Tekjustofnar sveitarfélaga

Þriðjudaginn 18. maí 2004, kl. 14:47:49 (8566)

2004-05-18 14:47:49# 130. lþ. 119.25 fundur 967. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (einsetning grunnskólans) frv. 67/2004, Frsm. meiri hluta GÞÞ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 130. lþ.

[14:47]

Frsm. meiri hluta félmn. (Guðlaugur Þór Þórðarson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir hönd meiri hluta félmn. fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, með síðari breytingum.

Þetta er í sjálfu sér ekki stórvægileg breyting en hún er í þrennu lagi. Í fyrsta lagi að í stað ártalanna ,,2002--2005`` komi: 2002--2006. Í öðru lagi að í stað orðanna ,,fyrstu þrjú árin`` komi: fyrstu fjögur árin. Og í þriðja lagi að í stað ártalsins ,,2005`` komi: 2006.

2. gr. frv. kveður á um að lögin öðlist þegar gildi. Greinargerðin er örstutt og ég ætla að lesa hana, með leyfi forseta:

Með lögum nr. 60/2002, um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga, var ákveðið að veita samtals 735 millj. kr. á árunum 2002--2005 úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga til að ljúka átaki til einsetningar grunnskólans í sveitarfélögum með fleiri en 2.000 íbúa. Komið hefur í ljós að enn vantar tæpar 200 millj. kr. upp á að sveitarfélög geti lokið framkvæmdum sem þau eiga rétt á að fá styrktar samkvæmt reglum sjóðsins. Er því lagt til að gildistími ákvæðis til bráðabirgða IV verði framlengdur um eitt ár, sem felur í sér að lögbundið framlag til Lánasjóðs sveitarfélaga verði veitt til verkefnisins líkt og gert hefur verið undanfarin ár. Komi 200 millj. kr. til greiðslu á árinu 2005, í stað 135 millj. kr. samkvæmt gildandi lögum, og 135 millj. kr. á árinu 2006.

Frumvarpið hefur ekki í för með sér útgjaldaaukningu fyrir ríkissjóð.

Í sjálfu sér er þarna ekki um stórt mál að ræða heldur er verið að lengja ákvæðið um eitt ár ef þannig má að orði komast, virðulegi forseti.