Almannatryggingar

Þriðjudaginn 18. maí 2004, kl. 10:47:01 (8527)

2004-05-18 10:47:01# 130. lþ. 119.9 fundur 966. mál: #A almannatryggingar# (meðlög, EES-reglur) frv. 78/2004, PHB
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 130. lþ.

[10:47]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að vekja athygli á því að það er hv. heilbr.- og trn. sem flytur frv., þannig að þetta er dæmi um frv. sem samið er af Alþingi. Þó að forminu til sé það samið í ráðuneytinu að einhverju leyti, þá er það nefndin sem flytur það og það er skemmtileg nýbreytni sem ég styð heils hugar.

Það sem við ræðum hér, herra forseti, er mjög flókið mál. Hvað eru meðlög, hvers lags fyrirbæri er það? Það er greiðsla annars foreldris sem ekki hefur forsjá barns til hins sem sér um uppeldi þess. Yfirleitt er karlmaðurinn meðlagsgreiðandinn, ekki alltaf. Þetta gerist oft án milligöngu ríkisins, menn greiða með börnum sínum og það kemur engum við. Í mörgum löndum hefur hins vegar verið tekin upp ákveðin ríkisábyrgð á meðlögum, þ.e. ríkið greiðir meðlagið fyrir meðlagsgreiðandann og innheimtir það síðan hjá honum. Þetta er svipað og þegar ríkið ábyrgist greiðslur af láni, þ.e. ríkisábyrgð af láni. Þá fær kröfuhafinn greiðsluna örugglega og síðan innheimtir ríkið hjá þeim sem skuldar. Ríkisábyrgð af láni er alltaf talin vera veitt lántakandanum en ekki kröfuhafanum. Þess vegna er milliganga Tryggingastofnunar við greiðslu meðlags ábyrgð ríkisins til meðlagsgreiðanda, sem sagt styrkur til meðlagsgreiðanda, yfirleitt feðra. Það er það sem gerir málið svona erfitt að þetta eru ekki bætur vegna þess að ríkið borgar þetta ekki eða á ekki að gera það undir öllum venjulegum kringumstæðum. Það greiðir meðlagið eingöngu þegar greiðslufall verður hjá meðlagsgreiðanda, sem vill stundum brenna við. Menn hafa verið uppteknir af því að flokka meðlagið ekki undir bætur, vegna þess að bætur hafa allt annan eiginleika í alþjóðlegu samstarfi og við samspil margra velferðarkerfa.

Herra forseti. Ég ætla einmitt að koma inn á hvernig þetta spilar allt saman. Við erum í samstarfi við Norðurlönd, síðan erum við með samstarf innan EES og svo erum við ýmist með samninga eða ekki samninga við öll lönd utan EES. Allir þessir samningar og mismunandi reglur í hverju einasta landi gera málið óskaplega flókið. Ég verð að segja eins og er, herra forseti, að ég átta mig engan veginn út í hörgul á hvernig þetta mál muni koma út. Það eru þrír aðilar sem koma að meðlagi. Það er í fyrsta lagi barnið, í öðru lagi foreldrið sem sér um uppeldi barnsins og svo hitt foreldrið sem á að greiða meðlag, þ.e. á að taka þátt í uppeldinu. Þessir þrír aðilar geta búið hver í sínu landi. Það er hugsanlegt að barnið búi hjá afa og ömmu í Svíþjóð, faðirinn sé að vinna við Kárahnjúkavirkjun og að móðirin sé á Spáni eða í Bandaríkjunum, til að flækja málið enn frekar. Á þessu þarf að taka og menn þurfa að átta sig á hvað getur gerst. Mér finnst það ekki vera alveg kristaltært.

Bent hefur verið á vandræði sem hafa komið upp og hv. þm. benti áðan á að námsmenn í Bandaríkjunum fengju ekki meðlagsgreiðslur eða ríkisábyrgð á meðlagsgreiðslum hér á landi. Þá fór hann væntanlega eftir þjóðerni, hv. þm. sagði Íslendingar. Nú er það þannig að við megum ekki mismuna fólki eftir því hvort það eru Íslendingar eða útlendingar. Með sömu hugsun ættum við að aðstoða alla námsmenn í Bandaríkjunum. En þá erum við komin langt út fyrir sviðið. Ég held að menn þurfi hreinlega að horfast í augu við það að þegar menn velja sér land til að búa í og lifa í og starfa í eða stunda nám í, þá velja þeir sér um leið velferðarkerfið í viðkomandi landi. Það er mjög hættulegt ef við förum að opna íslenskt velferðarkerfi þannig að það gildi fyrir önnur lönd. Ég vara við því vegna þess að getur boðið heim misnotkun. Það getur líka boðið heim hættu á því að bætur sem þykja ekkert voðalega háar hér séu kannski mjög háar í öðru landi. Ég hef t.d. áður bent á stöðu Pólverja sem vinna hér gagnvart örorkulífeyri almannatrygginga sem greiddur er af íslenskum skattpeningum. Þeir gætu hugsanlega tekið hann í Póllandi og væru þá með miklu betri lífskjör en sambærilegir örorkulífeyrisþegar á Íslandi.

Menn þurfa að vera mjög varkárir í þessu öllu og þess vegna þykir mér ekki gott að skilja ekki út í hörgul hvernig frv. virkar með hliðsjón af öllum þeim samningum sem við höfum tekið þátt í, Norðurlandasamningum, EES-samningum og svo lönd þar fyrir utan varðandi þessi mál.

Engu að síður sé ég nauðsyn á því að reyna að koma fram einhverri lausn, þannig að ég stend að þessu frv. engu að síður, en það væri æskilegra að menn reyndu að kortleggja betur hvernig svona velferðarkerfi virkar.