt og heilbrrh. komi til móts við Íslendinga sem eru búsettir fyrir utan EES-svæðið.