Lokafjárlög 2000

Þriðjudaginn 18. maí 2004, kl. 11:46:27 (8544)

2004-05-18 11:46:27# 130. lþ. 119.12 fundur 326. mál: #A lokafjárlög 2000# frv. 100/2004, Frsm. 2. minni hluta JBjarn
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 130. lþ.

[11:46]

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason):

Frú forseti. Hér er til 2. umr. frv. til lokafjárlaga fyrir árið 2000. Ég skipa 2. minni hluta hv. fjárln. fyrir hönd Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs. Í þessu nál. mínu stendur, með leyfi forseta:

Lög um fjárreiður ríkisins, nr. 88/1997, tóku gildi árið 1997. Samkvæmt gildistökuákvæði laganna skyldu þau koma til framkvæmda við gerð frumvarps til fjárlaga fyrir árið 1998 og uppgjör ríkisreiknings það ár. Frumvarp til lokafjárlaga sem hér liggur fyrir er því það þriðja í röðinni frá gildistöku laganna.

Í 45. gr. laganna segir: ,,Með ríkisreikningi sem lagður er fram á Alþingi, sbr. 7. gr., skal fylgja frumvarp til lokafjárlaga honum til staðfestingar. Þar skal leitað heimilda til uppgjörs á skuldum eða ónotuðum fjárveitingum sem ekki eru fluttar milli ára. Jafnframt skal leggja fram sérstaka skrá ásamt skýringum yfir geymdar fjárheimildir og um þá aðila sem hafa farið fram úr fjárheimildum ársins. Heimilt er að greiða slíka umframgreiðslu af fjárveitingum næsta árs. Einnig skal gerð grein fyrir ónýttum lántökuheimildum liðins árs.``

Það frumvarp sem hér liggur fyrir uppfyllir ekki að öllu leyti framangreind ákvæði. Þannig er kveðið á um að með ríkisreikningi skuli fylgja frumvarp til lokafjárlaga. Hér er því hins vegar þannig háttað að lokafjárlögin eru lögð fram nokkrum árum á eftir. Enn fremur er kveðið á um að leggja skuli fram sérstaka skrá ásamt skýringum yfir geymdar fjárheimildir og um þá aðila sem hafa farið fram úr fjárheimildum. Slíkar skýringar er ekki að finna í frumvarpinu.

Fyrsta grein frumvarpsins fjallar um breytingar á fjárheimildum árið 2000 vegna frávika ríkistekna frá áætlun fjárlaga og önnur grein fjallar um afgangsheimildir og umframgjöld í árslok 2000 sem falla niður.

Þegar frv. til lokafjárlaga er loks lagt fram hafa nokkur fjárlög og fjáraukalög verið samþykkt frá Alþingi. Það skiptir því litlu máli að staðfesta orðinn hlut. Mikilvægt er að koma þessum málum í lag þannig að frumvarp til lokafjárlaga verði lagt fram með ríkisreikningi. Lög kveða á um að svo skuli gert og er það ámælisvert að slíkt skuli ekki enn vera gert um sex árum eftir að fjárreiðulögin voru samþykkt.

Frú forseti. Eins og hv. alþingismönnum er kunnugt er fjárlagaferlið þannig að fyrst leggur ríkisstjórnin fram frv. til fjárlaga fyrir næsta ár í upphafi þings að hausti. Það fer svo til meðferðar í fjárln. og er afgreitt sem lög frá Alþingi skömmu fyrir jól við venjulegar kringumstæður. Jafnframt eru þá tekin fyrir fjáraukalög fyrir yfirstandandi ár og fjáraukalög eiga þá að taka á nauðsynlegum óhjákvæmilegum breytingum sem verður að gera á gildandi fjárlögum. Skýrt er kveðið á um það í lögum um fjárreiður ríkisins að ekki megi stofna til útgjalda af hálfu stofnana eða ráðuneyta án þess að fyrir því liggi samþykki Alþingis. Þó með þeirri undantekningu að séu afar brýn og ófyrirsjáanleg atvik sem koma upp þá sé heimilt að víkja frá þeirri algildu reglu, enda sé þá fjárln. þegar í stað gert viðvart. Allar slíkar breytingar á síðan að bera upp á Alþingi eins fljótt og nokkur kostur er.

Því miður er reyndin sú að ríkisstjórnin og einstök ráðuneyti hafa tekið sér býsna frjálst vald til að ákveða fjárveitingar á milli fjárlaga, á eigin spýtur, án þess að bera það undir þingið eða hafa samráð við fjárln. Svo er einnig í því sem við erum hér að fjalla um. Hérna eru lokafjárlög fyrir árið 2000 að koma til samþykktar, en á þeim hefur orðið breyting upp á 26--27 milljarða kr. Þá erum við bæði búin að fara í gegnum fjárlögin og samþykkja fjáraukalög og nú við lokafjárlög sem koma þremur eða fjórum árum eftir að stofnað hefur verið til þessara útgjalda, er verið að afgreiða hér á Alþingi milli 26 og 30 milljarða kr. Það gefur augaleið að þessi fjársýsla er afar óeðlileg, fyrir utan að hún stenst ekki heldur lög. Það er svigrúm til að taka á nauðsynlegum breytingum fjárlaga innan fjárlagaársins og með fjáraukalögum eins og lög gera ráð fyrir.

