Lokafjárlög 2000

Þriðjudaginn 18. maí 2004, kl. 11:39:54 (8540)

2004-05-18 11:39:54# 130. lþ. 119.12 fundur 326. mál: #A lokafjárlög 2000# frv. 100/2004, Frsm. meiri hluta MS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 130. lþ.

[11:39]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Magnús Stefánsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek undir margt sem fram kom í máli hv. þingmanns, þ.e. varðandi gang mála á afgreiðslu lokafjárlaga. Þetta hefur allt komið fram í umræðunni og í sjálfu sér ætla ég ekki að bæta neinu við það. Ég tek undir þá gagnrýni sem fram hefur komið og hún hefur komið fram áður.

Það kom fram í máli hv. þingmanns að hann telur að ekki sé hægt að lögfesta frv. vegna þess að það stemmi ekki við ríkisreikning. Út af fyrir sig er það rétt. Hins vegar leggur meiri hluti fjárln. til, í samráði við þann sérfræðing sem við styðjumst gjarnan við í þessari vinnu, þ.e. Ríkisendurskoðun, að þetta frv. verði samþykkt eins og það liggur fyrir þannig að ríkisreikningur er staðfestur. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu að staðfesta reikninginn með þeim talnalegu ákvæðum sem koma fram í lokafjárlögum, það hljóta að vera þau sem gilda og væntanlega þarf að leiðrétta ríkisreikninginn út frá þeim. Síðan bendi ég á, eins og hv. þm. veit, að það hefur átt sér stað og á sér stað mikil vinna í fjmrn. og væntanlega að einhverju leyti líka í Ríkisendurskoðun við að samræma þessa hluti. Við horfum til þess að það muni ganga eftir í haust, svo að okkur takist að vinna þessi mál. Þannig á að koma þeim í þann farveg sem þau eiga að vera í.

Ég vildi árétta þetta og ég vildi gjarnan heyra álit hv. þingmanns á því hvort hann getur verið sammála mér um að það sé ekkert því til fyrirstöðu í sjálfu sér að afgreiða frv. og staðfesta ríkisreikning en það eru lokafjárlögin sem gilda um talnalegu þætti málsins.