Sveitarstjórnarlög

Þriðjudaginn 18. maí 2004, kl. 14:55:01 (8569)

2004-05-18 14:55:01# 130. lþ. 119.26 fundur 856. mál: #A sveitarstjórnarlög# (sameining sveitarfélaga, nefndir, ábyrgðir o.fl.) frv. 69/2004, Frsm. GÞÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 130. lþ.

[14:55]

Frsm. félmn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Einar Már Sigurðarson spurði hvers vegna væri verið að ræða um að hækka hlutfallið í stað þess að hafa það eins eða lækka það. Ef ég man rétt held ég að komið hafi athugasemd frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga frekar en ráðuneytinu. Mig minnir að það hafi komið þaðan. Það voru ekki miklar umræður um það í nefndinni en öll sú vinna sem tengdist þessum breytingum miðaðist að því að ná sem víðtækastri sátt um málið þannig að menn tókust ekkert sérstaklega á um það. Ef menn reikna þetta út er þetta ekki mikil breyting en þó einhver og sá sem hér stendur minnist þess a.m.k. ekki að miklar mótbárur hafi verið við það í nefndinni en það er sjálfsagt og eðlilegt að ræða þetta eins og allt annað. Ég er þó nokkuð viss um að þetta voru athugasemdir sem komu frá sveitarfélögunum hvort sem það var í gegnum Samband íslenskra sveitarfélaga eða hvort það var niðurstaða fulltrúa sem sitja í nefnd sem hv. þm. þekkir vel og tengist sameiningu sveitarfélaga sem hefur fengið ábendingu um það á ferðum sínum um landið. Um slíka ábendingu var að ræða, þetta er ekki pólitísk stefnumótun eða að menn hafi tekið hana út frá þeim forsendum heldur er þetta fyrst og fremst sett inn til þess að reyna að ná sátt við sem flesta aðila og eins og ég segi þá voru ekki mótbárur í nefndinni við þessari breytingu, ef ég man rétt.