Þær breytingar sem hér er verið að leggja fram á fjárlögum á fjárheimildum einstakra stofnana og ráðuneyta hafa langflestar verið fyrirséðar eða legið fyrir þegar gengið var frá fjáraukalögum fyrir það ár. Þannig að þetta vinnulag sem hér er að koma með svona afgreiðslu mörgum árum seinna á sér enga lagalega eða verklega afsökun. Hins vegar má ætla að ráðuneytinu og stjórnarmeirihlutanum þyki það þægilegra að geta verið með hlaupandi tölur á einstaka tekna- og gjaldaliðum við afgreiðslu fjárlaga til þess að geta stemmt af tölur og látið þær líta betur út þegar fjárlög eða fjáraukalög eru afgreidd. Það hygg ég að megi láta renna í grun hér við afgreiðslu þessara lokafjárlaga hér.

Ef við lítum á hvar stærstu frávikin eru þá eru þau í lífeyrissjóðsgjöldum sem fjmrn. er ábyrgt fyrir reikningshaldi á. Hérna eru lífeyrissjóðsgjöld starfsmanna ríkisins upp á tæpa 17 milljarða kr. Þessi upphæð er ekkert uppáfallandi. Hún er ekkert að koma allt í einu. Það er engin sérstök ástæða til þess að vera að færa hana inn á lokafjárlög mörgum árum eftir að í raunverulegur gjörningur hefur átt sér stað. Hann átti sér stað árið 2000. Það var því ekkert til fyrirstöðu að láta þessi gjöld koma fram í fjárlögum fyrir árið 2000. Það hefði að vísu breytt niðurstöðutölu fjárlaga ríkisstjórnarinnar, þannig að þau hefði ekki verið með sama tekjuafgangi eða jafnlitlum halla og menn vildu vera láta. Þarna er hreinlega verið að beita bókhaldsbrellum í afgreiðslu á fjárlögum bæði yfirstandandi árs og hér í meðferð lokafjárlaga eins og þau eru unnin svona mörgum árum seinna.

Sama gildir líka um annan stóran lið sem hefur veruleg áhrif á niðurstöðutölu fjárlaga; það eru skatttekjur. Hér eru afskrifaðar skatttekjur upp á meira en 7 milljarða kr. Af áætluðum skatttekjum sem hafa verið reiknaðar til tekna í frv. til fjárlaga fyrir árið 2000, eru meira en 7 milljarðar kr. sem hafa verið ofáætlaðar tekjur. Frv. til fjárlaga lítur náttúrlega miklu betur út þegar hæstv. fjmrh. er að guma af fallegu fjárlagafrv. með miklum rekstrarafgangi. Þá lítur það miklu fallegar út að beita slíkum bókhaldsbrellum að áætla skatttekjur ríkissjóðs meira en 7 milljörðum kr. hærri en þau síðan reynast. Það kemur síðan ekki fram fyrr en þremur eða fjórum árum seinna að hérna var bara um áætlun að ræða, óskhyggju eða brellur til þess að láta niðurstöðutölur fjárlaga líta betur út. Frú forseti. Við erum hér með tölur bara á þessum lið einum, Lífeyrissjóðsgreiðslur til starfsmanna, sem eru góðar og gildar og lágu fyrir árið 2000 sem er upp á eina 16--17 milljarða og síðan afskrifaðar skattkröfur upp á rúma sjö milljarða. Þarna erum við bara með 24--25 milljarða kr. sem lá fyrir að voru notaðir með einum eða öðrum hætti til að láta fjárlagafrumvarpið og afgreidd fjárlög líta betur út. (Gripið fram í: Eins konar fegrunaraðgerðir?) Já. En það er nú svona með þessar fegrunaraðgerðir, þó smurt sé yfir lýtin þá koma þau fram. Núna, þremur eða fjórum árum seinna, koma allar hrukkurnar og brotna nefið á fjármálaráðherra í fjárlagagerðinni. Þetta er því miður staðreynd.

