Sveitarstjórnarlög

Þriðjudaginn 18. maí 2004, kl. 15:46:54 (8575)

2004-05-18 15:46:54# 130. lþ. 119.26 fundur 856. mál: #A sveitarstjórnarlög# (sameining sveitarfélaga, nefndir, ábyrgðir o.fl.) frv. 69/2004, MÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 130. lþ.

[15:46]

Mörður Árnason (andsvar):

Forseti. Ég skal ekki segja um þessa nefnd sem ráðherra skipar en mér finnst ekki sniðugt að ráðherrar skipi menn í nefndir með tilnefningum eða einhvers konar ráðslagi úr flokkunum. Ég held að það sé betra að kjósa slíkar nefndir á Alþingi. Hins vegar hef ég átt orðastað við hv. þm. Ögmund Jónasson síðasta áratuginn um sameiningarmál af ýmsu tagi og við höfum ekki verið sammála í því. Ég hef talið að a.m.k. í pólitíkinni sé betra að vera í stórum flokkum, vera í miklu samstarfi jafnvel þó að menn kunni að hafa ágreining sín á milli og ná því þess vegna fram með stærðarhagkvæmni eins og mundi verða sagt í bisness sem ekki fæst í litlu flokkunum. Hann hefur hins vegar lagt áherslu á það, hv. þm., að mikilvægt sé að ýmis sjónarmið eigi sér sína fulltrúa og það sé í raun mikilvægara fyrir lýðræðið að slík sjónarmið komi fram og séu sjálfstæð og ekki í neinni undirokun af öðrum en að menn leggi áherslu á það sem sameinar og stjórni t.d. landinu í krafti þess.

Ég ber fulla virðingu fyrir þessu sjónarmiði þó að ég telji það rangt í því tilviki sem hér um ræðir en ég vil benda hv. þm. á að það er ekki hægt að gera tvennt í senn, bæði að sleppa og halda. Það er ekki hægt að vera í litlum flokki og vita að hann verður aldrei mjög stór og leggja áherslu á sjálfstæði sitt og skoðanir sínar og krefjast síðan þess réttar sem stór flokkur fær í krafti þingmanna sinna og atkvæða sinna. Ég skil ekki alveg hvernig hægt er að sameina það að vilja vera í litlum flokki og telja það síðan sérstakan lýðræðislegan skort að sá litli flokkur sé ekki jafngildur og hinir stóru.