Almannatryggingar

Þriðjudaginn 18. maí 2004, kl. 10:53:49 (8528)

2004-05-18 10:53:49# 130. lþ. 119.9 fundur 966. mál: #A almannatryggingar# (meðlög, EES-reglur) frv. 78/2004, Frsm. JBjart
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 130. lþ.

[10:53]

Frsm. heilbr.- og trn. (Jónína Bjartmarz):

Herra forseti. Eins og kom fram í máli hv. þm. Péturs H. Blöndals, er ljóst að nefndin stendur öll að frv. og þetta eru mjög flóknar reglur. Mig langar í því tilliti að árétta að ekki er gert ráð fyrir að frv. feli í sér kostnaðarauka fyrir ríkissjóð og nefndin leitaði sérstaklega eftir þeim upplýsingum. En varnaðarorð hv. þm. eru góð og gild inn í þessa umræðu og þessar milligöngureglur eru nokkuð flóknar. Mergurinn málsins er kannski sá að upphafið er rakið til barnalaganna og breytinganna sem urðu. Áður var meðlag greitt þeim sem áttu framfærslurétt hér á landi, en nú er það búsetan sem ræður. Eins og ég gat um í framsögu minni er ekki hægt að breyta barnalögunum aftur af því það gengu dómar hjá Evrópudómstólnum þar sem meðlagsgreiðslur voru skilgreindar í dómunum sem hluti af almannatryggingagreiðslu. Við erum ekki tilbúin að fara þá leið vegna ófyrirséðra afleiðinga sem það getur haft. Þess vegna gerir frv. ráð fyrir að það sé ákveðin heimild til að fara eftir EES-samningnum um þetta og rétt einstaklinganna innan EES-svæðisins án þess að við séum að skuldbinda okkur til að skilgreina milligöngu meðlags á sama hátt og dómstóllinn hefur gert.

Þetta er varfærið og að mati heilbr.- og trn. rétt leið sem farin er. Eins og ég gat um í upphafi höfðu menn áhyggjur af Íslendingum, aðallega námsmönnum, sem eru búsettir erlendis. Ákveðið var að taka þannig á því að með breytingunum væri ráðherra veitt heimild til að setja í reglugerð nánari reglur um framkvæmd þessarar greinar. Þar er m.a. kveðið á um fyrirframgreiðslu meðlags þegar börn eru búsett erlendis og um hámarksgreiðslu sem Tryggingastofnun ríkisins greiðir. Þetta ákvæði á vissulega við þá sem eru utan EES-svæðisins.