Einnig gagnrýni ég að hér er verið að gera millifærslur bæði innan stofnana og milli stofnana innan ráðuneytis, millifærslur í formi afskrifta á umframgjöldum, án þess að það hafi í sjálfu sér verið borið undir fjárln. fyrr en fjórum árum seinna. Þannig að framkvæmdarvaldið er hér að grípa inn í fjárlagavinnuna með óeðlilegum hætti í mörgum tilvikum. Þessi vinna, frú forseti, er alls ekki á þeim vegi sem ætti að vera. Upplýsingarnar sem hér er verið að leggja fram í lokafjárlögum lágu langflestar fyrir við afgreiðslu fjárlaga og ég tala nú ekki um fjáraukalaga fyrir það ár og hefðu átt að koma fram þar með eðlilegum hætti en ekki að vera að forðast þá umræðu og fresta henni um fjögur ár.

Ríkisendurskoðun hefur líka gert allnokkrar athugasemdir einmitt við þessi vinnubrögð og hv. þm. Einar Már Sigurðarson gerði grein fyrir athugasemdum sem Ríkisendurskoðun hefur gert við þetta vinnulag í ræðu sinni. Ég vil, með leyfi forseta, vitna aðeins í þessa skýrslu Ríkisendurskoðunar um samanburð útgjalda fyrir fjárheimildir fyrir árið 2000, en þar segir, með leyfi forseta:

,,Þegar útgjöld stofnana ríkisins á árinu 2000 eru borin saman við fjárheimildir þeirra, kemur í mörgum tilvikum í ljós allmikill munur. Eins og undanfarin ár virtu margar stofnanir ekki fjárheimildir sínar á árinu. Í þessu sambandi vekur athygli að svo virðist sem ekki hafi tekist að leysa vanda fjölmargra stofnana sem hafa ítrekað komist upp með að stofna til útgjalda umfram fjárheimildir, jafnvel ár eftir ár. Í öðrum tilvikum er aftur á móti jafnan fluttur umtalsverður afgangur á fjárheimildum á milli ára. Á það t.d. við um ýmsa safnliði ráðuneytanna.``

Í ítarlegri umsögn Ríkisendurskoðunar er farið yfir allmörg atriði, bent á að ráðuneytin láti stofnanir standa uppi með vanda sinn ár eftir ár vitandi það að slík staða fer bæði á svig við lög og heftir eðlilega starfsemi stofnananna. Því er, frú forseti, mjög mikilvægt að fjárlagagerðin, bæði fjárlagafrv. og fjáraukalögin við 1. umferð á Alþingi, séu unnin með þeim hætti að farið sé að lögum um fjárreiður ríkisins og tekið á hlutunum á raunhæfan og eðlilegan hátt, en stofnanir ekki látnar sitja eftir með halla og erfðan rekstur ár eftir ár án þess að fundin sé á því lausn, eða bætt úr og stofnunum gefinn eðlilegur rekstrargrundvöllur. Og í stað þess að láta meira eða minna geðþóttaákvaðanir ráða því af hvaða stofnunum er skorinn hali eða veitt millifærsla eða skorin af umframgjöld. Það á ekki að vera geðþóttaákvörðun sem framkvæmd er í lokafjárlögum. Það á ekki heldur að geyma stóra liði eins og lífeyrissjóðsgreiðslur, eða vera með væntingar um skatta, geyma að koma með það inn í þingið þangað til 3--4 árum eftir að sá gerningur hefur raunverulega átt sér stað. Það sýnir ekki góða stjórnsýslu fyrir utan að það býður heim freistingunni að leggja fram frv. til fjárlaga og afgreiða fjárlög fyrir hvert ár sem sýnir alls ekki hinar raunverulegu tölur sem um er að ræða. Hægt er að breyta slíkum aðgerðum til fegrunar á fjárlögunum og fjárlagafrv. svo það líti betur út í augum almennings á þeim tíma þegar það er lagt fram. Það tjáir ekki heldur þingmönnum sem um það eiga að fjalla hinn raunverulega sannleika.

Frú forseti. Ég tel ástæðu til að við skoðum frv. betur milli 2. og 3. umr. hvort megi leiðrétta þann mun sem liggur á milli lokafjárlaga og ríkisreiknings eins og hér hefur komið fram. Það er ekki löglegur gerningur að samþykkja frv. til lokafjárlaga sem ekki stemmir við ríkisreikning fyrir það ár. Þar munar allnokkru og er mjög mikilvægt að mismunurinn sé leiðréttur og fundin lausn þar á þannig að við séum að gera allt á löglegan hátt.

Ég fagna þeim yfirlýsingum sem hv. formaður fjárln. Magnús Stefánsson gefur, að lofa bót og betrun í vinnubrögðum. Svo áður en mörg ár líða verði menn búnir að ná í skottið á sjálfum sér með að það fylgist að lokafjárlög og ríkisreikningur við lok hvers árs og vinnubrögð verði öll mun vandaðri en við hingað til höfum mátt sjá, a.m.k. við afgreiðslu fjárlaga og lokafjárlaga fyrir árið 2001 sem kemur næst á dagskrá.