Lokafjárlög 2001

Þriðjudaginn 18. maí 2004, kl. 12:19:28 (8548)

2004-05-18 12:19:28# 130. lþ. 119.13 fundur 653. mál: #A lokafjárlög 2001# frv. 101/2004, Frsm. 2. minni hluta JBjarn
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 130. lþ.

[12:19]

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir nál. 2. minni hluta sem ég skipa sem fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs í fjárln.

Það sama á við hér um lokafjárlög fyrir árið 2001 og 2000. Við ræddum áðan að þetta er mjög óeðlilegt að við skulum hér vera að afgreiða lokafjárlög þremur árum eftir að búið er að framkvæma alla þessa gjörninga sem verið er að taka á. Framkvæmdarvaldið hefur tekið sér það vald. Þetta er í rauninni frágengið mál og þingið hefur sáralítið um það að segja nú nema bara finna að og segja að hér sé farið á svig við fjárreiðulög. Tækni og vilji til að allar upplýsingar um fjárþörf og fjármeðferð stofnana og ráðuneyta liggi fyrir í lok viðkomandi árs eiga að vera til þannig að hægt sé þá að grípa til ráðstafana við gerð fjáraukalaga og það á að gera. Það má ekki beita hér bókhaldsbrellum við að loka fjárlögum og fá út hentuga útkomu með því að geyma stóra liði eins og lífeyrissjóðsskuldbindingar eða ofáætla skatttekjur til að stemma af og búa til fallega tölu í fjárlögum hverju sinni. Það eru ólíðandi vinnubrögð þegar læðist að manni sá grunur að það sé hluti af ástæðunum.

Frú forseti. Ég fagna yfirlýsingu hv. formanns fjárln. um að í gangi séu gagngerar ráðstafanir til að koma þessu á réttan kjöl og saman fari lokafjárlög og ríkisreikningur og þau stemmi þá saman. Ég vona að það takist nú við afgreiðslu næstu lokafjárlaga.