Lokafjárlög 2000

Þriðjudaginn 18. maí 2004, kl. 11:26:50 (8538)

2004-05-18 11:26:50# 130. lþ. 119.12 fundur 326. mál: #A lokafjárlög 2000# frv. 100/2004, Frsm. meiri hluta MS
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 130. lþ.

[11:26]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Magnús Stefánsson):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér lokafjárlög fyrir árið 2000. Áður en ég geri grein fyrir nál. meiri hlutans vil ég hafa örfá aðfaraorð að málinu.

Ríkisreikningar allra ára til og með ársins 2002 hafa verið lagðir fyrir Alþingi en frv. til lokafjárlaga hafa ekki fylgt ríkisreikningum áranna 2000, 2001 og 2002 eins og lög um fjárreiður ríkisins kveða á um að skuli gera.

Í umræðum um frv. til lokafjárlaga 2000, 2001 og 2002, sem hafa verið til umfjöllunar hér á Alþingi og í hv. fjárln. undanfarið, hafa komið fram skýringar á þessu og hefur verið gerð grein fyrir því hvernig standi á því að svona sé komið. Málið hefur verið yfirfarið og skýringar á því hafa komið fram.

Ég vil, hæstv. forseti, gera grein fyrir því að fyrr í vetur var lagt fyrir Alþingi frv. til lokafjárlaga fyrir árið 2002, en í umfjöllun um frv. í fjárln. eftir samráð við Ríkisendurskoðun og aðra aðila, var tekin sú ákvörðun að láta það ekki ganga lengra., Frv. verður því ekki afgreitt frá fjárln. á þessu þingi, heldur er gert ráð fyrir að nýtt frv. verði lagt fram á haustdögum og tekið til umfjöllunar og afgreiðslu þá.

Eins og venja er til er gert ráð fyrir að ríkisreikningur fyrir árið 2003 verði lagður fram á næsta hausti. Fram hefur komið að gert er ráð fyrir að leggja samhliða fram frv. til lokafjárlaga fyrir árið 2003. Þar með verður búið að koma þessum málum í rétt horf samkvæmt ákvæðum laga um fjárreiður ríkisins. Ég vænti þess að það gangi eftir eins og um hefur verið rætt. Ég vildi gera grein fyrir þessu í upphafi umræðunnar.

Hér liggur fyrir nál. frá meiri hluta fjárln. um frv. til lokafjárlaga fyrir árið 2000. Í umfjöllun nefndarinnar var leitað álits frá fjmrn. og Ríkisendurskoðun. Meiri hluti nefndarinnar gerir eina brtt. við frv. um brottfall liðarins 1.22, þ.e. Aðstoð Íslands við endurreisnarstarf í Bosníu-Hersegóvínu og liggur sú brtt. fyrir í sérstöku þingskjali.

Að þessu nál. standa hv. þingmenn Arnbjörg Sveinsdóttir, Birkir Jón Jónsson, Bjarni Benediktsson, Drífa Hjartardóttir og Magnús Stefánsson.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta álit. Málið hefur fengið ítarlega umfjöllun á Alþingi og í fjárln. og læt ég því staðar numið að sinni.