Skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða

Þriðjudaginn 18. maí 2004, kl. 14:45:04 (8565)

2004-05-18 14:45:04# 130. lþ. 119.24 fundur 480. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða# (EES-reglur, fjárfestingar o.fl.) frv. 70/2004, Frsm. PHB
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 130. lþ.

[14:45]

Frsm. efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. frá hv. efh.- og viðskn. um frv. til laga um breyting á lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum.

Þær breytingar sem felast í frumvarpinu varða annars vegar innleiðingu á tilskipun nr. 98/49/EB, um verndun viðbótarlífeyrisréttinda launþega og sjálfstætt starfandi einstaklinga sem flytjast á milli aðildarríkja EB, sbr. 3. gr. frumvarpsins, en hins vegar eru lagðar til breytingar á 8. gr. laganna er leggja skyldur á herðar erlendum aðilum sem óska eftir að starfa á íslenskum markaði og 36. gr. laganna er varðar heimildir lífeyrissjóða til fjárfestinga.

Við meðferð málsins spannst nokkur umræða um rök með og á móti því að hlutdeildarskírteini verðbréfasjóða séu skráð í kauphöll og um túlkun á 36. gr. laganna varðandi þetta efni. Eftir að hafa hlýtt á mál gesta ákvað nefndin að leggja ekki til efnislegar breytingar á frumvarpinu er tækju sérstaklega á þessu eða breyttu gildandi framkvæmd. Nefndin mælist þó til þess að fjármálaráðherra taki málið til ítarlegrar skoðunar í samstarfi við Fjármálaeftirlitið og Kauphöll Íslands.

Að lokinni umfjöllun um málið og fundi með gestum ákvað nefndin að leggja til nokkrar breytingar á 4. gr. frumvarpsins sem flestar eru lagðar til vegna athugasemda sem komu fram í umsögnum um málið auk þess að leggja til að við frumvarpið bætist ný grein er kveði sérstaklega á um innleiðingu framangreindrar EB-tilskipunar. Loks er lögð til breyting á gildistökuákvæði frumvarpsins.

Í nál. eru síðan taldar upp þær breytingar sem nefndin leggur til og lýsing á þeim.

Nefndin leggur til að frv. verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Hv. þm. Gunnar Örlygsson sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er hann samþykkur áliti þessu.

Undir nál. rita hv. þingmenn Pétur H. Blöndal, Jónína Bjartmarz, Birgir Ármannsson, Dagný Jónsdóttir, Drífa Hjartardóttir, Össur Skarphéðinsson, Einar Már Sigurðarson, Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon.